FourSalmon kannar samfélagsleg og umhverfisleg áhrif af fiskeldi
Í lok október var haldinn fundur hérlendis vegna nýs norræns verkefnis sem kallast FourSalmon og felst í að skoða samfélagsleg og umhverfisleg áhrif af fiskeldi.
Meginviðfangsefnið er laxeldi í sjókvíum og horft til stefnumótunar, stjórnunar og eftirlits, áhrifa á nærumhverfið og samfélagið, áskorana og tækifæra.
Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans, segir að markmið verkefnisins sé að taka saman upplýsingar í fjórum löndum, Noregi, Færeyjum, Kanada og Íslandi, þar sem meðal annars er horft til laga og reglugerða í löndunum. Sérfræðingar frá Nofima og Háskólanum í Tromsö í Noregi, Háskólanum í Færeyjum, Háskólanum í Ottawa í Kanada, Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands taka þátt í verkefninu.
„Hópurinn fundaði með þeim stofnunum sem koma að umhverfismati, eftirliti og leyfisveitingum, sem og burðarþolsmati, það er að segja Skipulagsstofnun, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun, sveitarstjórnum á Tálknafirði og í Vesturbyggð, auk þess sem leitað var upplýsinga til annarra hagaðila, samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssambands veiðifélaga. Þá fór hópurinn í skoðunarferð í nýju seiðaeldisstöð Arctic Smolt í Tálknafirði.
Tækifæri og áskoranir
„Náttúruauðlindir á norðurslóðum skapa mikil tækifæri en einnig áskoranir fyrir samfélögin. Fiskeldi í sjókvíum er að ryðja sér til rúms og hefur haft áhrif á þróun byggða í dreifbýli í þátttökulöndunum.
Hérlendis höfum við til dæmis séð fjölgun íbúa í nærumhverfi fiskeldisfyrirtækja. Það eru þó ýmsar áskoranir sem snúa bæði að umhverfislegum og samfélagslegum þáttum. Í verkefninu er ætlunin að taka saman þær upplýsingar og gera samanburð milli landanna fjögurra á því hvernig stjórnun þessara þátta er háttað. ,Þannig má auka þekkingu, styðja við og stuðla að framþróun og þekkingarmiðlun milli landanna,“ segir Ragnheiður.
Sérfræðingar með þverfaglegan bakgrunn
Verkefnið er stutt af Fram Centre í Noregi (The High North Research
Centre for Climate and the Environment). Verkefnishópurinn samanstendur af sérfræðingum með þverfaglegan bakgrunn í félagsfræði, skipulagsfræði, umhverfisstjórnun, tæknigreinum og líffræði.
„Allir í hópnum eiga það sameiginlegt að hafa unnið að verkefnum á
sviði fiskeldis til fjölda ára, sem snúa að lagaumhverfi, eftirliti, leyfismálum, umhverfismati og/eða vottun á sjálfbærni.“