Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Það er einfaldlega ekki hægt að keppa við vörur sem bera engar upprunamerkingar og eru framleiddar í verksmiðjum erlendis, segir Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri Glófa/VARMA.
Það er einfaldlega ekki hægt að keppa við vörur sem bera engar upprunamerkingar og eru framleiddar í verksmiðjum erlendis, segir Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri Glófa/VARMA.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 14. september 2016

Erfitt að keppa við erlendar vörur án upprunamerkinga

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Margítrekaðar tilraunir okkar undanfarin þrjú ár í því skyni að fá stjórnvöld til að gera eitthvað í málinu skiluðu engum árangri, á okkur var ekki hlustað. Að okkar mati hafa íslensk stjórnvöld algerlega brugðist í þessu máli og bera því mikla ábyrgð á að við neyddumst til að hætta starfsemi okkar á Akureyri, en við það töpuðust 10 störf í bænum,“ segir Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri VARMA/Glófa ehf. 
 
Fyrr í sumar var starfsemi félagsins í höfuðstað Norðurlands hætt og sú framleiðsla sem heldur áfram, af því sem þar var framleitt, flutt í verksmiðju félagsins í Reykjavík. Ástæðan er sú að hingað til lands er heimilt að flytja inn ullar- og skinnavörur án upprunamerkinga og hefur innflutningur á slíkum varningi aukist til muna hin síðari ár. 
 
Kaupendum er að sögn Páls með merkingum talin trú um að erlend innflutt ullar- og skinnavara sé íslensk, „og með þeim hætti er verið að svindla á neytendum með stuðningi stjórnvalda,“ segir hann.
 
Stöðugt færri fyrirtæki í ullar- og skinnaiðnaði á Íslandi
 
Glófi ehf. er stærsti framleiðandi ullarvöru úr íslensku vélprjónabandi og framleiðir undir vörumerkinu VARMA. Fyrirtækið var stofnað á Akureyri árið 1982 og hefur í 20 ár verið leiðandi í þróun og framleiðslu á prjónaðri smávöru hér á landi. Félagið er nú í eigu Páls og Helgu Lísu Þórðardóttur, eiginkonu hans.
 
Páll segir að fyrirtækjum í ullariðnaði hafi fækkað umtalsvert hér á landi á síðustu 25 árum, fyrst um 1990 vegna  breyttra viðhorfa neytenda til hráefnisins, flísefni hafi þá tekið æ stærri sneið af kökunni á kostnað ullar. Síðustu 5 árin hafi síðan innflutningur á innfluttum ullar- og skinnavörum aukist verulega, enda engar upprunamerkingakvaðir á þessum innflutningi og innfluttu vörurnar merktar eins og þær séu íslenskar, auk þess sem það sé erfitt að keppa við ódýrt vinnuafl í láglaunalöndum.
 
Tækifæri fyrir hendi og þau þarf að nýta
 
Glófi framleiðir allar sínar vörur hér á landi, alls yfir 80 vörutegundir, undir eigin vörumerki, VARMA, og tugi vörutegunda undir vörumerkjum annarra. Helstu vöruflokkar eru húfur, hárbönd, treflar, sjöl, vettlingar, peysur, slár, sokkar, ullarteppi og mokkavörur úr íslensku lambskinni. Íslendingar og erlendir ferðamenn eru enn sem komið er helstu viðskiptavinir fyrirtækisins, en einnig er vaxandi útflutningur, einkum til Þýskalands og Norðurlanda. 
 
Samkeppni er hörð á markaði ytra, enginn skortur er á ull á erlendum mörkuðum, en frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi kemur gríðarlegt magn af merinó-ull sem gjarnan er unnin í Asíu og flutt á markaði í Evrópu. Dýrari ull, kasmír-, angóra- og alpaca-ull eru einnig þekktari en íslenska ullin.
 
„Það þýðir þó ekki að tækifæri séu ekki fyrir hendi, við vitum af því að markaður erlendis fyrir ull er stór og virkur. Það kostar hins vegar mikla fjármuni að ná árangri í útflutningi og á meðan stjórnvöld vinna gegn innlendri framleiðslu er erfitt að nýta þessi tækifæri,“ segir Páll.
 
Engin viðbrögð
 
Páll segir að hin síðari ár hafi mjög færst í vöxt að keppinautar fyrirtækisins flytji inn smávöru úr ull sem og mokkavörur, einkum frá Asíu, sömu vörur og voru að miklu leyti framleiddar á Akureyri.  
 
„Það eru ekki neinar kvaðir hér á landi varðandi uppruna- eða innihaldsmerkingar á innfluttum ullar- og skinnavörum. Okkar keppinautar merkja sína vöru með þeim hætti að neytendur hafa á tilfinningunni að varan og hráefnið sé íslenskt. Við höfum um þriggja ára skeið ýtt reglulega við löggjafanum og bent á þetta, en enginn vilji virðist vera til að gera eitthvað í málinu. Það var því ekki um annað að ræða fyrir okkur en hagræða í okkar rekstri með þeim hætti að flytja framleiðsluna undir eitt þak í Reykjavík og hætta starfseminni á Akureyri,“ segir Páll.
 
Hann kveðst alls yfir 20 sinnum á síðustu þremur árum hafa vakið athygli stjórnsýslunnar á óréttlæti í merkingarmálum innfluttra ullar- og skinnavara fyrir innlenda framleiðendur en ekkert hafi gerst í málinu. 
 
Grafið undan íslenskri framleiðslu
 
„Við teljum það langt í frá réttmætt gagnvart neytendum að fyrirtæki komist upp með að láta líta svo út að vörur sem sannanlega eru framleiddar í útlöndum úr erlendu hráefni séu íslenskar.  Það ætti að mínu mati að vera kappsmál fyrir stjórnvöld að efla innlenda framleiðslu á tímum þegar samkeppni eykst, en ekki að grafa undan henni líkt og sjá má í okkar tilviki,“ segir Páll. 
 
Hann bendir á að ekkert sé því til fyrirstöðu að flytja inn og láta framleiða vörur sínar erlendis, en það sé sanngirnismál að þeir sem kjósi að hafa þann háttinn á merki sínar vörur á réttan hátt, úr hvaða hráefni og hvaðan þær komi. Með því að láta slíkt ógert nýti þeir þann meðbyr fyrir íslenskri framleiðslu sem sannarlega sé fyrir hendi um þessar mundir, þar sem fjölmargir erlendir ferðamenn sem og Íslendingar vilja gjarnan kaupa ullar- og skinnavörur sem framleiddar eru á Íslandi.
 
Svindlað á neytendum og stjórnvöld bregðast ekki við
 
 „Okkur finnst að með núverandi fyrirkomulagi í merkingarmálum sé verið að svindla á neytendum án þess að stjórnvöld geri neitt í málinu. Það er einfaldlega ekki hægt að keppa við vörur sem bera engar upprunamerkingar og eru framleiddar í verksmiðjum erlendis.
 
Launakostnaður og ýmis opinber gjöld, tryggingargjald, lífeyrisframlag vinnuveitenda og fleira sem tína má til er margfalt hærra hér á landi og óvíða er fjármagnskostnaður jafn hár og á Íslandi. Við þetta má svo bæta að tollar og gjöld af innflutningi, m.a. af ullar- og skinnavörum sem framleiddar eru úr erlendum hráefnum í Asíu, hafa verið felld niður. Í þessari stöðu var okkur nauðugur sá kostur að grípa til allra tiltækra ráða í því skyni að lækka kostnað í okkar framleiðslu og einn þáttur í því ferli var að færa alla okkar framleiðslu á einn stað,“ segir Páll.
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...