Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum. Knapi er Bergur Jónsson.
Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum. Knapi er Bergur Jónsson.
Mynd / Gangmyllan
Fréttir 3. september 2019

Fjölbreytileikinn mikilvægur

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Kynbótasýningarárinu 2019 lauk með þremur síðsumarssýningum, en um 160 hross komu fram á Akureyri, í Borgarnesi og á Brávöllum á Selfossi. 
 
Rúm 1.000 fullnaðardómar voru kveðnir upp á árinu og virðist sem breiddin í ræktun íslenska hestsins hafi sjaldan verið meiri.
 
Synir Álfadísar áberandi
 
Stærsta miðsumarssýningin fór fram á Selfossi en þar voru 105 hross skráð til leiks og hlutu 87 þeirra fullnaðardóm. Hæst dæmda hross sýningarinnar var Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum, Álfadísarsonur undan Stála frá Kjarri. Álfaklettur hlaut 8,67 í aðaleinkunn, 8,73 fyrir sköpulag, þar af 9,5 fyrir samræmi, 9 fyrir höfuð, hófa, bak og lend, og 8,63 fyrir kosti. Mun þetta vera fjórði hæsti dómur 6 vetra stóðhests á þessu kynbótaári.
 
Stofn frá Akranesi hlaut næsthæstu einkunn sýningarinnar, 8,42. Stofn er undan Asa frá Lundum II og Iðu frá Vestra-Fíflholti, sem er samfeðra Óm frá Kvistum. Stofn hlaut 8,42 í aðaleinkunn, 8,48 fyrir sköpulag og 8,37 fyrir kosti. 
 
Þriðji var Álfaskeggur frá Kjarnholtum I en hann hlaut 8,37 í aðaleinkunn, 8,20 fyrir sköpulag og 8,53 fyrir kosti. Hann er undan Álfarni frá Syðri-Gegnishólum, bróður Álfakletts, sem keppti á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín fyrr í mánuðinum. Móðir Álfaskeggs er afkvæmamóðirin Hera frá Kjarnholtum I sem hefur gefið 6 fyrstu verðlauna afkvæmi.
 
Hæst dæmda hryssa sýningarinnar var Ísrún frá Kirkjubæ en hún hlaut 8,35 í aðaleinkunn, 8,18 fyrir sköpulag og 8,46 fyrir kosti þar af einkunnina 9,5 fyrir stökk, fegurð í reið og vilja og geðslag. Ísrún undan Lilju frá Kirkjubæ og Álfi frá Selfossi, frumburði Álfadísar frá Selfossi.
 
Upprennandi keppnishryssa
 
Á Akureyri komu 41 hross fram og hlutu 36 fullnaðardóm. Hæstu aðaleinkunn hlaut Úlfhildur frá Strönd, 8,32. Hún hlaut 8,20 fyrir sköpulag og 8,40 fyrir kosti, þar af 9,5 fyrir tölt, hægt tölt og vilja og geðslag. 
 
Úlfhildur, sem er undan Kjerúlfi frá Kollaleiru og Framtíð frá Múlakoti, kom fyrst fram fjögurra vetra árið 2014 en hefur síðan þá verið að hasla sér völl á keppnisvellinum. Bjarni Jónasson knapi keppti meðal annars í þremur mótum Meistaradeildar KS á Úlfhildi í vetur og urðu þau í 5. sæti í tölti og 4. sæti í slaktaumatölti.
 
Næsthæstu einkunn á Akureyri hlaut 5 vetra stóðhestur, Stökkull frá Skrúð. Hann er undan Markúsi frá Langholtsparti og Söndru frá Skrúð, sem hefur nú gefið af sér fimm fyrstu verðlauna hross. Stökull hlaut 8,25 í aðaleinkunn, 8,23 fyrir sköpulag og 8,26 fyrir kosti.
 
Sigurrós frá Söðulsholti. Knapi er Halldór Sigurkarlsson. Mynd/Iðunn Silja
 
Sigurrós efst í Borgarnesi
 
Átján hross voru sýnd í Borgarnesi og hlutu 13 þeirra fullnaðardóm en aðeins eitt fyrstu verðlaun. Það var hryssan Sigurrós frá Söðulsholti sem hlaut 8,12 í aðaleinkunn. Hún hlaut 8,16 fyrir sköpulag og 8,10 fyrir kosti þar af einkunnina 9 fyrir tölt, vilja og geðslag og fegurð í reið. 
 
Sigurrós er undan Sigur frá Hólabaki og Pyngju frá Syðra-Skörðugili. Sýnandi hennar var Halldór Sigurkarlsson sem ræktaði hryssuna ásamt Iðunni Silju Svansdóttur. 
 
Bregðast þarf við ofskráningum
 
Gísli Guðjónsson, ritstjóri Eiðfaxa.
Umgjörð kynbótasýninga hefur sætt nokkurri gagnrýni, en uppbókað hefur verið á tilteknar sýningar á methraða með löngum fyrirvara. Gísli Guðjónsson hefur verið sýningarstjóri kynbótasýninga. 
 
„Þetta kapphlaup ræktenda að skrá á ákveðnar sýningar er eitthvað sem mætti skoða því þegar loks kemur að sýningunni eru þeir sem pantað hafa pláss ekki með þann fjölda hrossa sem þeir skráðu. Plássin ganga svo kaupum og sölum sem getur skapað erfiðleika við framkvæmd sýninganna. Við þessu þarf að bregðast svo fólk geti ekki dekkað pláss sem það notar svo ekki.“ 
 
Mikil breidd hrossa og ræktenda
 
Gísli segir að kynbótaárið 2019 sýni þá miklu breidd sem hefur skapast í hrossarækt á Íslandi. 
„Það eru ekki aðeins nokkur bú sem eiga sviðið, heldur eigum við orðið góða hrossaræktendur alls staðar. Stærsta stjarnan getur jafnvel komið frá áður óþekktu nýju hrossaræktarbúi.“  
 
Þetta sé jákvæð staða. „Íslenski hesturinn þarf að geta farið í öll þau hlutverk sem honum er ætlað, allt frá því að vera reiðskólahestur upp í það að vera afreksíþróttahestur. Því fjölbreyttari flóru sem við höfum úr að velja í ræktun hans, því betra.“ 
 
Enginn ákveðinn afkvæmahestur sló í gegn í ár, að mati Gísla. „Þeir sem hæstir voru komu úr ýmsum áttum, allt frá því að vera undan ósýndum hrossum til þess að vera afkvæmi hátt dæmdra heiðursverðlaunahrossa.“
 
Hann tekur sem dæmi hæst dæmda 4 vetra stóðhest ársins, Leyni frá Garðshorni á Þelamörk, sem kemur af alls óþekktum ættum. „Hann er í raun slysafang undan slysafangi. Það er því ekki alveg á vísan að róa í öllu.“
 
Gísli er nýtekinn við ritstjórastóli hestatímaritsins Eiðfaxa en nýir eigendur tóku við miðlinum í maí sl. Stefnt er á að Eiðfaxi komi út í tímaritsformi einu sinni í mánuði, auk þess sem nýr vefur er væntanlegur innan tíðar. 
 
„Hestamenn eiga að geta rekið eitt fagtímarit um hesta og er markmið okkar að gera hrossaumræðunni hátt undir höfði.“
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...