Bráðabirgðaniðurstöður sýna sýkingu á tólf býlum
Fyrr í haust kom upp vírussýking í íslenskum tómötum og smit staðfest á þremur býlum. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Matvælastofnunar er smit að finnast á flestum stærri tómatabýlum á Suðurlandi. Vírusinn er ekki skaðlegur mönnum og finnst í innfluttum tómötum.
Brynjar Ómarsson forstöðumaður plöntusjúkdómasviðs Matvælastofunar, sagði í samtali við Bændablaðið að bráðabirgðaniðurstöður sýndu að Pepino mósaík vírus, PepMV, sýking væri orðin nokkuð útbreidd hjá stórum tómataframleiðendum hér á landi.
„Bráðabirgðaniðurstöðurnar sýna að vírusinn er að finna á tólf býlum á Suðurlandi og í ríflega helmingi stærri býlanna.“
Margs konar smitleiðir
Að sögn Brynjars er enn verið að kortleggja dreifinguna og að samkvæmt henni sé sýkingin staðbundin á Suðurlandi. „Þar sem vírusinn er bráðsmitandi og berst með snertismiti geta smitleiðir verið margs konar, til dæmis með fólki eða umbúðum og hvoru tveggja. Vírusinn lifir í fjórtán daga í fatnaði og smitleiðir því margar.“
Vinnur að gerð upplýsingaefnis
„Helsta leiðin til að eiga við vírussjúkdóma í plöntum er með hreinlæti og almennar sóttvarnir.
Sem stendur er Matvælastofnun að útbúa upplýsingaefni og staðlaða verkferla fyrir innlendar aðstæður sem er fyrsta skrefið til að koma málinu í fastan farveg.“
Sýktar plöntur geta verið án einkenna
Brynjar segir að Matvælastofnun hafi fyrst borist fregnir af sýkingunni í haust en hann segir erfitt að meta hvenær hún hafi komið fyrst upp. Hann segir einnig ómögulegt að segja hvernig sýkingin hafi borist til landsins og það gæti hafa verið með fólki eða sýktum innfluttum tómötum.
„Plöntur geta verið sýktar án þess að fram á þeim komi einkenni. Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig slíkt hefur verið á milli býla hér. Breytileikinn á því getur verið mikill og margir þættir sem geta haft áhrif á hvort einkenni komi fram eða ekki.“
Samkvæmt upplýsingum Bændablaðsins er algengast að einkenni sýkinga komi fram á haustin.
Skaðlaust fólki
Brynjar segir að staðfest sé að Pepino mósaík vírus í tómötum sé skaðlaus fólki og að ekki sé ástæða til að hann berist í aðrar plöntur hér á landi.
„Þrátt fyrir það er mikilvægt að koma í veg fyrir frekara smit eins og hægt er með ýtrasta hreinlæti en þar sem vírinn er ekki skaðlegur mönnum hefur ekki verið gripið til þess að stöðva sölu á afurðum frá sýktum býlum, hvorki hér á landi né í nágrannalöndunum.“
Víða landlægur vírus
PepMV er landlægur í tómatarækt víða um Evrópu og þar á meðal löndum þaðan sem mikið er flutt inn af tómötum til Íslands. Þrátt fyrir það náðist að útrýma honum í Finnlandi og einnig á býlum í Noregi og Svíþjóð, að sögn Brynjars.
„Það er of snemmt að segja til um hvort þessi vírus sé kominn hingað til lands til að vera eða hvort okkur tekst að koma böndum á hann,“ segir Brynjar Ómarsson, fagsviðsstjóri plöntusjúkdómasviðs Matvælastofnunar að lokum.