Eitt af hverjum þremur búfjárkynjum í útrýmingarhættu
Fjölbreytni búfjárkynja eða afbrigða innan búfjárstofna í heiminum er á hröðu undanhaldi. Í World Watch List for Domestic Animal Diversity sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna gefa út í sameiningu segir að síðastliðin 100 ár hafi um eitt þúsund búfjárkyn dáið út og nýlegar kannanir benda til að eitt af hverjum þremur búfjárkynjum sé í útrýmingarhættu.
Gögnum til vinnslu skýrslunnar var safnað í 170 löndum og náði til 6.500 ólíkra kynja af nautgripum, geitum, sauðfé, kameldýrum, buffalóum, jakuxum, svínum, hestum, kanínum, hænsnum, kalkúnum, gæsum, dúfum og strútum.
Líklegt er að telja verði íslenskt forustufé í flokk með dýrum í útrýmingarhættu eftir að það var greint sem sérstakt kyn.
Samkvæmt viðmiðum FAO telst búfjárkyn vera í útrýningarhættu sé fjöldi kvendýra í hverju kyni undir 2.700 til 7.200 einstaklingar.
Bæði spendýr og fuglakyn í hættu
Búfé er gríðarlega mikilvægt í landbúnaði og fyrir matvælaframleiðslu í heiminum og milli 30 til 40% af heimsveltu fjármagns í landbúnaði tengist búfjárframleiðslu. Um það bil einn þriðji mannkyns byggir lífsafkomu sína á störfum tengdum búfjárhaldi og búfjárframleiðslu og gert er ráð fyrir að framleiðsla á kjöti, mjólk og eggjum á heimsvísu eigi eftir að margfaldast á næstu árum til að mæta auknum fólksfjölda.
Í alþjóðlegum gagnabanka FAO er að finna upplýsingar um 6.379 búfjárkyn 30 ólíkra búfjártegunda, spendýra og fugla. Upplýsingar um fjölda einstaklinga í rúmlega fjögur þúsund kynjum er þekktur. Í gagnabankanum eru heimildir um tæplega 800 kyn sem þegar eru útdauð og tæplega 1.400, um það bil þriðjungur, sem sögð eru standa tæpt eða vera á mörkum þess að deyja út.
Fjöldi búfjárkynja spendýra í útrýmingarhættu hefur aukist frá 23 í 33% frá 1995. Ástand ólíkra fuglategunda sem nytjaðir eru sem búfé er enn verra því talið er að ríflega 63% kynja ólíkra nytjafygla séu í hættu. Í skýrslunni segir að ef ekkert verði að gert muni meira en 2.000 ólík búfjárkyn eða afbrigði þeirra deyja út fljótlega. Hvert kyn fyrir sig er sérstakt og útdauði óafturkræfur og högg fyrir líffræðilegan fjölbreytileika í heiminum.
Rússneskt jakuxakyn, sem er vel aðlagað að ísköldu loftslagi Síberíu, er komið niður fyrir 1.000 dýr.
Innflutningur kynja ógn við náttúrulega fjölbreytni
Helsta ógnin við fjölbreytileika búfjárstofna í heiminum í dag er flutningur kynbætts búfjár með mikla framleiðslugetu, eða svokallaðra framleiðslustofna, frá þróuðum löndum til vanþróaðra. Slíkur flutningur búfjár leiðir oft til kynblöndunar við dýrastofnana sem fyrir eru eða að þeim er skipt út fyrir ný kyn.
Í þróunarlöndunum er oftast litið svo á að búfé frá þróuðum löndum gefi meira af sér innlent búfé. Í flestum tilfellum er þetta rétt en vandamálið er að innlenda féð hefur þróast við aðstæðurnar í hverju svæði fyrir sig og í fæstum tilfellum þrífst mikið kynbætt eða framræktað búfé við þær umhverfisaðstæður sem er að finna víða í þróunarlöndunum.
Talið er að um 4.000 búfjárkyn séu nytjuð í dag, þar af eru 400 í skipulögðu eldi og er þau öll að finna í þróuðu löndunum. Í mörgum löndum er lítill markaður og því fjárhagsleg hvatning fyrir bændur til að halda við gömlum búfjárkynjum. Í öðrum tilfellum hafa innlend kyn neikvæða ímynd og sögð hafa litla framleiðslugetu þrátt fyrir þolgæði þeirra gagnvart umhverfisaðstæðum.
Dæmi um búfjárkyn í hættu
Samkvæmt upplýsingum frá Erfðalindasetri Landbúnaðarháskóla Íslands telst íslenski geitastofninn vera í útrýmingarhættu þrátt fyrir að mikið verk hafi verið unnið undanfarin ár til að verja hann. Í dag telur íslenski geitastofninn rúmlega 1.200 dýr. Einnig er líklegt að telja verði íslenskt forustufé í flokk með dýrum í útrýmingarhættu eftir að það var greint sem sérstakt kyn.
Á Madagaskar er nautgripakyn sem kallast Renitelo á mörkum þess að deyja út. Kynið er mjög vel aðlagað umhverfisaðstæðum á eyjunni og þekkist hvergi annars staðar. Chiapas-sauðfé, sem nýtt hefur verið í rúm 500 ár í Mexíkó vegna ullarinnar og er talið heilagt og því ekki til matar, er á hröðu undanhaldi í landinu vegna minni sölu á varningi úr ull.
Hinterwälder Rind-nautgripakynið, sem finnst aðallega í Svartaskógi, er talið vera í hættu.
Í Víetnam er til nautgripakyn sem kallast H'Mong og var nánast óþekkt til ársins 1997 þar sem eldi þess var á mjög einangruðu svæði. Kynið er mjög vel aðlagað að lífinu í fjöllum í 3.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Auk þess sem þýska Hinterwälder Rind-nautgripakynið, sem finnst aðallega í Svartaskógi, er talið vera í hættu og í Rússlandi er kyn jakuxa, sem eru vel aðlagaðir að ísköldu loftslagi Síberíu, komið niður fyrir 1.000 dýr.
Viðhald kynja nauðsynlegt
Samkvæmt því sem segir í skýrslunni er nauðsynlegt að viðhalda sem flestum kynjum og staðbrigðum búfjár. Fjölbreytnin gerir bændum fært að nytja kyn sem brugðist geta við umhverfisbreytingu, sjúkdómum og eftirspurn neytenda.
Chiapas-sauðfé, sem hefur verið nytjað í Mexíkó í rúm 500 ár vegna ullarinnar, hefur fækkað mikið undanfarin ár.
Fjölbreytni í genamengi búfjárstofna er einnig nauðsynleg til að stofnarnir geti brugðist við sjúkdómum.
Samkvæmt skýrslunni er sjálfbær verndun besta leiðin til að viðhalda fjölbreytni búfjárkynja í heiminum og tryggja áframhaldandi tilvist þeirra.