Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Nýbygging í smíðum við Urriðaá.
Nýbygging í smíðum við Urriðaá.
Mynd / Dagbjört Diljá Einþórsdóttir
Fréttir 3. desember 2020

Byggja 300 fermetra stálgrindarhús á tveim bæjum til að auka þægindi við sauðburð

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Ólafur Rúnar Ólafsson og Dagbjört Diljá Einþórsdóttir, bændur á Urriðaá í Miðfirði, eru bjartsýn á framtíð sauðfjárbúskapar. Þau standa í stórræðum við útihúsabyggingar þessa dagana, ásamt nágranna sínum, Ara G. Guðmundssyni, bónda á Bergsstöðum, og konu hans, Elínu Önnu Skúladóttur. 

Þótt mikið hafi verið rætt um slæma afkomu í sauðfjárrækt og áframhaldandi niðurskurð í greininni, þá eru þessir bændur fullir bjartsýni og eru að stækka sinn húsakost. 

„Það gengur bara ljómandi vel í sauðfjárbúskapnum,“ sagði Ólafur í samtali við Bændablaðið. Hann segir að lífið gangi sinn vanagang, en lítill sem enginn snjór hafi verið í haust þar til fyrir helgina, en talsvert frost hefur þó verið að undanförnu.   

Eru komin með 700 fjár og að byggja nýtt fjárhús

„Við erum komin með hátt í 700 fjár og erum núna að byggja nýtt fjárhús. Við erum að byggja hér á tveim bæjum, hér hjá okkur og á þarnæsta bæ við mig á Bergsstöðum hjá Ara Guðmundssyni. Hann er smiður og við höfum að mestu verið tveir að vinna í þessu. Þar er um að ræða alveg eins hús. Við fórum saman í þetta verkefni, að reisa tvö 300 fermetra stálgrindarhús sem eru klædd með yleiningum.“

Munið þið þá fjölga enn fénu með tilkomu nýju fjárhúsanna?

„Við fjölgum ekki mikið meira, en þetta er aðallega hugsað sem vorhús og til að auka plássið sem við höfum.“

Þeir félagar voru að vinna við að klæða húsið á Bergsstöðum í síðustu viku en urðu síðan að stoppa til að bíða af sér veðrið sem gekk yfir fyrir helgina. Vonuðust þeir til að geta haldið áfram við að klæða húsin í þessari viku.

„Svo á eftir að vinna svolítið í húsunum að innan og er ætlunin að þetta verði klárt fyrir sauðburðinn í vor,“ segir Ólafur.

Metár í fallþunga á Urriðaá og meðalvigt yfir 20 kg

– Hvernig var afkoman eftir sumarið og hvernig kom haustslátrunin út hjá ykkur?

„Það var mjög gott og algjört metár, með fallþunga að meðaltali yfir 20 kíló. Það mætti svo sem alltaf fást meira fyrir afurðirnar, en það er samt ekkert hægt að kvarta. Þegar maður leggur sig allan fram við þetta, þá held ég að það sé vel hægt að hafa eitthvað upp úr þessu.“

Ólafur segir að þau hafi látið slátra sínu fé í næsta sláturhúsi sem er á Hvammstanga.

Sauðfjárbændur víðast um land vinna mikið fyrir utan bú sín og margir hafa rætt um að það geti algjörlega skipt sköpum við að halda rekstri sauðfjárbúa á floti. Sumir eru í verktakavinnu, við skólaakstur og snjómokstur og aðrir í kennslu eða byggingarvinnu. Sú virðist þó ekki alveg raunin á Urriðaá og sýnir uppbyggingin í búrekstrinum að þar er greinilega haldið vel á spöðum. Samt hefur fjölskyldan líka verið að stækka og þau hjón komin með tvö börn, stelpu og strák, þriggja og eins árs.

– Þurfið þið þá ekki mikið að vinna fyrir utan búið?

„Jú, aðeins, við höfum minkað það. Dagbjört hefur ekki farið aftur á vinnumarkaðinn eftir fæðingarorlofið. Ég er í ígripavinnu nokkra daga yfir árið. Búskapurinn hefur gengið vel og í raun komið okkur verulega á óvart,“ segir Ólafur.

Bætir burðaraðstöðu 

Ari G. Guðmundsson, húsasmiður og bóndi á Bergsstöðum, og fjölskylda hans, er með 620 fjár. Hann segir að með byggingu á húsinu sé ekki ætlunin að fjölga fé, heldur aðeins að bæta aðstöðuna. 

„Við höfum verið að nýta vélageymsluna og hlöðu undir sauðburðinn á vorin, en með tilkomu á þessu húsi þurfum við þess ekki lengur,“ segir Ari. 

Hann segir að stefnt sé að því að klára að loka húsunum fyrir jól. Vissulega megi segja að bygging fjárhúsa í sveitum teljist til tíðinda nú til dags þegar sauðfjárbændur séu líklega frekar að hugsa um að skella í lás. – „Þetta er náttúrlega bilun,“ segir Ari og hlær. 

Metár  á Bergsstöðum og fallþunginn um 20 kíló

Afraksturinn út úr sauðfjárræktinni hjá þeim á Bergsstöðum eftir sumarið var mjög góður líkt og á Urriðaá. 

„Fallþunginn var rétt tæp 20 kíló að meðaltali hjá okkur og þetta er algjört metár og ræktunin hefur því verið að koma vel út. Við kvörtum svo sem ekkert, en það er auðvitað galið að skilaverðið til okkar frá afurðastöð sé ekki nema 500 krónur á kílóið. Það má alveg segja að það sé skrítið þegar staðan er orðin sú hjá mörgum sauðfjárbændum að þeir séu að fá meira í stuðningsgreiðslur en þeir fá fyrir afurðir sínar. Það er eitthvað skakkt við slíkt,“ segir Ari G. Guðmundsson.