Félagsmenn Framsýnar hafa sparað sér um 50 milljónir króna
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Veruleg aukning hefur orðið á flugi til Húsavíkur milli ára. Í febrúarmánuði 2015 fóru 674 farþegar um Húsavíkurflugvöll á móti 1.518 farþegum í febrúar 2016. Um er að ræða aukningu upp á 125%.
Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur 15. apríl 2012. Á árunum 2013 og 2014 fóru um 9.800 farþegar um völlinn á ársgrundvelli. Á árinu 2015 fjölgaði farþegum upp í tæplega 12.000 farþega. Frá þessu segir á vef Framsýnar-stéttarfélags.
Framsýn gerði fyrst stéttarfélaga samning við flugfélagið um sérkjör fyrir félagsmenn, í nóvember árið 2013 og hafa félagsmenn frá þeim tíma flogið um 7.500 ferðir sem sparað hefur þeim um 50 milljónir frá miðlungsfargjaldi. Um leið hefur sætanýting í flugvélum Ernis orðið mun betri, enda jafngildir þessi fjöldi flugmiða tæplega 400 bókuðum flugferðum miðað við stærð vélanna. Flogið er flesta daga og allt upp í þrjár ferðir á dag.
Framkvæmdir á svæðinu sem tengjast uppbyggingu á Bakka auk sívaxandi ferðaþjónustu mun styrkja flugumferð um Húsavíkurflugvöll enn frekar. Fyrir liggur að á árinu 2016 verður slegið met í farþegafjölda um Húsavíkurflugvöll frá þeim tíma sem Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur.