Framleiddar voru 6,6 milljónir tonna af appelsínum 2018
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Appelsínuuppskera aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) nam 6,5 milljónum tonna árið 2018. Þetta var mesta framleiðsla síðan 2010 og kom meirihlutinn frá Spáni, eða 3,6 milljónir tonn, sem er 56% af heildar appelsínuuppskeru ESB-landanna.
Aðeins örfá ríki Evrópusambandsins hafa heppilegt loftslag fyrir appelsínurækt. Fyrir utan Spán voru helstu framleiðslulöndin Ítalía með1,6 milljónir tonna, eða 24% af heildarframleiðslunni. Síðan kom Grikkland með 0,9 milljónir tonna, eða 14%, að því er fram kemur í nýjum tölum Eurostat sem birtar voru 3. janúar síðastliðinn.
Appelsínur voru ræktaðar á tæplega 274.000 hekturum árið 2018, en rúmur helmingur alls svæðisins var á Spáni, eða 140.000 hektarar. Á Ítalíu var næsthæsta svæðið undir framleiðslu appelsína, eða 83.000 hektarar, eða 30% af heildinni. Þá kom Grikkland með 32.000 hektara sem er 12% af heildarræktunarsvæði á appelsínum í ESB-löndunum.