Ein sameiningartillaga felld en tvær samþykkar
Þrennar kosningar voru á dögunum þar sem kosið var um sameiningar sveitarfélaga. Ein tillaga var felld en tvær samþykktar.
Blönduósbær og Húnavatnshreppur sameinast
Íbúar Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps samþykktu sameiningu. Kjörsókn í Blönduósbæ var um 65%, 411 greiddu atkvæði. Mikill meirihluti, 400 manns, eða yfir 97%, sagði já við sameiningu en 9 svöruðu neitandi, eða 2,2%. Í Húnavatnshreppi kusu 250 manns, tæplega 83% og niðurstaðan var sú að 152, eða tæplega 61%, sagði já, 92 sögðu nei, eða um 37%.
Eitt sveitarfélag í Skagafirði
Íbúar Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykktu sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags verður kjörin 14. maí næstkomandi og tekur sameinað sveitarfélag gildi 15 dögum síðar, segir á vefsíðunni skagfirðingur.is. Kjörsókn í Akrahreppi var góð, um 87% kusu eða 135 manns af 156 sem voru á kjörskrá. Já sögðu 84, nei-in voru 51. Kjörsókn í Sveitarfélaginu Skagafirði var lakari, 35,5%, 2.961 var á kjörskrá en 1.022 atkvæði voru greidd. Alls sögðu 961 já og 54 nei.
Ekki sameining á Snæfellsnesi
Þá var kosið um sameiningu Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar síðastliðinn laugardag. Í Eyja- og Miklaholtshreppi var kjörsókn 74,6 prósent. Alls greiddu 62 atkvæði, en 83 voru á kjörskrá. Já sögðu 20 manns en nei 41. Í Snæfellsbæ var kjörsókn 35%, 412 atkvæði voru greidd en 1.174 voru á kjörskrá. Mjótt var á munum, 207 vildu sameiningu en 201 var á móti. Tillagan er því felld og verður ekki af sameiningu Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps.