Búvörusamningar samþykktir á Alþingi
Alþingi hefur samþykkt frumvarp um búvörusaminga eftir 3. umræðu um málið sem fór fram í dag.
Alþingi samþykkti samningana með breytingartillögu 1647 frá meirihluta atvinnuveganefndar með 19 atkvæðum gegn sjö.
Í grundvallaratriðum felast breytingarnar, frá samningi ríkis og bænda 19. febrúar síðastliðinn, í því að einungis fyrstu þrjú ár samningsins er staðfest, en svo er lagt upp með að framtíðarsýn til tíu ára sé mótuð. Samráðsvettvangur verður myndaður milli stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnulífs um mótun landbúnaðarstefnunnar.
Í samþykktum samningum er fyrirhuguðum breytingum á verðlagningu á mjólk frestað og verðlagsnefnd starfar því áfram með sama hætti og verið hefur. Ekki verður hróflað við greiðslumarkskerfi í mjólkurframleiðslu að sinni. Þá er Mjólkursamsölunni gert skylt að selja öðrum vinnsluaðilum allt að 20 prósent af innlagðri mjólk hverju sinni á heildsöluverði.