Búvörusamningarnir sagðir innihalda „ríkisstyrkt dýraníð“
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Mikið hefur verið rætt í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum um búvörusamningana sem samþykktir voru á Alþingi í síðustu viku. Á sama fundi var tillaga um fullgildingu tollasamnings við ESB einnig samþykkt, en hann getur haft veruleg áhrif á sumar greinar íslensks landbúnaðar.
Athygli vakti að fjöldi þingmanna var fjarstaddur atkvæðagreiðsluna um búvörusamningana, þrátt fyrir yfirlýsingar um mikilvægi málsins. Samningarnir voru samþykktir með 19 atkvæðum gegn 7. Alls greiddu 16 þingmenn ekki atkvæði við lokaatkvæðagreiðslu og 21 þingmaður var fjarverandi. Þeir sem ekki treystu sér til að greiða atkvæði við frumvarpið í heild höfðu þó greitt atkvæði með einstökum liðum frumvarpsins eftir að breytingartillögur þeirra höfðu verið felldar. Þannig var það t.d. varðandi kaflann um dýravelferð sem einna mestu átökin voru um.
Forstjóri Haga sagði samningana innihalda ríkisstyrkt dýraníð
Finnur Árnason, forstjóri Haga, fullyrti á Facebook-síðu sinni í kjölfar samþykktar búnaðarsamninga að þeir innihéldu „ríkisstyrkt dýraníð“ eins og hann orðaði það, en stafsetti reyndar „nýð“ með ypsiloni. Þessi ummæli forstjórans hafa lagst mjög illa í bændur sem telja að hann hafi með orðum sínum stimplað alla bændur landsins sem dýraníðinga.
Formaður BÍ sendi forstjóranum tóninn í harðorðri yfirlýsingu
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sendi frá sér yfirlýsingu vegna þessara ummæla þar sem sagði m.a.:
Sindri Sigurgeirsson.
„Forstjóri Haga ætti að sjá sóma sinn í að biðja bændur afsökunar á fráleitum ummælum um að búvörusamningar séu ríkisstyrkt dýraníð. Honum er í sjálfsvald sett að gagnrýna samningana en ummæli af þessu tagi eru út fyrir öll mörk og bera vott um einkar fjandsamlegt viðhorf í garð íslenskra bænda. Ítrekað hefur forstjóri Haga haft uppi neikvæð ummæli um íslenskan landbúnað en með þessum tilteknu ummælum tekur steininn úr og eru því fyrirtæki sem hann starfar fyrir til háborinnar skammar.
Íslenskir bændur vinna að því hörðum höndum allan ársins hring að tryggja íslenskum almenningi heilnæm matvæli án sýklalyfja eða annarra aukaefna sem algeng eru í landbúnaði í öðrum löndum. Það er eitt af forgangsmálum Bændasamtakanna að íslenskir bændur standist ýtrustu kröfur um dýravelferð svo að Ísland verði í fararbroddi í þeim efnum.“
Fjöldi umsagna um málið í atvinnuveganefnd
Haraldur Benediktsson, bóndi á Vestra-Reyni, alþingismaður og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, segir að atvinnuveganefnd hafi verið nokkur vandi á höndum með afgreiðslu búvörusamninganna. Nefndinni höfðu borist mikill fjöldi umsagna, sem voru allt frá eindregnum stuðningi við þingmálið og yfir í að láta það niður falla.
Haraldur Benediktsson.
„Við tókum á móti miklum fjölda gesta og fundirnir um málið voru margir. Það fór reyndar minna fyrir tillögum í öllum þessum umsögnum og gestakomum, en þó var það alls ekkert reglan. Nokkrir umsagnaraðilar lögðu málinu gott til – en þá var vandinn að samræma það sjónarmiðum og áherslum samninganna. Það var heldur ekki gott hve deildar meiningar voru á meðal bænda. Sjónarmið þeirra sem mótmæltu sérstaklega sauðfjársamningnum voru mjög gild. Sérstaklega þar sem í upphafi var ekki til útfærsla á sértækum byggðastuðningi.“
Fleira þarf til að tryggja búsetu en búvörusamning
„Þegar vinna í nefndinni hófst í ágúst voru komnar tillögur um þann þátt. Eftir situr að það er ekki lengur hægt að ætlast til þess að afurðaverð og búvörusamningur tryggi eitt og sér búsetu. Þar þurfa aðrir kraftar að koma til – sérstaklega á veikari svæðum landsins. Framtíð sauðfjárræktar er stórt byggðamál og mikilvægt að takist að treysta undirstöður hennar.
Í sumarhléinu hafði síðan Samkeppniseftirlitið birt úrskurð sinn um starfshætti MS. Það mál litaði síðan talsvert okkar vinnu í ágúst. Það er því miður ekki skilningur á hlutverki og tilgangi ýmissa þátta í starfsumhverfi mjólkurframleiðslunnar. Það var álit meirihlutans að ekki væri heppilegt að við vinnslu málsins væri hægt að sjá að þingið tæki afstöðu i þeirri deilu. Þá hafði Ísland líka tekist á hendur skuldbindingar í nýjum viðskiptasamningi við ESB. Það hafði mikil áhrif á vinnu við þingmálið.“
Ekki sjálfgefið að fá samningana afgreidda í þinginu
− Kom einhvern tíma sú staða upp að málið fengi ekki afgreiðslu þingsins?
„Meirihluti atvinnuveganefndar taldi mikilvægt að tefja ekki frekar nauðsynlegar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins. Samningarnir sem eru að renna sitt skeið eru að stofni til frá 2004 og 2006. Breytingar samkvæmt nýjum samningum þurfa aðdraganda og tollasamningurinn kallar á allt annað starfsumhverfi. Því var ekki hægt að fallast á þau sjónarmið að vegna þess hve málið er umdeilt að fresta afgreiðslu þess og framlengja gamla samninga. Það sjónarmið var sannarlega uppi. Heldur fór meirihluti nefndarinnar þá leið að móta næstu skref um frekari breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins.
Nefndin ræddi ítarlega þau mörgu sjónarmið sem komu fram í umsögnum um málið og gerir þeim í raun skil, í þeim áhersluatriðum sem nefndin felur samráðsvettvangi um landbúnað. Meginmálið er að endurskoða á samningana árið 2019, samkvæmt ákvæðum þeirra. Það er mikilvægt að undirbúa þá endurskoðun rækilega. Þar nefnum við atriði sem alltof lengi hafa ekki fengist einu sinni rædd í tengslum við landbúnað en er löngu tímabært að taka á.
Ég nefni þar atriði eins og afkomuþróun í landbúnaði. Stöðugt er kallað á kerfisbreytingar og hagræðingu. Samt er enginn með á takteinum hve miklum árangri hefur tekist að ná á undanförnum árum.
Ég nefni starfsumhverfi afurðastöðva. Við berum okkur stöðugt saman við útlönd, en engin nefnir hve umfangsmikil regluverk eru í öðrum löndum til að verja afkomu bænda, afurðastöðva eða öllu heldur búvörumarkaðinn. Hér á landi hefur orðið mikil breyting á rekstri þeirra og síðan aftur breyting á því umhverfi sem þær þurfa að starfa í. Aukinn innflutningur, færri smásalar, aukið eftirlit og íþyngjandi regluverk.
Þá er áhersla okkar á að þau atriði sem við höfum lagt í lög og reglur og sannarlega aukakostnað bænda og búvöruframleiðslu, eins og aðbúnaðarkröfur í alifuglarækt, svínarækt og flestum greinum, verði kostnaðargreind og þannig dregið fram að við höfum ekki sömu samkeppnisstöðu. Það er ekki bara hægt að krefjast meiri samkeppni með innflutningi ef síðan á að hefta íslenska bændur í að takast á við þá samkeppni.
Meirihlutinn leggur líka mikla áherslu á neytendasjónarmið í tillögum sínum. Rétta upplýsingagjöf, rétt neytenda til að þekkja uppruna matvælanna.“
Góð samstaða um hlutverk landbúnaðar í loftslagsmálum
− Hvert er stærsta atriðið í þessum áherslum atvinnuveganefndar?
„Tvímælalaust áhersla sem við leggjum á hlutverk landbúnaðarins í loftslags- og umhverfismálum. Ísland hefur tekist á hendur skuldbindingar um loftslagsmál. Verkefni næstu endurskoðunar búnaðarsamninga er að ramma vel inn hlutverk landbúnaðarins í því. Ekki síður að landbúnaðurinn geti fengið tækifæri til að láta til sín taka í þeim efnum. Um þessi atriði er góð samstaða meirihluta og minnihluta. Þótt minnihlutinn skrifi ekki endilega á nefndarálit okkar er vel hægt að segja að í öllum aðalatriðum er góð samstaða um málið. Það er mikilvægt.“
− Er það ásættanlegt að landbúnaðurinn þurfi að sitja uppi með samstarfsvettvang um starfsumhverfi sitt?
„Með nefndaráliti okkar fylgir samantekt um hvernig starfsumhverfi landbúnaðarins hefur þróast. Sú saga er ekki einstök fyrir Ísland.
Eftir þjóðarsáttina 1991 var umfangsmikil umræða um landbúnað og í kjölfar þess veruleg uppstokkun á starfsumhverfinu. Í aðdraganda mjólkursamnings 2004 var umfangsmikil greiningarvinna og umræða. Það var ekki núna – enda var það helsta gagnrýnin á ferlið síðasta vetur. Nú var meira stuðst við rannsóknir frá Hagfræðistofnun og Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri.
Það hefði skapað miklu meiri grundvöll að eiga t.d. góðan hóp af þeim sem hafa margvíslega hagsmuni af landbúnaði að ræða þær skýrslur.
Þá kom tollasamningurinn í spilið og hann breytir mjög miklu. Ég held að fáir átti sig ennþá hve djúp spor hann mun skilja eftir sig. Landbúnaðurinn er ekki stærsta atvinnugreinin en hann er stór hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Því veldur hann heitum tilfinningum.
Meirihluti atvinnuveganefndar leggur alla áherslu á að endurskoðun 2019 valdi umfangsmikilli uppstokkun og breytingar sem gagnast bæði bændum, neytendum og þess iðnaðar og þjónustu sem hann skapar.“
Fyrirfram neikvæð afstaða ASÍ
„Ég tek eftir því t.d. að ASÍ gerir lítið úr þessari endurskoðun. Það er einmitt helsta hættan að undirbúningurinn verði ekki góður þegar samtök og hópar mæta til þessa verks með fordóma og ekki af heilum huga.
Við formaður atvinnuveganefndar kynntum fjölmörgum aðilum þessar áherslur okkar og þeim var alls staðar fagnað. Ég er mjög bjartsýnn á góðan árangur af slíkum samstarfsvettvangi. Samningagerðin sjálf er hins vegar alltaf í beinum viðræðum bænda og ríkisins.
Ég beini því líka beint til samtaka bænda, afurðastöðva og annarra sem eru hluti af íslenskum landbúnaði að næstu þrjú árin ráða mjög um framtíðina og að þau láti sig varða vandaða umfjöllun og umræðu um atvinnugreinina. Nú verður að grafa sundurlyndið og einhenda sér í slíkt samstarf,“ segir Haraldur Benediktsson.