Fleiri kýr en færri tarfar
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Hreindýrakvóti fyrir árið 2017 hefur verið ákveðinn, það er umhverfis- og auðlindaráðherra sem ákveður kvótann að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun.
Á þessu ári verður heimilt að veiða allt að 1.315 dýr, 922 kýr og 393 tarfa. Á liðnu ári, 2016 var kvótinn 1.300 dýr, 848 kýr og 452 tarfar.
Veiðin skiptist milli níu veiðisvæða og eru mörk þeirra og fjöldi dýra á hverju svæði tilgreind nánar í auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu. Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun veiðiheimilda.
Veiðitími hefst 1. ágúst
Veiðitími tarfa er frá 1. ágúst til og með 15. september, en þó getur Umhverfisstofnun heimilað veiðar á törfum frá og með 15. júlí. Veiðitími kúa er frá 1. ágúst til 20. september.Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Óheimilt er að veiða kálfa.
Verð fyrir veiðileyfin eru 140.000 kr. fyrir tarf, og nemur hækkun um 5.000 krónum og 80.000 kr. fyrir kú. Úthlutuð veiðileyfi skulu greiðast að fullu eigi síðar en 15.apríl. Frestur til að sækja um er til og með 15. febrúar.