Fjöldi fuglategunda í hættu
Nýlegar rannsóknir benda til að fjöldi fuglategunda sé í hættu á að deyja út á næstu áratugum. Ein rannsókn gengur svo langt að segja að ein af hverjum átta tegundum muni deyja út á næstu árum. Meðal viðkvæmra tegunda eru lundi og snæugla.
Í skýrslu sem kallast The State of the World´s Birda og unnin er af BirdLife International eru birtar niðurstöður fimm ára rannsókna á fjölda og útbreiðslu fjölmargra fuglategunda um víða veröld. Í skýrslunni segir meðal annars að um 74% þeirra 1.469 fuglategunda sem taldar eru í mestri hættu stafi mest hætta af breytingum á búsvæði þeirra vegna landbúnaðar og eyðingu skóga. Aðrar ógnir eru breytingar á búsvæði vegna tilkomu ágengra tegunda og vegna veiða.
Margir áhrifaþættir
Samkvæmt því sem segir í skýrslunni fækkar fuglum um allan heim hvort sem það er hátt til fjalla eða á ystu úteyjum og nú er svo komið að um 40% fuglategunda í heiminum fækkar vegna athafna manna.
Helsta orsök fækkunarinnar er aukin landbúnaðar- og matvælaframleiðsla, skógareyðing, ágengar tegundir, veiðar, hlýnun jarðar, mengun og útbreiðsla borga.
Sem dæmi um áhrif ólöglegra veiða á fuglastofna er talið að hátt í 30 milljón fuglar séu veiddir við Miðjarðarhaf til átu á ári hverju. Þess má einnig geta að víðitittlingur, Emberiza aureola, sem eitt sinn var með algengustu fuglategundum í Evrópu og Asíu, er í dag sjaldséður enda talið að víðitittlingum í heiminum hafi fækkað um 90% frá því á áttunda áratug síðustu aldar.
Gríðarlegar fiskveiðar hafa mikil áhrif á lífsafkomu sjófugla eins og lunda, Fratercula arctica, og ritu, Rissa tridactyla, og stofnar beggja tegunda sagðir viðkvæmir. Annað sem er að hafa áhrif á lífsafkomu fugla í heiminum er minna fæðuframboð vegna fækkunar skordýra vegna aukinnar notkunar á skordýraeitri.
Ekki allt slæmt
Í skýrslunni kemur fram að þótt útlitið sé víða dökkt fyrir fugla heimsins sé ekki allt dauði og djöfull því með verndunaraðgerðum hafi tekist að bjarga 25 fuglategundum frá útrýmingu það sem af er þessari öld.