Framkvæmdir hafnar við Kárhól í Reykjadal
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Jarðvegsvinna fyrir Norðurljósarannsóknamiðstöð Aurora Observatory (AO), sem rísa mun á Kárhóli í Reykjadal, er hafin.
Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, segir við vefinn 641.is að verið sé að vinna við að taka grunninn fyrir rannsóknastöðina en í framhaldinu á að leggja nýjan veg að byggingarstaðnum. Bygging hússins hefur ekki verið boðin út, en gert ráð fyrir að það verði gert síðar í þessum mánuði. Byggingaframkvæmdir hefjist svo fyrri hluta júlímánaðar.
Tekur formlega til starfa næsta haust
Heildarkostnaður er áætlaður um 300 milljónir króna. Stefnt er að því að loka húsinu fyrir veturinn þannig að koma megi fyrir rannsóknartækjum á efstu hæð þess. Gert er ráð fyrir að rannsóknastöðin taki svo formlega til starfa næsta haust. Eftir stendur þá að klára þann hluta hússins sem hýsa mun gestastofuna, en ekki er ljóst hvenær hún klárast þar sem fjármögnun liggur ekki fyrir.
Rannsóknamiðstöðin er byggð á samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana, staðsett að Kárhóli í Reykjadal. Þar verður miðstöð fyrir vísindamenn ásamt gestastofu. Þær íslensku stofnanir sem koma að vísindastarfinu eru Rannís, Raunvísindastofnun Háskólans, Veðurstofa Íslands, Norðurslóðanet Íslands, Háskólinn á Akureyri og Arctic Portal.
Ísland besti staðurinn
Ísland er einn besti staðurinn á norðurhveli jarðar til að rannsaka norðurljós en Frakkar, Bretar og Japanir eru meðal þjóða sem stundað hafa rannsóknir hér á landi áratugum saman.Starfsemi rannsóknamiðstöðvar á Kárhóli mun styrkja þær norðurslóðarannsóknir sem þegar eru stundaðar hér á landi og bæta við þær á sumum sviðum. Rannsóknastarfsemi hófst haustið 2013.
Norðurljósarannsóknastöðin Aurora Observatory (AO) er sjálfseignarstofnun með staðfestri skipulagsskrá lögum samkvæmt. Stofnaðilar eru Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs., Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ehf., sem er eignarhaldsfélag sveitarfélagsins, Kjarni ehf., sem er eignarhaldsfélag í eigu Þingeyjarsveitar, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og nokkurra einstaklinga í héraði og Arctic Portal ehf., en fyrirtækið hefur virka aðkomu að margvíslegum rannsóknar- og upplýsingaverkefnum á sviði norðurslóðamála.