Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora
Magne Kvam hefur tekið upp á sitt einsdæmi að leggja spor fyrir skíðagöngu á höfuðborgarsvæðinu.
Hann vill með þessu sýna fram á að það sé hægt að halda gönguskíðabrautum opnum reglulega séu þær unnar almennilega. Uppátækið nefnir hann Sporið.
Þeir sem ætla á skíði geta ekið hinn svokallaða Hólmsheiðarveg sem liggur á milli Grafarholts og fangelsisins þar sem eru þrjú bílastæði. Þá reynir Magne að gera tengispor niður að íbúðargötunni Þorláksgeisla í Grafarholti og segir hann fólk því geta tekið strætisvagn að upphafsstaðnum. Þar að auki gerir hann spor við Hafravatn og Rauðavatn og reynir hann að tengja þessi svæði saman þegar kostur gefst. Magne leggur jafnframt brautir við Blikastaði í Mosfellsbæ.
Hólmsheiðin paradís
„Það er svo mikil synd að sjá svæði eins og Hólmsheiðina ónýtta. Þetta er paradís,“ segir Magne. Margir sem hafi búið í Reykjavík alla sína tíð hafi aldrei uppgötvað þetta svæði sem sé orðið að þéttri skógrækt.
Eitt af markmiðum Magne sé að fá sem fjölbreyttastan hóp fólks á gönguskíði og sýna fram á notagildi svæðisins að vetri. „Allar leiðir hugsa ég þannig að byrjendur geti skíðað þetta, en að þetta sé ekki „dead boring“ fyrir þá sem eru góðir. Mikil áskorun sé að finna hinn gullna meðalveg þannig að allir séu sáttir og leiðirnar ekki hættulegar. Það séu til að mynda aldrei blindbeygjur í kjölfarið af brekkum.
Magne segir ferðaþjónustufyrirtækið Icebike Adventures, sem er í hans eigu, hafa staðið straum af kostnaði við lagningu Sporsins undanfarin sex ár. Mosfellsbær byrjaði að taka þátt í verkefninu í tilraunaskyni í vetur. Magne segist jafnframt vera í viðræðum um stuðning frá Reykjavíkurborg, en það sé lengra ferli. Þá hafi Fjallakofinn og Garmin búðin lagt verkefninu lið.
Hann segir fólk afar þakklátt fyrir framtakið og margir hafi komið að fyrra bragði og sýnt vilja til að styðja við bakið á honum. Því bjó hann til skilti með QR-kóða til að auðvelda fólki að senda styrk. Í Bláfjöllum þurfi fólk að greiða fyrir aðgang að gönguskíðabrautunum og margir séu viljugir til að greiða það sama fyrir að nýta sporin hans Magne.
Fylgist grannt með veðurspá
Ein helsta áskorunin við gerð gönguskíðaspora sé hinn mikli breytileiki í snjónum.
Það skipti öllu máli að fylgjast með veðurspá til að geta sporað á réttum tíma og vera búinn að leggja grunn að brautunum þegar loksins kemur almennilegur snjór. Magne segir það hafa komið fyrir að hann hafi byrjað að spora klukkan þrjú að nóttu þar sem þá skapaðist hagstæður veðurgluggi.
Hann heldur fólki upplýstu um aðstæður á Facebook-síðu undir heitinu „Sporið“ þar sem hann setur daglega inn upplýsingar um ástand og færð. Þá hafi hann sett upp Strava- aðgang fyrir þá allra hörðustu, en þar geti áhangendur fengið tilkynningar í símann um leið og hann er búinn að spora. Í þetta notar Magne fimm heimasmíðuð tæki sem hann dregur á snjósleða sem ræður við að keyra mjög hægt. Hvert tæki þjónar sérstökum tilgangi og er notað við mismunandi aðstæður. Eitt tækið virkar svipað og valtari og er til að þjappa niður púður og koma í veg fyrir að það fjúki.
Þá notar Magne hefil, sem hann líkir við risastóran ostaskera. Með því skefur hann upp efsta lagið og dreifir því til að fylla í ójöfnur. Nú nýlega útbjó Magne tæki þar sem nýttir eru teinar úr sópvindu á rúlluvél með áföstum hnífum sem dregnir eru í gegnum yfirborðið og fræsa upp harðfennið. Mikilvægasta tækið sé hinn eiginlegi spori sem sé sleði með tveimur fleygum undir sem móta sporið. Þetta tæki geri þó ekkert eitt og sér nema það séu fullkomnar aðstæður, sem sjaldan megi reikna með á Íslandi.