Fjárfesting sem ætlað er að skila eiganda sínum arði
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Á nýliðnum bændafundum komu málefni Hótel Sögu til umræðu. Voru fundargestir áhugasamir um rekstur hótelsins sem er alfarið í eigu Bændasamtakanna. Í máli forystumanna bænda kom fram að á Búnaðarþingi 2015 hafi verið tekin stefnumarkandi ákvörðun um að eiga hótelið þegar tilboðum nokkurra áhugasamra kaupenda var hafnað.
Síðan ákvörðun Búnaðarþings var tekin hafa þó nokkrar breytingar verið gerðar á rekstrinum. Sérstakt félag var stofnað um fasteignina, Bændahöllin ehf. Hótel Saga ehf. rekur hótelið eins og áður undir merkjum Radisson Blu og því stýrir Ingibjörg Ólafsdóttir.
Góð tekjuaukning á milli ára
Elías Blöndal Guðjónsson er framkvæmdastjóri Bændahallarinnar ehf. Mynd / TB
Elías Blöndal Guðjónsson er framkvæmdastjóri Bændahallarinnar ehf. Hann segir að rekstur beggja félaga hafi í meginatriðum gengið samkvæmt áætlunum sem lagt var upp með í upphafi síðasta árs.
Tekjuaukning hótelsins á milli ára er umtalsverð og nemur 18,5%. Heildartekjur Hótel Sögu voru tæpir tveir milljarðar á síðasta ári og Bændahallarinnar ehf. 384 milljónir króna, sem er 24,6% aukning milli ára. Tekjur Bændahallarinnar ehf. eru að meginuppistöðu leigutekjur. Herbergjanýting jókst um 2% á milli ára en á síðasta ári var hún 85,4%. Tekjur á hvert selt herbergi hafa að sama skapi aukist um 13,6% á milli ára sem þýðir að hærra verð fæst fyrir nóttina en áður.
Reiknar með arðgreiðslu
„Uppskipting félaga hefur skerpt sýn stjórnenda á rekstur fasteignar annars vegar og rekstur hótels hins vegar. Tekjur hafa farið vaxandi þó styrking krónunnar hafi haft neikvæð áhrif á afkomu hótelsins,“ segir Elías en hann reiknar með því að bæði félög greiði eiganda sínum arð vegna rekstrarársins 2016. Sú upphæð skýrist á næstu vikum þegar lokauppgjör liggja fyrir.
Viðhald og uppbygging
Elías segir að umfangsmikið viðhald og endurnýjun sé fram undan á fasteign og innviðum hennar. „Endurnýja á hótelherbergi, veitingarými og ýmis stoðrými. Markmiðið með því er að auka hagkvæmni í rekstri, auka veltu, fækka skrefum starfsmanna og gesta og nýta fermetrana betur.“ Skipt verður um glugga á fyrstu hæð og í tengibyggingu ásamt því sem gestamóttöku og veitingarými verður gjörbreytt.
Við endurbæturnar verður upprunaleg hönnun höfð að leiðarljósi að sögn Elíasar. Gömul húsgögn verða endursmíðuð en þau voru sum hver sérstaklega hönnuð fyrir hótelið á sínum tíma.
Fasteigninni ætlað að skila arði til reksturs samtaka bænda
Aðspurður um tilgang þess fyrir samtök bænda að eiga og reka Hótel Sögu segir Elías að ákvörðun Búnaðarþings 2015 hafi verið sú að selja ekki hótelið á þeim tíma hvað sem síðar verður. „Undirliggjandi markmið er að hámarka virði eigna Bændasamtaka Íslands og til lengri tíma er markmiðið að skila Bændasamtökum Íslands arði af þessum eignum til reksturs samtakanna,“ segir Elías Blöndal Guðjónsson, framkvæmdastjóri Bændahallarinnar ehf.