Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Í grein eftir Annie Gowen er dregin upp dökk og dramatísk jólamynd af lífsbaráttu alþýðufólks og bandarískum landbúnaði.
Í grein eftir Annie Gowen er dregin upp dökk og dramatísk jólamynd af lífsbaráttu alþýðufólks og bandarískum landbúnaði.
Mynd / UDIM
Fréttir 17. janúar 2020

Fjölskyldubú í New York ríki leggja upp laupana hvert af öðru

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Bandaríska stórblaðið The Washington Post sagði í undirtitli blaðhaussins á öðrum degi jóla að svartnættið væri að drepa lýðræðið. Í fyrirsögn greinar um bandarískan landbúnað segir einnig að í landi Trump sé svo komið að fjölskyldubúin þurfi að reiða sig á neyðaraðstoð.
 
Þetta er ansi mikið á skjön við fréttir af auknum þrótti bandaríska hagkerfisins eftir valdatöku Trump stjórnarinnar. Virðist sá aukni þróttur einkum ná til iðnfyrirtækja, en um leið vera m.a. á kostnað bandarísks landbúnaðar. 
 
Í grein eftir Annie Gowen er dregin upp dökk og dramatísk mynd af lífsbaráttu alþýðufólks og bandarískum landbúnaði. Lýst er erfiðleikum bóndakonunnar Anne Lee við að brauðfæða sjömanna fjölskyldu sína í Berkshire í New York ríki. Til þess hefur hún einungis úr 175 dollurum að spila á mánuði. Hún velti fyrir sér hvort hún ætti að bjóða upp á kjúklinganúðlusúpu, en ákvað að bjóða upp á kjúkling í kexi (Chicken in a Biskit pakkamat) þar sem í því væri meiri magafylling. Anne Lee er sögð þekkja afsláttartilboð matvöruverslana mjög vel eins og á tómatamauki með chili á 1 dollar dósin og kartöflunaggar (tots) á 1,69 dollara pokinn. 
 
„Ég vildi að ég gæti gert lasagna, en það er of dýrt,“ segir Anne Lee. Enda kosta 250 grömm af osti á lasagne 2,49 dollara. Ferskt grænmeti er líka dýrt, nema kannski laukur og kartöflur í pokum. Það er jafnvel líka spurning um hvort Anne hafi efni á að kaupa ávexti.
 
Í miklum vanda þrátt fyrir afskriftir
 
Anne Lee og eiginmaður hennar Andy tóku við kúabúi foreldra hans á 123 hektara jörð (305 ekrum) árið 2013. Þau eru nú með 65 mjólkandi kýr í fjósi. Eftir að Trump stjórnin lagði upp í viðskipta- og tollastríð við erlend ríki féll verð á mjólkurvörum með þeim afleiðingum að eftir situr bú eins og hjá Anne Lee og Andy með 200.000 dollara í skuld og tekjur af mjólkursölunni hafa dregist saman um 4.000 dollara á mánuði. Samt hafa þau gengið í gegnum gjaldþrotameðferð sem fól í sér afskriftir með ríkisframlagi (bailout) á 4.100 dollara skuldum. 
 
Í slíkar aðgerðir sem áttu að vera til bjargar illa stöddum bandarískum bændum setti Trumpstjórnin 28 milljarða dollara á landsvísu. Þetta hefur verið gagnrýnt á þeim forsendum að það skapaði fyrst og fremst stórbúunum tækifæri til að sölsa undir sig illa settar bújarðir. Samkvænt rannsókn Environmental Working Group hefur um 60% þess fjár sem fór til að hjálpa bændum í New York ríki runnið til 10 efnuðustu búanna. 
 
Anne Lee er þakklát fyrir stuðning­inn sem þau hjón fengu frá ríkinu þó hann dugi hvergi nærri til að halda búinu á floti. Trump er þrátt fyrir allt forsetinn sem Anne Lee og fjöldi miðstéttarfólks og fátækra kaus í kosningunum 2016. 
 
Slæmar afleiðingar af vanhugsuðum aðgerðum 
 
Þessi staða snýst þó ekki bara um flausturslegar og vanhugsaðar að­gerðir Trumstjórnarinnar þó þær hafi sannarlega bætt gráu ofan á svart í alvarlegri stöðu. Raunveruleikinn er sá að offramleiðsla var orðin á mjólkurvörum á heimsmarkaði, m.a. í löndum Evrópusambandsins eftir að framleiðslukvótar voru aflagðir. Neysla á mjólkurvörum hafði einnig verið að minnka í Bandaríkjunum sem líka orsakaði offramboð og verðfall. Það var farið að hafa mjög slæm áhrif á bændur í New York ríki. Frá 2012 hefur kúabúum í ríkinu t.d. fækkað um 1.100 samkvæmt opinberum tölum. 
 
Eftir að Trump-stjórnin setti ofurtolla á stál sem flutt var inn frá Kína og Mexíkó 2018, svöruðu þær þjóðir fyrir sig með innflutningstollum m.a. á kornvörur og mjólkurvörur frá Bandaríkjunum. Kínverjar hafa auk þess farið út í að auka verulega sína mjólkurframleiðslu til að verða sjálfum sér nægir og það mun skaða bandaríska bændur til langrar framtíðar.
 
Þetta er ekki ósvipað afleiðingum af heimskulegum viðskiptarefsingum sem Evrópusambandið og Banda­ríkin fóru í gegn Rússum eftir yfirtöku þeirra á Krímskaga. Það olli því að Rússar ákváðu að tryggja sitt fæðuöryggi og verða sjálfum sér nægir í framleiðslu á landbúnaðarvörum árið 2020. Það hefur gengið eftir og valdið bændum í ESB löndunum stórkostlegu tjóni vegna minni viðskipta við Rússa. Nú er sýnt að það er orðið viðvarandi ástand til frambúðar. 
 
Tollaútspil Trump gagnvart Kína og Mexíkó olli strax 125 milljóna dollara kjaftshöggi fyrir mjólkurbændur í New York ríki samkvæmt áætluðum tölum yfir­valda. 
 
Um hálfur tugur kúabúa í næsta nágrenni við Anne Lee og Andy hafa gefist upp og hætt starfsemi og þau sem eftir heyja harða baráttu fyrir tilveru sinni. 
 
Bændur víða um Bandaríkin berjast í bökkum
 
Í greininni er sagt að bændur víða um Banda­ríkin berjist nú í bökkum og eigi vart fyrir nauðþurftum. Afleiðingin sé stöðug aukning gjaldþrota sem hafi sjaldan verið fleiri. Beiðnum vegna gjaldþrotameðferða hafi fjölgað um 57% frá 2015. 
 
„Það er ætlast til að við brauð­fæðum heiminn, en við getum ekki einu sinni boðið upp á mat á okkar eigin borðum,“ segir Anne í viðtali við The Washington Post.
 
Sækja um matarmiða
 
Í október síðastliðnum var staðan á heimilinu þannig að varla var nokkur matararða eftir á heimilinu. Þá fór Anne að skoða hvað hægt væri að gera og fór að íhuga leiðir sem henni hafði aldrei áður dottið í hug, eins og að biðja um matarmiða og matargjafir. Var hún því að fylla út umsókn um matarmiða sem áður voru kallaðir svo, en ganga nú undir skammstöfuninni „SNAP“ sem er stytting á „Supplemental Nutrition Assistance Program“ eða verkefni um næringaraðstoð.
 
„Þetta er það sem neyðin kennir okkur,“ sagði hún á þá við eigin­manninn. 
Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...