Búinn að uppskera bygg og repju en segir hafrana geta staðið langt fram á haust
Búið er að uppskera bygg og repju að Sandhóli í Skaftárhreppi og um 1/4 af höfrunum er kominn í hús. Tíðin undanfarið hefur tafið fyrir vinnunni en Örn Karlsson bóndi segir veðurspá næstu daga lofa góðu.
Örn tvöfaldaði ræktun á höfrum í vor og sáði í milli 120 og 130 hektara. Hann segir vöxtinn í sumar hafa verið góðan en treystir sér ekki til að spá um heildaruppskeruna í ár þar sem ekki sé búið að þreskja nema hluta hennar.
Örn Karlsson.
Hafrar standa vel
„Hafrarnir eru fullþroskaðir og við þreskjum þegar við getum en tíð hefur verið blaut í haust og það tefur fyrir. Við eru búin að ná inn bygginu og repjunni og um ¼ að höfrunum. Veðurspáin næstu daga er mjög góð og ég hef engar áhyggjur af því að við náum þessu ekki í hús.
Hafrar standast haustveður betur en bygg og repja. Bygg á það til að brotna en það gera hafrar ekki og þeir eru fastheldnir á fræið. Á endanum fellur kornið þó af í vindi þegar það er orðið vel þroskað og lausara.“
Bændur á Sandhóli í Skaftárhreppi tvöfölduðu ræktunina á höfrum í ár
Minnst uppskera af fyrsta árs ökrum
„Fyrst þresking í ár er af fyrsta árs ökrum og uppskeran af þeim er minni en af ökrum sem eru á gömlum túnum sem hafa verið í ræktun í mörg ár og jafnvel áratugi og hafa fengið skít og áburð lengi. Ég treysti mér því ekki til að giska á hvernig uppskeran í ár verður miðað við árið í fyrra.“
Örn segist ekki eiga von á öðru en að hafrarnir seljist vel miðað við að hann annaði vart eftirspurn í fyrra og varan seldist upp.
Aukin ræktun kallar á aukna afkastagetu
Aðspurður segir Örn ekkert ákveðið um hvort hann auki enn við ræktunina á næsta ári. „Aukin ræktun kallar á aukna þurrkgetu auk þess sem við yrðum að líta til annarra þátta til þess að geta aukið afköstin um það sem nú er.“