Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Öllum sem koma á Kvægkongres er boðið í bæði hádegisverð, kaffi og kvöldmat.
Öllum sem koma á Kvægkongres er boðið í bæði hádegisverð, kaffi og kvöldmat.
Mynd / SEGES
Fréttir 20. mars 2015

Fjölsótt Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku

Höfundur: Snorri Sigurðsson Ráðgjafi hjá SEGES
Í lok febrúar sl. var haldið hið árlega Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku, sem kallast á máli heimamanna Kvægkongres. Þarna koma saman bændur, ráðunautar, dýralæknar og vísindafólk frá Danmörku og mörgum öðrum löndum til þess að ræða málefni nautgriparæktarinnar.
 
Á þessari árlegu ráðstefnu eru alltaf tekin fyrir bæði pólitísk og fagleg málefni nautgriparæktarinnar og stendur fagþingið yfir í tvo daga og er opið öllu áhugafólki í nautgriparækt. Athygli hefur vakið að á hverju ári eykst þátttaka bæði bænda og ráðgjafa þeirra frá öðrum löndum en Danmörku og sýnir það einna best styrk fagþingsins, en fullyrða má að fagþing þetta er eitt það umfangsmesta á sviði nautgriparæktar sem haldið er í norðurhluta Evrópu.
 
Níu málstofur
 
Að þessu sinni var dagskrá þingsins skipt í níu ólíkar málstofur (sjá nánar hér fyrir neðan) og voru alls flutt 58 ólík erindi þessa tvo daga, en vegna fjölda þátttakenda voru vinsælustu erindin flutt tvisvar svo líkurnar myndu aukast á því að allir gætu náð að fylgjast með. Alls voru því flutt erindi 64 sinnum á fagþinginu! Hér á eftir verða helstu efnistök einstakra málstofa rakin, en allt fagefni frá ráðstefnunni, bæði hinar faglegu greinar og þau erindi sem byggja á þeim, er opið og aðgengilegt á heimasíðu ráðstefnunnar: www.kvaegkongres.dk. Líkt og undanfarin ár var auk þessa hægt að nýta tímann í öllum kaffi- og matarhléum til þess að fræðast enn frekar enda voru helstu mjaltatækjaframleiðendurnir mættir á svæðið með nýjustu tæki og tól, ráðgjafarfyrirtækin voru þarna einnig í röðum og fleiri aðilar sem þjónusta nautgripabændur í Danmörku.
 
1. Bústjórn
 
Í málstofunni sem sneri að bústjórn voru flutt sjö fín erindi og vegna hins lága afurðastöðvaverðs til kúabúa undanfarna mánuði í Danmörku fjölluðu flest þeirra um fjármál búanna og hvernig bæta mætti stöðuna. Var þar m.a. komið inn á nýjar leiðir, sem tóku gildi um nýliðin áramót, sem ætlað er m.a. að auðvelda kúabændum kynslóðaskipti á búum sínum og felast m.a. í skattalegu hagræði af ættliðaskiptum. Ættliðaskiptin þarf að skipuleggja með töluverðum fyrirvara og gjarnan nokkurra ára, svo nýta megi sem best alla kosti í stöðunni svo sem að stofna eignarfélag um reksturinn sem svo aftur auðveldar nýjum aðila að koma að búrekstrinum.
 
Í öðru erindi var fjallað ítarlega um fjármögnun kúabúa og í því þriðja áhrif heimsmála á almennan búrekstur í Danmörku. Þá fjallaði eitt erindið um stjórnun fjármagnsflæðis í búrekstri og annað erindi um kosti þess að kaupa að margskonar þjónustu við búskapinn, bæði varðandi margs konar vinnu utan fjóssins svo sem áburðardreifingu, slátt eða þreskingu en einnig eldi á gripum. Þar getum við Íslendingar lært mikið af reynslu Dana sem hefur verið einkar góð á þessu sviði og eru í dag margir kúabændur sérhæfðir í kvígueldi fyrir aðra kúabændur, og með því skapast mikilvægt rými í hefðbundnum fjósum fyrir mjólkurkýr í stað geldneyta.
 
2. Stefnumörkun
 
Vegna sístækkandi kúabúa í Danmörku, en meðalbúið er nú með um 170 mjólkurkýr með um 1,7 milljón lítra framleiðslu á ári, þá búa flestir kúabændur núorðið við það að vera með starfskraft eða starfskrafta í vinnu. Það er töluvert breytt mynd í rekstri að vera með starfsfólk og þarf bæði til þess hæfileika í stjórnun og skipulagi svo starfsfólkið nýtist sem allra best á hverjum tíma. Um þessi atriði og fleiri fjölluðu einmitt þrjú af sjö erindum í þessari skemmtilegu málstofu.
 
Eitt af ferskari erindum fagþingsins sneri svo beint að hinni nýju kynslóð bænda og ungra starfsmanna á kúabúum landsins. Kynslóðin sem hefur verið kölluð „Z“ kynslóðin (stytting fyrir Zapp eða „smellur“) og nær yfir ungt fólk á aldrinum 15–24 ára. Fólk í þessum aldurshópi hefur flest allt tileinkað sér notkun spjaldtölva, snjallsíma og snjallsímaforrita (app) til þess að létta sér störfin og ná bættum árangri í vinnunni en einnig í einkalífi sínu. Allt er fáanlegt á netinu og með einum smelli er hægt að panta dráttarvél, íhluti eða jafnvel staðfesta stefnumót á veitingahúsi! Mörgum eldri bændum finnast þessar nýjungar oft heldur til trafala og jafnvel óþarfar og myndast því stundum gjá á milli hinna ungu og þeirra sem eldri eru. Hér þarf að brúa bil og eldri bændur, sem yngri, þurfa að læra að nýta helstu kosti hinnar nýju tæknibylgju sem og að þekkja einnig ókostina. Einkar áhugavert erindi sem óhætt er að mæla með lestri á.
 
Undanfarin ár hefur verið lögð vaxandi áhersla á vinnuvernd og vinnuöryggi í dönskum landbúnaði og hann er athyglisverður árangurinn sem forvarnarstarf um vinnuvernd hefur skilað, en átakinu hefur verið stýrt af hinu opinbera. Sérmenntað fagfólk í vinnuvernd, þ.e. beitingu líkamans við vinnu m.m., hefur farið á milli búa sem hafa tekið þátt í verkefninu og aðstoðað bændur við að finna betri leiðir til þess að vinna við daglegar gegningar svo slit og álag á líkama þeirra og starfsmanna búanna verði minna. Þetta hefur skilað sér í bættu líkamlegu vinnuumhverfi en einnig betra andlegu umhverfi, sem er ekki síður athyglisvert.
 
Eitt erindi enn er eiginlega nauðsynlegt að taka hér sérstaklega fyrir en það sneri að einkar áhugaverðum samanburði á „þeim bestu“ og öðrum kúabændum í Danmörku. Nýlega kom út skýrsla frá ráðgjafafyrirtækinu SEGES þar sem eigendur og starfsfólk 20 best reknu búanna í landinu var fengið í viðtal til þess að draga fram hvað einkennir þá sem eru að standa sig best – hvað varðar rekstur. Af þessum 20 kúabúum voru 15 með mjaltabása og fimm með mjaltaþjóna og þar af tvö þeirra einnig með mjaltabása. Ekkert af þessum kúabúum er með nýbyggingu frá síðustu tveimur árum en flest þeirra hafa farið í gegnum stækkunarferli undanfarin ár. Þau eiga það sameiginlegt að það er afar vel séð um gripina og kálfadauði er t.d. undir landsmeðaltali. Þá er nýbærum haldið aðskildum frá framleiðsluhópnum fyrstu dagana eftir burð. Annað sem einkennir búin er að bændurnir hafa brennandi áhuga á búgreininni, eru sveigjanlegir en samt mætti segja að þeir væru með fullkomnunaráráttu! Þessir bændur hafa einnig skýra sýn á framtíð búa sinna og hafa sett sér afmörkuð markmið til þess að ná ætluðum árangri. Þeir eru sjálfsgagnrýnir, bera sig saman við aðra, þá þyrstir í að læra af öðrum og fjárfesta ekki nema skýrt sé að fjárfestingin skili af sér arði. Þetta er svo sannarlega efni sem á erindi til flestra.
 
3. Fóður
 
Í málstofunni um fóður var komið inn á marga ólíka þætti fóðurs og fóðrunar en alls voru flutt sjö erindi í þessari málstofu. Eitt erindi af mörgum góðum snéri að áætlanagerð fyrir gróffóðuröflun en mikill munur er á bestu lausnum fyrir hvert kúabú, eftir því hvernig bústjórnin er og afurðastig búanna er. Annað fínt erindi fjallaði um reynslu bænda með sk. samþjappað fóður, sem byggir á því að gróffóður kúnna er svo mikið skorið og blandað í heilfóðurvagni að stubblengdin er mest 25 mm eða svo. Sé þetta rétt gert þarf varla að ýta að kúnum enda er fóðrið allt eins og kýrnar bregðast ekki við sé farið að ýta fóðrinu að, jafnvel þótt einungis sé gefið einu sinni á dag. Þetta er afar áhugaverð aðferð við fóðrun hámjólka kúa en fullyrða má að flest afurðahæstu búin, sem eru þá með meira en 13 þúsund lítra að jafnaði á kúna, notast við þessa aðferð við fóðurblöndun.
 
Annað skemmtilegt erindi fjallaði um „Gróffóðurskólann“ en það er nafnið á átaksverkefni sem hefur verið í gangi í Danmörku og í því tóku sjö bændur þátt en markmiðið með því var að hækka framlegðina pr. árskú með því að framleiða betra gróffóður. Kúabændurnir sem tóku þátt í þessu lærðu hver af öðrum auk þess að hafa sest á skólabekk og fengið góða upprifjun af fræðunum úr bændaskólanum o.fl. Á heimasíðu átaksverkefnisins, www.grovfoderskolen.dk, er hægt að lesa um þau kúabú sem tóku þátt í þessu, hvernig hverju þeirra gekk, uppskerutölur, lesa dagbækur, skoða myndir og fleira í þeim dúr.
Eitt erindi enn má hér nefna og gæti vakið áhuga á Íslandi en það snéri að beit mjólkurkúa og beitarstjórn. Hægt er gera ráð fyrir að kýr geti fengið með beit um 30–50% af daglegri fóðurþörf og á sama tíma haldið nytinni uppi. Eigi það þó að ganga eftir þarf að stýra beitinni gríðarlega vel, bæði þéttni kúnna á beit, beitartíma þeirra og tímalengd á hverri spildu. Mörg önnur atriði voru nefnd sem hægt er að lesa sér til um á vefsíðu fagþingsins. Hér er vafalítið mikið sem við getum lært af Dönum, enda hefur það verið svo hér á landi síðustu tvö ár, og raunar mun lengur, að innvigtun mjólkur til afurðastöðvanna dregst hratt saman þegar kýrnar eru settar út.
 
4. Kýrin og kálfurinn
 
Í málstofunni með þetta skemmtilega nafn voru flutt mörg erindi og m.a. af prófessor Katy Proudfoot frá Ohio-háskólanum í Bandaríkjunum. Katy þessi er sérfræðingur í atferli og aðbúnaði gripa og flutti tvö afar góð erindi. Annað þeirra sneri að því hvernig maður á að lesa rétt í atferli kúnna og hegðun þeirra, en hitt um rannsóknir á leguatferli og -tíma kúa í mismunandi innréttuðum legubásum. Í stuttu máli var niðurstaðan sú, og kemur svo sem ekki á óvart, að þar sem notaður var mikill undirburður lágu kýrnar lengur sem og ef þær höfðu aðgengi að breiðum legubásum þar sem hnakkarörið hafði verið fært svo langt fram að það truflaði ekkert kýrnar þegar þær fóru upp í legubásinn.
 
Annað erindi sem var flutt á ensku, eins og erindi Katy, var flutt af Alex Bach sem er prófessor við rannsóknastofnunina IRTA í Barcelona á Spáni. Fór hann í erindi sínu yfir helstu ferla við fóðrun kvígna, sem hafa áhrif á afurðasemi þeirra þegar þær hefja mjólkurframleiðslu. Ráðlagði hann m.a. að miða við ákveðinn þunga þegar kvígurnar hætta á mjólk 56 daga gamlar og að það eigi að tryggja kvígum hraðan vöxt fyrstu vikur ævinnar. Þá tók hann fram að ekki þurfi að óttast of mikinn þroska fram að kynþroska, það hafi nú verið sýnt fram á að mikill vöxtur framan af hafi ekki neikvæð áhrif á mjólkurframleiðsluna síðar meir – öfugt við það sem áður var miðað við. Þá eigi að fylgjast afar vel með þunga kvígnanna á hverjum tíma og halda þeim vel við efnið svo þær verði þroskamiklar við fyrstu sæðingu og haldi gjarnan þá strax svo þær beri 23 mánaða gamlar. Vissulega áhugaverðar ráðleggingar sem vert er að velta fyrir sér.
 
Mörg önnur áhugaverð erindi voru flutt í þessari málstofu og þeim sem hér að framan hafa verið nefndar. Enn skal minnt á að hægt er að hlaða niður og lesa erindin og stuttar greinargerðir erindanna á vefsíðu fagþingsins: www.kvaegkongres.dk.
 
Síðar verður fjallað um aðrar málstofur ráðstefnunnar hér á síðum Bændablaðsins, en ein þeirra fjallaði um mjólkurgæði og -framleiðslu, önnur um félagafræðslu á milli kúabænda, sú þriðja um kynbætur og sú síðasta um kjötframleiðslu. Þá voru jafnframt haldnir ársfundir hinna ólíku kúakynja í Danmörku á ráðstefnunni, en um þá verður þó ekki fjallað sérstaklega.
 

2 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...