Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Búum hefur fækkað í flestum landbúnaðargeirum á síðustu tólf árum. Hér má sjá þróun fjölda í fjórum greinum samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Búum hefur fækkað í flestum landbúnaðargeirum á síðustu tólf árum. Hér má sjá þróun fjölda í fjórum greinum samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Fréttir 15. júní 2022

Búum fækkar en tekjur standa í stað

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Hagstofa Íslands birti á dögunum samantekt með upplýsingum um rekstur og efnahag í fimm greinum landbúnaðar; sauðfjárbúa, kúabúa og annarra nautgripabúa, garðræktar, plöntufjölgunar og loðdýraræktar.

Tölurnar ná yfir rúman áratug, eða frá árunum 2008 til 2020.

Samanlagt hefur búum fækkað í öllum þeim geirum nema garðrækt, þar sem búum fjölgaði um átta frá árinu áður og voru árið 2020 alls 216 talsins.

Í árslok 2008 var saman­lagður fjöldi búa 2.795 í land­búnaðargreinunum fimm en tólf árum síðar hafði þeim fækkað um 375 og voru 2.421 talsins, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Í fregn stofnunarinnar kemur fram að rekstrartekjur landbúnaðarins hafi nánast staðið í stað síðan 2016.

„Mældust samanlagðar tekjur greinanna árið 2020 þær sömu og árið 2015 (á föstu verðlagi).

Tekjurnar hækkuðu einungis um tæpt 1% á milli ára 2020 og 2019 og reyndust um 47,7 milljarðar króna. Aukning var í veltu hjá öllum greinum að undanskildum sauðfjárbúum og loðdýrarækt. Árið 2016 fóru tekjur hæst í tæplega 49 milljarða króna en lægstar voru þær um 41 milljarður króna árið 2009.“

Langtímaskuldir lækka

Þrátt fyrir dræma afkomu árið 2020 batnaði efnahagur greinanna þegar á heildina er litið.

„Langtímaskuldir lækkuðu á milli ára um tæpa tvo milljarða króna (3% lækkun) og eiginfjárstaðan vænkaðist um 1,1 milljarð króna (14% aukning). Í árslok 2020 var eigið fé jákvætt í öllum greinum nema loðdýrarækt og algjör viðsnúningur var orðinn á eiginfjárstöðu kúabúa.

Mest var eigið fé hjá sauðfjárbúum og í garðrækt og plöntufjölgun. Eiginfjárhlutfall þeirra var 24% og 33%.“

Samdráttur hjá sauðfjárbúum

Samdráttur var í afkomu sauðfjárbúa. Árið 2008 voru tekjur sauðfjárbúa rúmir 13,47 milljarðar króna en árið 2020 voru þær tæp 12,38 milljarðar.
Sauðfjárbúum fækkaði frá 1.716 árið 2008 í 1.429 bú árið 2020. Fækkunin hefur haldist nokkuð jöfn á milli stærðarflokka og hefur meðalstærð sauðfjárbúa því haldist tiltölulega óbreytt þar sem yfir 40% búa eru smá með fjölda sauðfjár undir hundrað.

Árið 2008 framleiddu búin 8.930 tonn af kjöti en árið 2020 voru tonnin 9.477.

„Tap var á rekstri sauðfjárbúa upp á 92 milljónir króna árið 2020, langtímaskuldir lækkuðu um rúmar 300 milljónir króna í 11,7 milljarða króna og eigið fé, sem var jákvætt um 4,6 milljarða króna, lækkaði um rúmlega 250 milljónir króna frá fyrra ári. Eiginfjárhlutfall var 24%.“

Kúabúum fækkar en stækka

Alls voru 660 starfandi kúabú árið 2020. Á tólf árum hefur þeim fækkað um 61 bú.

Meðalstærð búa hefur heldur vaxið á tímabilinu, þannig voru stærri bú (með yfir 50 mjólkandi kýr) alls 34% allra kúabúa samanborið við 22% hlutdeild árið 2008.

„Samanlagðar tekjur kúabúa jukust um rúmar 400 milljónir króna árið 2020 og voru tæplega 26,5 milljarðar króna sem jafnframt var svipað gildi og undanfarin fimm ár miðað við fast verðlag. Aukning var á hagnaði á milli ára úr 54 milljónum króna í 414 milljónir króna sem samt sem áður var langt frá 3 milljarða króna meðalhagnaði 2010­2018. Eiginfjárstaðan batnaði hins vegar úr 359 milljónum króna árið 2019 í tæplega 1,4 milljarða króna árið 2020 enda batnaði skuldastaðan umfram eignaskerðingu (langtímaskuldir voru 38,7 ma. kr. árið 2020 eða 1,7 milljörðum króna lægri en árið 2019). Eiginfjárhlutfall var 3%,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Þá hefur öðrum nautgripabúum einnig fækkað lítillega og eru í dag 88 talsins. Velta þeirra nam, árið 2020, 1,3 milljörðum króna og var nær óbreytt frá fyrra ári miðað við verðlag.

„Tap var á rekstri nautgripabúa upp á 82 milljónir króna sem var jafnframt svipuð afkoma og síðustu tvö árin á undan en almennt hefur reksturinn verið nokkuð sveiflukenndur frá 2008. Fjárhagsstaðan var að mestu óbreytt. Þó lækkaði eigið fé um 60 milljónir króna (í tæplega 450 milljónir króna) og langtímaskuldir jukust um sambærilega upphæð. Eiginfjárhlutfall var 17%.“

Jákvæðar fregnir úr garðrækt

Fjöldi búa í garðrækt hefur aukist lítillega á tólf árum en almennt hefur orðið lítil breyting síðan 2008. Búum í ræktun á kartöflum hefur fækkað úr 55 í 40 en fjölgað um 16 í ræktun annarra nytjajurta.

„Tekjur árið 2020 jukust í nær öllum flokkum og alls um tæplega 300 milljónir króna. Sé miðað við fast verðlag árið 2020 var aukning um 11 milljónir króna í ræktun á aldingrænmeti og papriku (tekjur ársins námu 1,4 milljörðum króna), 100 milljónir króna í ræktun á kartöflum (tekjur einn milljarður króna) og blómarækt (tekjur 1,1 milljarður króna), 110 milljónir króna í ræktun annarra nytjajurta (tekjur 490 milljarðar króna) og ríflega 130 milljónir króna í plöntufjölgun (tekjur 535 milljarðar króna) en samdráttur um 176 milljónir króna í ræktun á öðru ótöldu grænmeti (tekjur 2,8 milljarðar króna).

Jákvæð afkoma og aukinn hagnaður var í öllum flokkum að undanskilinni ræktun á aldin­grænmeti og papriku þar sem hagnaðurinn dróst töluvert saman, eða um 83 milljónir króna.

Alls nam hagnaður garðræktar og plöntufjölgunar um 540 milljónum króna, sem var hækkun um 200 milljónir frá fyrra ári. Eigið fé var jákvætt hjá öllum flokkum (minnst í blómarækt en þó í fyrsta sinn jákvætt á tímabilinu) og alls tæplega 500 milljónum krónum hærra en árið 2019 sem alfarið mátti rekja til hagnaðar ársins 2020 enda voru langtímaskuldir óbreyttar. Eiginfjárhlutfallið var 33%,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Umfang loðdýraræktunar minnkar verulega

Loðdýrabúum hefur fækkað og samhliða hefur samdráttur orðið í afkomu þeirra. Loðdýrabúum hefur fækkað úr 41 árið 2010 í 28 árið 2020. Tekjur hafa dregist saman samfellt síðan 2015. Tekjur loðdýrabúa var árið 2008 alls 1.155 milljónir króna en árið 2020 aðeins 290 milljónir króna.

„Þá var tap á rekstrinum árið 2020 upp á 107 milljónir króna en loðdýrarækt var síðast arðbær árið 2013. Í samræmi við samfelldan taprekstur var eigið fé neikvætt um 200 milljónir króna í árslok 2020, langtímaskuldir 589 milljónir króna og eignir 777 milljónir króna (sem fóru hæst í tæpa 2,6 milljarða króna árið 2014),“ segir í fregn Hagstofu Íslands en á vef þeirra má nálgast ítarlegri gögn.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...