Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Jón flytur erindi sitt á ráðunautafundinum á föstudaginn.
Jón flytur erindi sitt á ráðunautafundinum á föstudaginn.
Mynd / smh
Fréttir 13. júní 2019

Framræst land nú áætlað 70 þúsund hekturum minna en áður var talið

Höfundur: smh / HKr.
Framræst land og mýrar, sem hafa verið talin stærsti þátturinn í losun  gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, eru ekki eins umfangs­mikil og talið hefur verið. Því standast forsendur og fullyrðingar væntanlega ekki sem gefnar hafa verið út m.a. af ríkisstjórn Íslands um losun mýra. Þær forsendur gera ráð fyrir að framræst land losi um 72% gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
 
Á ráðunautafundi Ráðgjafar­miðstöðvar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) á Hvanneyri síðasta föstudag greindi Jón Guðmundsson, lektor við LbhÍ, frá nýrri hnitun á skurðakerfi landsins, sem ætlað er að meta upp viðbætur á framræstu landi frá fyrri hnitun. Einnig greindi hann frá innleiðingu Vistgerðarkorts Náttúrufræðistofnunar Íslands við mat á framræstu landi. Nú er áætlað að það land sé rúmlega 70 þúsund hektara minna en áður var talið.
 
Þegar lagt er mat á það hversu mikið tiltekið framræst land losar af kolefni þarf að taka mið bæði af flatarmáli og losun á flatareiningu – áður en það er hægt að reikna það út.  Þegar verið var að ræsa fram land voru ekki samhliða gerð nein kort af því landi sem var ræst fram. Hér á landi vantaði því mat á umfangi framræslu sem hægt væri að leggja fram í alþjóðlegu samstarfi um loftslagsmál. Á það ekki bara við um stærð þeirra svæða sem hafa verið framræst, heldur einnig gögn um flokkun jarðvegsgerða þeirra sem Þóroddur Sveinsson, lektor við LbhÍ, fjallaði um á fundinum. 
 
Jón sagði að viðfangsefnið sitt og hans teymis hafi verið að meta sem best heildarflatarmál þeirra svæða sem eru að jafnaði nægilega framræst til að breyta gasbúskap svæðisins miðað við náttúrulegt ástand. Samkvæmt þeim tölum sem nú liggja fyrir er nú áætlað að flatarmál þessa framræsta lands sem um ræðir sé um 71 þúsund hektara minna en áður var talið. Breytingin er annars vegar vegna nýja Vistgerðarkortsins og hins vegar nákvæmara hæðarlíkans. Hann segir að ekki hafi enn verið tekið tillit til nýrrar kortlagningar á skurðakerfinu. 
 
Miðað við það sem þegar hefur verið kortlagt hafa bæst við að minnsta kosti 1.100 km af skurðum á síðustu 10 árum. Þá er eftir að taka með Vesturlandið en kortlagningu þar er ekki lokið að fullu.
 
Ný gögn til grundvallar aðgerðaráætlun
 
„Forsagan fyrir því að það er ráðist í þetta endurmat á flatarmáli framræsta landsins er í rauninni sú að gögnin sem eldra mat byggðist á höfðu ekki verið uppfærð. Til þess að geta metið umfang þess lands sem losar kolefni – og geta þar með staðið við loftslagssamninginn sem við gerðum í París – var nauðsynlegt að fara í vinnuna við endurmatið, sem felst meðal annars í nýju skurðakorti,“ segir Jón í samtali við blaðamann.
 
„Við vinnuna hefur verið notast við nýjar loftmyndir frá Loftmyndum ehf. og samanburð við eldri loftmyndir. Við yfirborðsflokkun á landi hefur verið notast við nýja vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands, auk nýs og mun betra hæðarlíkans,“ segir Jón. 
 
Alvarlegar skekkjur líklega víða
 
Fleiri gögn og greinar sérfræðinga benda til að víða geti verið skekkjur varðandi fullyrðingar um losun íslenskra mýra á gróður­húsalofttegundum. Þannig hafa bæði dr. Þorsteinn Guðmundsson, þá prófessor í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, og dr. Guðni Þorvaldsson, prófessor í jarðrækt við LbhÍ, bent á mikla óvissu varðandi fullyrðingar um stærð mýra og losun. 
 
Í grein í Bændablaðinu í febrúar 2018 bentu þeir á að ekki sé tekið nægt tillit til breytileika mýra og efnainnihalds. 
 
„Íslenskar mýrar eru yfirleitt steinefnaríkari en mýrar í nágrannalöndunum, m.a. vegna áfoks, öskufalls, mýrarrauða og vatnsrennslis í hlíðum, og lífrænt efni er að sama skapi minna.“ 
 
Þá benda þeir á að samkvæmt jarðvegskortum LbhÍ og Rala sé lítill hluti af íslensku votlendi með meira en 20% kolefni, en nær allar rannsóknir á losun sem stuðst hafi verið við séu af mýrlendi með yfir 20% kolefni. 
 
„Það þarf að taka tillit til þessa mikla breytileika í magni lífræns efnis þegar losun er áætluð úr þurrkuðu votlendi,“ segir m.a. í greininni.
 
Þeir telja líka að mat á stærð lands sem skurðir þurrki ekki standast. Í stað 4.200 ferkílómetra lands sé nær að áætla að þeir þurrki 1.600 ferkílómetra. Þá sé nokkuð um að skurðir hafi verið grafnir á þurrlendi til að losna við yfirborðsvatn þannig að ekki sé allt grafið land votlendi.  
 
Losun stendur aðeins yfir í 50 ár
 
Í meistararitgerð Gunnhildar Evu Gunnarsdóttur við Háskóla Íslands  frá 2017 var reynt að meta losun kolefnis í þurrkuðum mýrum. Niðurstöður hennar benda til að losun sé mest fyrstu árin en sé síðan hlutlaus að 50 árum liðnum. Það er ekki í samræmi við þær viðmiðunartölur sem yfirvöld á Íslandi styðjast við í sínum aðgerðaráætlunum. Það þýðir væntanlega að losunartölur geti verið stórlega ýktar og mokstur í stærstan hluta skurða á Íslandi kunni því að þjóna litlum sem engum tilgangi. Jarðraskið sem af því hlýst gæti hinsvegar allt eins  leitt til aukinnar losunar.  
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...