Ferðamannakúla slær í gegn í Hrosshaga
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Nýjasta nýtt í íslenskri ferðaþjónustu er glær kúla úti í skógi þar sem ferðamenn geta legið í hita og fylgst með stjörnum og norðurljósum á kvöldin og nóttunni.
Fyrstu kúlunni hefur verið komið fyrir í skóginum í Hrosshaga í Biskupstungum. Kúlan, sem mætti kalla jólakúlu, er um 20 til 25 fermetrar og þar geta 2–4 komið sér inn, lagst á dýnurnar og horft upp í loftið í þeirri von að sjá falleg norðurljós og stjörnur þegar dimmt er. Hugmyndina að ferðamannakúlunni á Róbert Sveinn Róbertsson, frumkvöðull úr Biskupstungum.
„Verkefnið hefur gengið mjög vel, kúlan er að slá í gegn og segja allir mikla upplifun að vera í henni. Japanir hafa spurt mikið út í svona kúlu enda sérstakir áhugamenn um norðurljós og stjörnuljós,“ segir Róbert sem heldur úti norðurljósa- og vetrarferðaþjónustusíðu þar sem hann er í miklu sambandi við erlenda ferðamenn.