Aðeins örfá bú fullnýta afkastagetu mjaltaþjónanna
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Þrátt fyrir að mjaltaþjónar geti afkastað yfir 450.000 lítrum á ári þá eru einungis örfá bú sem ná þeim árangri á Íslandi samkvæmt ársskýrslu NMSM, norrænnar nefndar um mjólkurgæði, árið 2015. Fastur kostnaður á hvern framleiddan lítra úr mjaltaþjónum er því gríðarlega misjafn á milli búa.
Vekur þetta óneitanlega athygli í ljósi mikillar endurnýjunar á mjaltaþjónum sem nú á sér stað á fjölmörgum kúabúum. Einnig þar sem stöðugt fjölgar þeim búum sem taka mjaltaþjóna í sína þjónustu hér á landi. Í Bændablaðinu 11. febrúar síðastliðinn var svo greint frá því að Íslendingar eiga nú heimsmet í hlutfalli þeirrar mjólkur sem kemur frá mjaltaþjónabúum. Koma 37,2% af mjólkinni frá slíkum búum.
Tækniundur sem kostar sitt
Þá er vert að hafa það í huga að þessi háþróuðu tækniundur sem mjaltaþjónarnir eru, kosta umtalsverða fjármuni. Gróflega má segja að einn mjaltaþjónn kosti á bilinu 20 til 30 milljónir króna, allt eftir búnaði. Hérlendis eru þrjár tegundir að bítast um markaðinn, Lely, DeLaval og GEA frá þýska fyrirtækinu Westfalia Warragul.
Að sögn Snorra Sigurðssonar, ráðgjafa hjá SEGES p/s í Danmörku, þá má að hluta sækja skýringuna í jafn einfaldan hlut og að of fáar kýr séu á hvern mjaltaþjón. Það er samt alls ekki raunin í öllum tilvikum. Reynslan frá Danmörku sýnir að í ótal tilvikum er ástæðan fyrir slakri nýtingu þessarar mjaltatækni einfaldlega vanþekking á réttum vinnubrögðum, stillingum hugbúnaðar og grunnhönnun fjósa.
Skýringa leitað
Tilgangur verkefnis sem Snorri vann að fyrir íslenska kúabændur var að skoða hvað skýrir mismunandi nýtingu mjaltaþjóna á Íslandi. Einnig hvort bæta megi nýtingu þeirra með hagnýtri ráðgjöf með sama hætti og gert hefur verið í Danmörku með góðum árangri og um leið að lækka hlutfalls fasts kostnaðar á hvern framleiddan lítra. Jafnframt að kynna fyrir íslenskum bændum og ráðgjöfum hér á landi þær aðferðir sem notaðar eru í Danmörku við ráðgjöf í tengslum við mjaltir í mjaltaþjónafjósum.
Úttekt gerð á 10 mjaltaþjónafjósum
Verkefnið byggði á úttektum á 10 mjaltaþjónafjósum, þar sem farið var bæði yfir vinnubrögð í fjósi, hugbúnaðarstillingar og fjóshönnun svo bæta mætti nýtinguna.
Notuð var stöðluð ráðgjafaaðferð, sem notuð er við mjólkurframleiðsluráðgjöf í Danmörku á vegum SEGES. Niðurstöður þessarar úttektar auk eyðublaðanna sem hér hafa verið þýdd yfir á íslensku, og eru í Viðauka I og II, geta vonandi nýst bæði bændum, þjónustuaðilum og ráðgjöfum á komandi misserum í leit að bættri nýtingu mjaltaþjóna hér á landi.
Búin áttu það sameiginlegt að nýting mjaltaþjónanna, með tilliti til fjölda kúa, var afar slök og var meðalfjöldi mjólkandi kúa ekki nema 48,7. Fæstar kýr voru 33 og flestar 61 og staðalfrávikið 9,4. Í Danmörku er miðað við að mjaltaþjónn geti afkastað 60–65 mjólkandi kúm að jafnaði.
Í öllum fjósum var gert ráð fyrir fleiri kúm en sem nam mjólkandi kúm á þeim tíma sem búin voru heimsótt og var meðalfjöldi bása 64,3, frá 50 og upp í 74 básar.
Umferðarstjórnun
Í þremur fjósum var notast við stýrða umferð kúa en í hinum fjósunum réðu kýrnar sér sjálfar. Ekki var unnt að greina af gögnunum um jákvæð áhrif þess að notast við umferðarstýringu með einhverjum hætti. Í Danmörku er almennt mælt með því að notast við frjálsa umferð við mjaltaþjóna.
Þrátt fyrir umferðarstjórnina þarf að sækja kýr í öllum fjósum og er það í mjög góðu samræmi við danska reynslu en algengt er að bændur telji að með sjálfvirkum hliðum þá minnki þessi þörf verulega. Ekki mátti sjá að það væri raunin en sem hlutfall af heildarfjölda mjólkandi kúa þurfti að sækja frá 2,5% og upp í 33,3% kúnna. Í Danmörku er miðað við að þetta hlutfall haldist undir 3% og sé það hærra en 5% þá sé verið að sækja of margar kýr. Í samtölum við ábúendur kom skýrt fram að fjöldi þeirra kúa sem er sóttur í mjaltir fer mjög mikið eftir bóndanum sjálfum og hver það er sem er í fjósinu á hverjum tíma. Þannig gat verið töluverður munur á skilgreiningu á því hvað væri biðkýr innan bús, eftir því við hvern var rætt. Ekki var hægt að sjá mun á nýtingu og því hve margar kýr voru sóttar og svo virtist sem að sumir bændur væru að eyða allt of miklum óþarfa tíma í að finna kýr í mjaltir. Í Danmörku er almennt miðað við að ekki eigi að vera með kýr sem bíða mjalta í lengri tíma en allt að 12 tímum.
Gróffóðrun
Á milli fjósanna var mikill breytileiki hvað snerti gróffóðurgjöfina, allt frá því að gefa kúnum hey oft á dag og upp í að gefa þeim nýtt gróffóður þriðja hvern dag (samkeyranlegur fóðurgangur). Ekki mátti sjá af gögnum um sókn kúa í mjaltaþjóna að gjafalagið hefði teljandi áhrif, öfugt við það sem þekkist erlendis. Þess má þó geta að hvergi var staðan slík að mjaltaþjónn væri fullsetinn og gæti það skýrt af hverju ekki fannst munur. Þá er reginmunur á gróffóðrun á Íslandi og erlendis þar sem kjarnfóðurgjöf í mjaltaþjónum er oft að hámarki 2–3 kg yfir daginn pr. kú eða nærri þrefalt minni en hér á landi.
Þýðing gjafalags gróffóðurs hér á landi skiptir því ekki jafn miklu máli og erlendis. Í Danmörku er almennt miðað við að þar sem kýr eru mjólkaðar með mjaltaþjónum þá standi þeim til boða fersk gróffóðurgjöf allan sólarhringinn.
Hreinleiki kúa
Hreinleiki kúnna var metinn huglægt á bilinu 1–3. Kýrnar í fjórum fjósum voru metnar mjög hreinar og einungis verulega óhreinar í einu fjósi. Hreinleiki kúa skiptir mjög miklu máli þegar nýta þarf mjaltaþjónana sem best enda hefur hreinleiki bein áhrif á afkastagetu mjaltaþjónanna vegna meiri erfiðleika við að finna spena séu júgur og spenar óhrein. Í Danmörku er forsenda góðra og hraðra mjalta að kýrnar séu hreinar þegar þær koma til mjalta og fáar ef nokkrar kýr flokkist með hreinleikastuðulinn „2“ eða „3“.
Rými í fjósi
Við úttektirnar var rými við mjaltaþjón metið en um huglægt mat var að ræða. Einungis eitt fjós var talið uppfylla nútíma kröfur um rými við mjaltaþjóna og fjögur fjósanna voru metin sem mjög þröng. Í Danmörku er miðað við að rými framan við mjaltaþjón sé gott og í kringum 5 metra opið svæði sé framan mjaltaþjóns.
Kvörðun kjarnfóðurgjafar
Fram kom í viðtölum við ábúendur að fáir kanna reglulega hvort kjarnfóðrið sé rétt skammtað, þ.e. í samræmi við það sem hugbúnaðurinn ætlar kúnum að fá. Reynslan erlendis frá hefur sýnt að búnaður sem skammtar kjarnfóður, hvort heldur sem er í kjarnfóðurbásum eða í mjaltaþjónum, á það til að afstillast nokkuð auðveldlega. Góð þumalfingursregla er að yfirfara þetta stillingaratriði reglulega og ekki skemur en ársfjórðungslega. Þá má sjá hér síðar (í töflunni) að all nokkur breytileiki er á gefnu magni kjarnfóðurs pr. 100 kg mjólkur en það skýrist væntanlega að stærstum hluta af gæðum gróffóðursins. Ekki var unnt að meta þennan þátt, þ.e. hvað væri „rétt“ eða „rangt“.
Afar misjöfn þekking á búnaðinum
Þá var einnig komið inn á margvíslega þætti í umgengni bænda við mjaltaþjónana, undirbúning fyrir mjaltir og stillingar tækjanna. Afar mikill breytileiki var á þekkingu ábúenda á einstökum stillingarmöguleikum þeirra eigin mjaltþjóna. Þannig voru einstaka bændur „á kafi“ í kerfunum, flestir kunnu ágætlega á kerfin en aðrir með einungis grunnþekkingu á búnaðinum. Á öllum búunum kom fram að bæta mætti verulega þessa hlið kunnáttu bændanna.
Helstu niðurstöður
- Mikill breytileiki á milli kúabúa í grunnstillingum mjaltaþjóna bendir til þess að þjónustufyrirtækin þurfa að skoða með hvaða hætti endurmenntun þjónustuaðila er sinnt. Ekki var hægt að finna haldbærar skýringar á miklum mun á milli búa og svo virðist sem góð reynsla stillinga á einu búi skili sér ekki áfram á önnur bú og/eða til þjónustumanna mjaltaþjónanna, sem þá gætu skilað þekkingunni áfram. Hér geta fyrirtækin, sem selja mjaltaþjónana, gert mikið bæði „innanhúss“ varðandi menntun þjónustumanna, en einnig við að miðla góðum reynslusögum á milli búa. Þá má ætla að bæði ráðgjafar RML og MS hafi hér hlutverki að gegna gagnvart bændunum.
- Mikill munur var á þekkingu bændanna sjálfra á grunnmöguleikum í stillingum mjaltaþjónanna og eru hér sjáanlega verulega mikil tækifæri í endurmenntun fyrir aðila eins og Landbúnaðarháskólann, RML eða jafnvel MS. Þá hljóta að vakna spurningar um gæði þeirrar kennslu og kennsluefnis sem fyrirtækin, sem selja tækin til bændanna, eru með.
- Mjög fáir bændur könnuðu hvort kjarnfóðurgjöf mjaltaþjónsins væri rétt en hún afstillist stndum og því þarf að stilla af gjöfina miðað við ætlað magn reglulega. Þjónustuaðilar mjaltaþjónanna hafa hér hlutverk, enda kunnu ekki allir bændurnir að gera þetta.
- Töluverður breytileiki í kjarnfóðurstillingum mjaltaþjónanna gefur ástæðu til að ætla að gera megi átak í því að kynna fyrir bændum þá möguleika sem stillingar kjarnfóðurs hafa upp á að bjóða.
- Allt of oft sást að stilling á kjarnfóðurgjöf miðað við nyt var kaflaskipt og var kúm því hætt við að „detta“ úr einu gjafalagi í annað með tilheyrandi afurðatapi.
- Skilgreining bænda á því hvenær sækja þarf kýr í mjaltir var mjög mismunandi og einnig innan bús eftir því hver átti í hlut. Sumir bændur eru sjáanlega að nota allt of mikinn tíma í að sækja kýr og þurfa að temja sér meiri ró enda á ekki að þurfa að sækja meira en 5–6%. Jafningjafræðsla, þ.e. að koma upp spjallhópum bænda með sambærilega mjaltaþjóna, gæti hér skilað miklum árangri til þess að miðla reynslu og þekkingu á milli búanna.
- Aðgengisstillingar fyrir kýr og ungar kýr á fyrsta mjaltaskeiði, á mismunandi stöðu innan mjaltaskeiðs voru mjög ólíkar á milli búa. Ekki var hægt að greina samhengi á milli ólíkra stillinga og raunverulegrar nýtingar á mjaltaþjónunum sem bendir til þess að hér sé full ástæða fyrir þjónustuaðilana að skoða nánar hvernig leiðbeiningum er háttað varðandi aðgengi kúnna og hvaða stillingar henti best hverju sinni. Ekki var unnt að greina að mikill breytileiki á stillingum gagnaðist sérstaklega á einstökum búum.
- Mikill breytileiki í lykiltölum búanna bendir til þess að veruleg sóknarfæri séu í átt að bættri nýtingu mjaltaþjónanna. Hér eru mikil sóknarfæri fyrir ráðgjafa landsins enda auðvelt að bera þessar tölur saman koma með tillögur til úrbóta.
Verkefnið kostað af Framleiðnisjóði SAM og MS
Verkefnið var kostað af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) og Mjólkursamsölunni (MS) og var unnið í samstarfi við SEGES í Danmörku (áður Þekkingarsetur landbúnaðarins - VFL). Þá var starfsmönnum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins boðið að taka þátt í heimsóknum á búin ásamt þjónustumönnum viðkomandi tegundar mjaltaþjóns viðkomandi bús.
Snorri vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem að verkefninu komu, sérstaklega þeim kúabændum sem tóku þátt.