Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 4. desember 2017
Danska fyrirtækið Mille Foods hefur sótt hratt fram í Kína
Höfundur: Snorri Sigurðsson
Það þekkja líklega fáir hér á landi fyrirtækið Mille Foods en þetta er nýlegt fyrirtæki í afurðavinnslu mjólkur og var stofnað í Danmörku árið 2012. Fyrirtækið kaupir mjólkurduft af Arla og notar það hráefni sem grunn í mjólkurduftblöndu fyrir ungbarnamjólk sem seld er í Kína.
Fyrirtækið hefur náð undraverðum árangri á örstuttum tíma og hefur vöxtur þess vakið athygli víða og nú þegar selur Mille Foods mjólkurduft sem unnið er úr tugum milljóna lítra mjólkur og það á einungis örfáum árum. Nú stefnir í enn frekari vöxt og gerir áætlun fyrirtækisins ráð fyrir að árið 2022 muni sala þess byggja á dufti úr 200 milljón lítrum mjólkur, sem er mun meira en öll íslenska mjólkurframleiðslan er.
Einföld hugmynd
Á bak við Mille Foods stendur kínverski frumkvöðullinn Steve Wang en hann hefur verið búsettur í Danmörku í rúm 20 ár.
Árið 2008 kom upp alvarlegt íblöndunarmál í Kína þegar í ljós kom að 300 þúsund kínversk ungbörn höfðu veikst vegna gallaðs kínversks mjólkurdufts. Um var að ræða duft sem unnið hafði verið úr melamínbættri mjólk. Söfnunaraðilar mjólkur, þ.e. milliliðir sem kaupa mjólk af bændum og selja afurðastöðvum, höfðu blandað melamíni í mjólkina til þess að hækka próteinmælingu hennar. Þá fengu þeir greitt hærra verð fyrir hana. Þetta hafði verið gert í langan tíma og algengt víða í Kína. Það var hins vegar ekki fyrr en þegar duftframleiðsla hófst og byrjað var að blanda mjólkurduft fyrir ungbörn er eitrunaráhrif melamínsins komu fram.
Í kjölfar þessa máls kom upp mikið vantraust heimamanna á kínversku mjólkurdufti og allt í einu skapaðist gullið tækifæri fyrir erlent mjólkurduft. Steve þessi sá þetta tækifæri, stofnaði Mille Foods ásamt nokkrum dönskum meðeigendum og hóf undirbúning framleiðslunnar árið 2012. Tveimur árum síðar var allt tilbúið og öll leyfi til staðar og hófst þá útflutningur Mille Foods til Kína með vörumerkinu Moohko.
Of ódýrt í fyrstu
Fyrsta árið reyndist Mille Foods ekki sérlega gott en salan var langt undir væntingum Steve. Skýringin fólst ekki í gæðum mjólkurinnar heldur einfaldlega í því að varan var allt of ódýr og virtist sem margir foreldrar litu hreinlega ekki við dósunum frá Moohko vegna þess. Lausnin var ótrúlega einföld, þeir hækkuðu einfaldlega verðið og þá tók salan við sér!
Í dag er Moohko meðal 10 dýrustu merkjanna á kínverska markaðinum og það er töluvert þegar horft er til þess að það er talið að 2 þúsund ólík vörumerki af mjólkurdufti fyrir ungbarnamjólk séu á kínverska markaðinum og flest þeirra eru innflutt.
Í þessu sambandi er rétt að hafa hugfast að íbúar landsins eru taldir vera um 1,3 milljarðar manna svo viðbúið er að það sé pláss fyrir marga á þessum markaði. Langstærsti hluti innflutts mjólkurdufts sem notað er í mjólk fyrir ungbörn kemur frá Eyjaálfunni og Bandaríkjunum og eru fyrirtæki frá Nýja-Sjálandi einu með um 70% markaðarins!
Hráefniskostnaðurinn skiptir litlu
Það sem er áhugavert við sögu Mille Foods er hve hráefniskostnaðurinn sjálfur skiptir í raun litlu máli þegar allt kemur til alls. Innflutt mjólkurduft í Kína er verðlagt afar hátt og fimmfaldast í verði við það að fara frá Danmörku og til Kína. Sem dæmi má nefna að ein dós af mjólkurdufti frá Moohko kostar 1.150-1.300 íkr í Danmörku en í Kína þurfa hinir nýbökuðu foreldrar að greiða um 6.250 íkr fyrir sömu dósina.
Hráefniskostnaðurinn sjálfur er því ekki stórkostlegur þegar allt kemur til alls og mætti því vel hugsa sér að hér væri tækifæri fyrir íslenskt mjólkurduft einnig.
Milljarða samningur
Vegna einstaks árangurs hefur Mille Foods vakið mikla athygli og sér í lagi í Kína. Kínverskir fjárfestar leituðu því til forsvarsmanna Mille Foods um aðkomu að fyrirtækinu með enn meiri uppbyggingu í huga og úr varð að Kínverjarnir munu í ár leggja Mille Foods til 8 milljarða íslenskra króna til frekari uppbyggingar. Fjármagnið verður notað til þess að byggja upp enn frekari framleiðslu og er yfirlýst stefna fyrirtækisins að verða meðal þeirra stærstu á þessum markaði á komandi árum. Þá hefur nú þegar verið hafinn útflutningur til fleiri landa en Kína.
Kaupa allt af Arla
Í dag sér Arla um allt fyrir Mille Foods, þ.e. um allt hráefni og sér meira að segja bæði um að blanda og pakka í dósir Mille Foods. Nú er hins vegar verið að koma upp nýrri verksmiðju í Hundested á Sjálandi í Danmörku og mun þá Mille Foods sjá um alla framleiðsluna sjálft.
Reyndar stendur enn til að kaupa mjólkurduft frá Arla til að byrja með, en á næstu árum verður einnig komið upp þurrturnum fyrir mjólk og þá getur Mille Foods einnig séð um þurrkunina sjálfa.
200 milljón lítrar!
Hin nýja verksmiðja Mille Foods í Hundested er með umtalsverða framleiðslugetu og í dag er hægt að pakka þar 5 þúsund tonnum af dufti og ef verksmiðjan er keyrð á fullu allan sólarhringinn getur hún framleitt 10 þúsund tonn á ári. Markmiðið er þó enn meira og gera áætlanir fyrirtækisins ráð fyrir að innan fimm ára geti árleg framleiðsla verið komin í 20 þúsund tonn.
Til þeirrar framleiðslu þarf í kringum 200 milljónir lítra af mjólk frá dönskum kúabúum. Það magn er reyndar ekki nema 3,7% af dönsku mjólkurframleiðslunni en ef það magn er sett í samhengi við íslenska mjólkurframleiðslu þá er það meira en öll árleg framleiðsla hér á landi. Svo sannarlega undraverður árangur á einungis örfáum árum sem þetta fyrirtæki virðist vera að ná.
Byggt á grein í Landbrugsavisen 12. október 2017 eftir Rasmus Willesen.
Snorri Sigurðsson
snsig@arlafoods.com