Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku 2016 − þriðji hluti
Mynd / Merete Martin Jensen, Louise Nathansen Thuesen
Fréttir 27. apríl 2016

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku 2016 − þriðji hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Nýverið var haldið hið árlega fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku en þingið, sem kallast Kvægkongres, var að vanda haldið í bænum Herning á Jótlandi.
 
Hér á eftir fer þriðji og síðasti hluti umfjöllunar um fagþingið en fyrsti hlutinn birtist í 5. tbl. Bændablaðsins 10. mars sl. og annar hlutinn í 6. tbl. Bændablaðsins 22. mars sl.
 
7. Kýrin og kálfurinn
 
Í þessari áhugaverðu málstofu voru flutt 9 erindi en þau áttu það sameiginlegt að lúta aðallega að atferli og eftirliti með atferli gripanna. Í málstofunni voru flutt mörg erindi á ensku þar sem margir fyrirlesarar komu frá öðrum löndum en Danmörku.
 
Eitt allra besta erindi málstofunnar og mögulega alls fagþingsins var erindi Joep Driessen frá Hollandi en hann er dýralæknir og eigandi CowSignals® Training Company. Hann fjallaði um atferli og hvernig eigi að meðhöndla helti dýra en það er einn helsti löstur mjólkurframleiðslunnar á meginlandi Evrópu, þ.e. hve margar kýr fá helti. Hann sýndi fram á hve alvarleg áhrif helti hefur á framleiðsluna en meira að segja kýr með aðeins örlitla helti draga úr framleiðslunni, drekka og éta minna auk þess sem þær hvílast ekki eins mikið og aðrar kýr. Það væri því eitt mikilvægasta starf kúabóndans að þekkja öll einkenni helti, einnig byrjunareinkennin en þeir sem eru reyndir í að greina helti sjá fljótt á kúnum séu þær við það að fá helti. Því miður er erindi hans ekki aðgengilegt á netinu.
 
Þess má geta að danskir kúabændur mega ekki vera með haltar kýr innan um hjörðina en komi slíkt í ljós við úttekt fær bóndinn aðvörun og þarf að gera aðgerðaráætlun svo slíkt gerist ekki framvegis. Ráðgjafar SEGES, sem sjá um allar fjósaskoðanir og úttektir á vegum dönsku matvælastofnunarinnar (Fødevarestyrelsen), koma svo í heimsókn á ný mánuði síðar og sé þá enn ólag á hlutunum fær viðkomandi afurðastöð skilaboð um að sækja ekki mjólk á búið fyrr en úrbætur hafa verið gerðar. Sýnir þetta skýrt hve alvarlegum augum er litið á atriði sem snerta velferð nautgripa.
 
Annar afar áhugaverður fyrirlesari í þessari málstofu var Nigel B. Cook frá háskólanum í Wisconsin-Madison en hann hefur unnið við kennslu og rannsóknir á atferli kúa í áratugi. Erindi hans snerist einnig um helti kúa líkt og erindi Joep Driessen en báðir þessir kappar voru svo með kvöldvinnufundi, þar sem bændur, ráðunautar og dýralæknar gátu farið dýpra í einstök atriði og var látið afar vel af þessari nýjung á fagþinginu.
 
Af öðrum erindum má nefna erindi Jakob Sehested og Troels Kristense frá háskólanum í Árósum en þeir hafa verið að rannsaka hvort lengja megi mjaltaskeið kúnna með hagkvæmum hætti. Í stuttu máli sagt er það hægt og hagkvæmt, miðað við danskar forsendur, að lengja bil á milli kálfa úr u.þ.b. 13 mánuðum í 15 mánuði en við skoðun á afkomu nokkurra búa reyndust bú með að jafnaði 15 mánuði á milli burða með besta afkomu. Sé mjaltaskeiðið lengt enn frekar, þ.e. í 17 mánuði að jafnaði, fellur hagkvæmnin hins vegar.
 
8. Holdanautabúskapur
 
Málstofan um holdanautabúskap var vel sótt en þar var boðið upp á sex mismunandi erindi. Tvö þeirra fjölluðu um markaðsmál en í Danmörku bjóðast ótal möguleikar á því að selja nautakjöt til neytenda. Hefðbundin leið er vissulega með því að selja gripina beint í sláturhús en sala beint frá býli fer vaxandi en slíkt kjöt er selt á miklu hærra verði en almennt gengur og gerist í kjötborðum verslana. 
 
Afar áhugavert erindi Elena Sørensen Skytte sneri einmitt að þessu atriði en sumir bændur hafa verið hálf „feimnir“ við að verðleggja kjötið sitt langtum hærra en það sem neytandinn getur keypt kjöt á í stórverslun eða sérverslun með kjöt. Erindi hennar kallaðist í lauslegri snörun: „Ertu að selja kjöt eða matarupplifun?“ Lagði hún áherslu á ýmis atriði en m.a. að við sölu beint frá býli væri verið að selja sögu, öryggi og uppruna sem neytendum stæði ekki til boða í verslunum og því ætti ekki að hvarfla að nokkrum bónda að selja kjöt sitt á lágu verði. Hún skýrði einnig frá því hve mikilvægt það væri að greina sinn kaupendahóp og finna sína sérstöðu, í því fælust mikil tækifæri. 
 
Önnur erindi málstofnunnar sneru svo að einstökum undirhópum innan holdanautabúskaparins en í Danmörku eru starfrækt ótal félög mismunandi holdanautategunda eins og t.d. Félag Limósín eigenda, Félag Angus bænda og fleiri mætti telja.
 
9. Fóður
 
Núna er afurðastöðvaverð mjólkur afar lágt víða í Evrópu og því mikilvægt fyrir bændur að finna leiðir til þess að lækka hjá sér breytilega kostnaðinn og auka veltu samhliða án þess að auka fastan kostnað. Heita má að öll sjö erindi málstofnunnar hafi komið inn á þessi atriði með einum eða öðrum hætti en í langflestum erindum var horft til bættrar nýtingar með því að nýta sér nútíma tölvu- og mælitækni. Þannig fjallaði t.d. eitt erindi um þá þjónustu sem verktakar bjóða upp á í dag en þegar þeir hirða tún bænda eru notaðir sjálfvirkir mælar til þess að meta þurrefni uppskerunnar sem og vigtun til þess að geta gefið nákvæmar upplýsingar um uppskeru viðkomandi túns eða akurs. Þessar upplýsingar geta svo farið beint í gagnagrunn SEGES og þegar fóðurætlun búsins er gerð er lagerstaða gróffóðursins þekkt, sem og áætlun þegar til um ætlað fóðurgildi. Einkar áhugaverð tækni en erindi þetta var flutt af Peter Hvid Laursen landsráðunaut hjá SEGES og Poul Erik Clausen sem rekur verktakafyrirtæki.
 
Mörg önnur erindi frá þessari málstofu má nefna en fyrir þá sem eru tæknilega sinnaðir er óhætt að mæla með erindi SEGES ráðunautanna Thomas Andersen og Søs Ancker en þau fóru yfir það hvers konar sjálfvirkan tæknibúnað sé hægt að nota í dag til þess að vakta kýr í fjósi í þeim tilgangi að bæta reksturinn.
 
Þegar þetta er allt tekið saman kemur það væntanlega flestum á óvart, þ.e. hve ótrúlega margir möguleikar finnast í dag til sjálfvirkrar vöktunar kúa: dagleg líkamshitamæling, helti, holdafar, stærð og þungi, staðsetning grips innan fjóss, hreyfing og atferli s.s. vegna beiðsli, frumutala mjólkur, efnainnihald mjólkur og fleiri mjólkurgæðaþættir, júgurheilbrigði með hitamyndavélum, legutími, hjartsláttur, jórturtalning, hljóðvöktun, áttími, öndun kúa, metanlosun og drykkjaratferli. Væntanlega er ekki um tæmandi lista að ræða!
 
10. Hinir óvenjulegu
 
Ein skemmtilegasta og óvenjulegasta málstofa fagþingsins, rétt eins og titillinn bendir til, var þessi en henni tilheyrðu þrjú erindi sem áttu það sameiginlegt að draga fram sérstöðu einstakra kúabænda sem fara ekki hefðbundnar leiðir við framleiðslu sína.
 
Eitt erindið var frá einum af meðeiganda Gram hallarinnar, en árið 2007 keypti Svend Brodersen höllina ásamt þeim 1.300 hekturum af ræktuðu landi sem fylgdu með og 350 kúm. Svend þessi á Gram ekki einn heldur með verslunarkeðjunni Rema 1000. Þetta er óvenjulegt eignarhald sem hann ræddi um en Gram á sitt eigið vörumerki fyrir mjólkurvörur sem selt er í Rema 1000 en allar vörurnar eru unnar fyrir Gram af Arla. Áhugavert samstarf þessara aðila.
 
Annað erindið fjallaði svo um það hvernig hægt er að framleiða mjólk með lágum kostnaði en þar er líklega kúabóndinn Jesper Lange í sérflokki. Jesper rekur kúabú með 230 kúm, kvígurnar eru í uppeldi hjá öðrum bónda og svo er hann með 163 hektara af landi. Hann veltir við hverri krónu í sínum rekstri og skráir allt niður, meira að segja eigin vinnutíma sem er eitthvað sem fáir gera. Hans áherslur hafa alla tíð verið á einfaldleika og ekki flókna tækni svo „117 atriði bili ekki á sama tíma“ eins og hann orðaði það sjálfur. Síðustu fimm ár hefur breytilegur kostnaður búsins verið að meðaltali 2,00 danskar krónur á hvert innlagt kíló mjólkur eða 37,72 íkr á gengi dagsins í dag. Jesper vinnur sjálfur langa vinnudaga, á danskan mælikvarða, eða 50 vinnustundir að jafnaði í viku hverri allt árið. En þar sem öllu er haldið til haga þá veit hann nákvæmlega hvað hann getur borgað sjálfum sér í kaup og síðustu 5 ár hefur hann getað borgað fyrir sína eigin vinnu 501 danska krónu á tímann eða 9.449 íkr. sem svarar til rúmlega tveggja milljóna íslenskra króna í mánaðarlaun. Í ár gerir hann hins vegar ráð fyrir mun lægri launum, enda afurðaverðið mjög lágt, eða um 185 dönskum krónum á tímann sem gera þó 3.489 íslenskar krónur þrátt fyrir allt. Í erindinu eru allar rekstrartölur gefnar upp til margra ára svo ef áhugi er á því að kynna sér efnið nánar má benda á heimasíðu fagþingsins.
 
11–12. Rannsóknir
og kvöldfundir kúakynja
 
Síðustu tvær málstofurnar voru nokkuð sérstakar en alls voru flutt 10 erindi í þeim en ekki er þó gott að gera þeim skil þar sem um afar sérhæfð efnistök var að ræða. Þannig eru til dæmis svokallaðir kvöldfundir kúakynjanna í raun þrjár aðskildar málstofur, þ.e. fyrir kúabændur með rauðar danskar kýr (RDM), kúabændur með Jersey kýr og svo hinn stóra hóp kúabænda með svartskjöldóttar kýr (Holstein).
 
Lýkur hér umfjöllun um hið danska fagþing nautgriparæktarinnar en sem fyrr skal á það bent að bæði útdrættir og flest erindi, þ.e. afrit af glærum fyrirlesara, má hlaða niður af heimasíðunni www.kvaegkongres.dk. Rétt er að geta þess að mest allt efni er á dönsku en þó er hluti þess á ensku.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

3 myndir:

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...