Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku (Kvægkongres) var haldið um síðustu mánaðamót.
Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku (Kvægkongres) var haldið um síðustu mánaðamót.
Mynd / Merete Martin Jensen / Louise Nathansen Thuesen
Fréttir 16. mars 2016

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku 2016 − fyrsti hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson Ráðgjafi hjá SEGES P/S Danmörku

Um mánaðamótin sl. var haldið hið árlega Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku (Kvægkongres) en tilgangur ráðstefnunnar er bæði að vera eins konar uppskeruhátíð þarlendra kúabænda en einnig að miðla nýjustu þekkingu til bænda og annars fagfólks. 

Á þessu árlega tveggja daga fagþingi eru alltaf tekin fyrir bæði pólitísk og fagleg málefni nautgriparæktarinnar og hefur fagþingið stækkað að umfangi á hverju ári nú í allmörg ár. Í dag er fagþingið trúlega það umfangsmesta á sviði nautgriparæktar í norðurhluta Evrópu og sést það einnig á aðsóknartölunum en í ár voru nærri 2.900 skráðir þátttakendur á fagþinginu, sem er mesti fjöldi sem hefur sótt þetta fagþing frá upphafi.

Fjöldi erlendra gesta

Kvægkongres hefur notið vaxandi vinsælda erlendra gesta undanfarin ár og hafa gestirnir eðlilega komið frá Norðurlöndunum eða verið dönskumælandi, enda hafa langflest erindin verið á dönsku. Vegna aukinnar aðsóknar erlendra gesta undanfarin ár, var fagþingið nú sett upp þannig að haldin voru allmörg erindi á ensku og mæltist þessi nýbreytni vel fyrir, jafnt hjá hinum erlendu gestum en einnig heimamönnum enda margir danskir kúabændur með erlenda starfsmenn sem áttu einnig erindi á fagþingið.

 

12 málstofur 

 

Að þessu sinni var dagskrá þingsins skipt í tólf ólíkar málstofur (sjá nánar síðar) og voru flutt 65 mismunandi fagleg erindi þessa tvo daga, þar af nokkur endurflutt vegna mikils áhuga þátttakenda á þeim.

Margar málstofur voru haldnar á sama tíma og því þurftu áheyrendur að velja á milli. Vegna þessa er allt fagefni  fagþingsins sett á vefinn, svo hver og einn geti þannig glöggvað sig á hinu fjölbreytta efni sem tekið er fyrir hverju sinni. Verður hér farið í stuttu máli yfir þessar helstu málstofur en allt fagefni frá ráðstefnunni, bæði hinar faglegu greinar og þau erindi sem byggja á þeim, er opið og aðgengilegt á heimasíðu ráðstefnunnar: www.kvaegkongres.dk. Að vanda var mögulegt að kynna sér í kaffi- og matarhléum margt af þeirri fjölbreyttu þjónustu sem ráðgjafar- og þróunarfyrirtækið SEGES hefur upp á að bjóða á sviði nautgriparæktar, en það er einmitt SEGES sem stendur fyrir Kvægkongres ár hvert.

Auk SEGES voru fleiri fyrirtæki á staðnum að kynna þjónustu sína, s.s. söluaðilar mjaltatækja, dýralæknafyrirtæki og fleiri aðilar sem þjónusta nautgriparækt í Danmörku.

1. Hagfræði og stefnumörkun

Í þessari málstofu var lögð áhersla á að hlúa að samkeppnishæfni danskrar nautgriparæktar en lágt afurðaverð síðustu mánuði hefur komið illa niður á dönskum kúabúum enda er stór hluti afurðanna fluttur á erlenda markaði. Heimsmarkaðsverð bæði á mjólk og nautgripakjöti á því raunverulega við á hinum danska afurðamarkaði og búa bændurnir því bæði við sveiflukennt verð en einnig oft afar lágt verð eins og nú hefur verið um hríð.

Eitt erindið sneri beint að því hvernig starfsumhverfi danskra kúabænda er, en ljóst er að í hverju landi þá ráða þarlend stjórnvöld miklu um það hve vel bændunum tekst að mæta samkeppni. Dönsk kúabú hafa hingað til staðið sig afar vel í samkeppninni enda eru kúabúin með mestar meðalafurðir í Evrópu sem og með þeim stærstu að jafnaði eða um 180 árskýr. Þó kom fram að bæta má verulega samkeppnishæfnina, sér í lagi þegar horft er til fjármögnunarmöguleikanna, sem og strangra ytri krafna til umhverfismála.

Af mörgum áhugaverðum erindum í þessari málstofu, alls 10 talsins, má nefna sérstaklega erindi sem sneri að því hvernig megi draga úr framleiðslukostnaði mjólkur. Einkar áhugavert efni en meðal framleiðslukostnaður mjólkur í Danmörku er nú 57 íkr/kg en útlit er fyrir að afurðastöðvaverðið í ár verði í kringum 51 íkr/kg og því dagljóst að sá bóndi sem framleiðir mjólk á meðalkostnaðarverði mun tapa á framleiðslunni. Það eru þó allmargir sem geta framleitt mjólk með hagnaði þrátt fyrir lágt afurðastöðvaverð og fóru þau Susanne Clausen og Arne Munk, sem bæði starfa hjá SEGES, yfir þær leiðir sem eru flestum færar til þess að draga úr framleiðslukostnaði og byggðu erindi sín á hagtölum frá nýliðnu ári.

Fram kom m.a. að það sem þeir eiga sameiginlegt sem eru með lægstan framleiðslukostnað er að þar er kostnaðurinn við gróffóðurframleiðsluna einnig lágur. Lykilorðin hér til þess að spara við framleiðsluna voru: 

Magn gróffóðurs pr. ha, gróffóðurgæðin, vélakostnaður og framleiðslukostnaður gróffóðurs. Þá skiptir einnig verulegu máli að lágmarka kostnað við aðkeypt fóður en að halda jafnframt afurðasemi kúnna hárri. Mikil áhersla var lögð á að nýta hinn fasta kostnað og ná að framleiða sem mestar afurðir á hverja krónu í föstum kostnaði. Auk þess lögðu þau áherslu á það að ætli kúabóndi sér að lækka framleiðslukostnað mjólkurinnar þá þarf hann að setja sér skýrt og mælanlegt markmið. Sé það gert, er raunverulega hægt að meta það hvort árangur náist eða ekki.

2. Mjólk og mjólkurgæði

Eins og undanfarin ár var þessi málstofa afar vel sótt enda snýst kúabúskapur að miklu leyti um að framleiða hágæða mjólk. Málstofan var byggð upp þannig að hægt var að fylgja kúnni frá legubásnum og til mjalta og til baka á ný. Þannig sneri eitt erindi að hreinleika kúa, vinnubrögðum við legubása og um helstu atriði sem hafa þarf í huga þegar umhverfi kúa í fjósum er annars vegar. Í stuttu máli sagt snýst þetta allt um að halda kúnum hreinum hvenær sólarhringsins sem er og halda óhreinindum alltaf frá kúnum. 

Líkt og í málstofunni um hagfræði og stefnumörkun fjölluðu mörg erindi í þessari málstofu, alls sex talsins, að því hvernig bæta megi samkeppnisstöðuna og einn stærsti kostnaðarliðurinn á kúabúum dagsins í dag er kostnaðurinn við að mjólka kýrnar, hvort sem það er gert með mjaltaþjóni eða hefðbundnum hætti.

Fjallað var sérstaklega um það hvernig megi stytta mjaltatímann sérstaklega en því styttri sem mjaltatíminn er, því fyrr komast kýrnar aftur inn í fjós til þess að éta og framleiða mjólk. Auk þess sparar það vinnutíma og slit á búnaði. 

Mörg ráð voru gefin í þessu sambandi en nefna má sérstaklega hönnun gönguleiða kúnna til og frá mjaltaaðstöðunni, soghæð mjaltakerfis og val á spenagúmmíum. Líklega vegur þó einna þyngst að breyta jafnframt flæðistýringunni fyrir aftökubúnað mjaltatækjanna. SEGES hefur gefið út nýja viðmiðun í þessu sambandi en séu kýr mjólkaðar tvisvar á dag ætti flæðið við aftöku að vera 5–700 ml/mínútu en 7–900 ml/mínútu séu kýrnar mjólkaðar þrisvar á dag. Þessar leiðbeiningar eiga við öll þekkt kúakyn í Danmörku.

Enn eitt erindið í þessari málstofu sem var einkar áhugavert var erindi tveggja bænda sem eru með mjaltaþjóna en bændurnir fóru yfir það hvernig þeim hefur tekist að ná að framleiða hágæða mjólk og að fá þannig nánast alltaf úrvalsmjólkur-álag fyrir mjólk sína. Afar skemmtileg erindi sem óhætt er að mæla með skoðun á en samandregið má segja að áherslan liggi fyrst og fremst á mikilli reglusemi og snyrtimennsku í einu og öllu. Sé þetta forgangsröðunin þá skila kýrnar úrvalsmjólk í mjólkurtankinn.

3. Ráðgjöf

Í þessari málstofu var einungis flutt eitt erindi en í því var farið yfir þróun ráðgjafarstarfseminnar í Danmörku en síðustu 10 ár hefur ráðgjöfum fækkað um heil 17% vegna breytinga á búum landsins. Á sama tíma og ráðgjöfunum hefur fækkað verulega hefur sérhæfing hvers ráðgjafa aukist til muna enda kalla stór kúabú á sérhæfða ráðgjöf en ekki er á færi eins ráðgjafa að sinna hefðbundnu dönsku kúabúi í dag. Að hverju kúabúi standa margir sérhæfðir ráðgjafar í nautgriparækt: einn í fóðrun, einn í fóðuröflun, einn í kynbótum, einn í hagfræði, einn í mjaltatækni og mjólkurgæðum og svo mætti áfram telja. Samhliða þessari þróun í ráðgjöf til bænda eru bændur dagsins í dag, sem eðlilegt er, miklu kröfuharðari en áður en það hefur gerst samhliða sérhæfingunni í ráðgjöfinni.

Eðlilega gerir bóndi meiri kröfur til ráðgjafa sem einungis starfar á þröngu sviði en til ráðgjafa sem er að gutla í öllu ferli mjólkurframleiðslunnar. Þessar auknu kröfur bændanna sjálfra hafa ekki hentað öllum ráðgjöfum í landinu og því sumir hellst úr lestinni en aðrir eflst til muna. Í þessu eina en umfangsmikla erindi var farið yfir framangreinda þróun og rætt um hvernig breyta þarf ráðgjöfinni til þess að mæta hinum kröfuhörðu bændum. 

Nú er í auknum mæli horft til þeirrar manngerðar sem bóndinn er og starfsmenn hans. Hver og einn hefur sína sérstöðu og það liggur fyrir að beita þarf mismunandi tækni við að gefa ólíkum bændum sömu ráðin. Þessi tækni við ráðgjöf hefur verið notuð af mjólkurgæðaráðgjöfunum í Danmörku nú í á þriðja ár með afar góðum árangri.

Fleiri málstofur

Í næsta Bændablaði verður fjallað um fleiri málstofur ráðstefnunnar. Þeir sem ekki geta beðið þeirrar umfjöllunar má benda sérstaklega á að bæði útdrættir og flest erindi, þ.e. afrit af glærum fyrirlesara, má hlaða niður af heimasíðunni www.kvaegkongres.dk

 

Snorri Sigurðsson

sns@seges.dk

Ráðgjafi hjá SEGES P/S

Danmörku

4 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...