Bændasamtökin óska eftir að umboðsmaður Alþingis skoði lögmæti flutnings Búnaðarstofu til ráðuneytis
Fram til ársins 2015 sáu Bændasamtök Íslands um ýmis stjórnsýsluverkefni fyrir ríkið í samræmi við framkvæmd búvörulagasamnings. Þetta fól m.a. í sér útdeilingu beingreiðslna og styrkja frá ríki til greina landbúnaðarins.
Þetta hlutverk var áður í höndum Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem stofnað var á árinu 1947 og síðan færðust þau verkefni yfir til Bændasamtaka Íslands á árinu 1999 þegar þau samtök urðu til við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda.
Innheimta ríkisins á búnaðargjöldum reyndist ólögleg
Fyrirkomulag og innheimta búnaðargjalda til að standa straum af þessum fjárveitingum ríkisins reyndist síðan ólögmætt og talið að það stangaðist á við ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og skattlagningu og bryti í bága við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.
Úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu 2010 tók af allan vafa
Segja má að allt frá því Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu þann 27. apríl 2010 að sérstök lög um iðnaðarmálagjald stæðust ekki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu, hefur framkvæmd búvörulagasamnings og innheimta búnaðargjalda verið í uppnámi. Iðnaðarmálagjaldið rann til Samtaka iðnaðarins og var varið til að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu. Það var ekki ósvipað hlutverk og búnaðargjaldinu var ætlað að standa straum að.
Stjörnugrís vann mál um ólögmæti búnaðargjalds
Stjörnugrís hf. fór í framhaldi af niðurstöðu Mannréttindadómstólsins í mál við ríkið og krafðist endurgreiðslu á innheimtu búnaðargjalds áranna 2010 til 2014. Fyrir lá að gjaldinu var ráðstafað til Svínaræktarfélags Íslands, Bjargráðasjóðs, Bændasamtaka Íslands og Búnaðarsambands Kjalarnesþings.
Héraðsdómur féllst á að lögin um búnaðargjöld væru sett í þágu Bændasamtaka Íslands, en stæðust ekki eignarréttarákvæði gjaldþola né stjórnarskrárákvæði er varða gjöld til almannaþágu.
Hæstiréttur Íslands úrskurðaði síðan í ársbyrjun 2017 að íslenska ríkinu bæri að greiða Stjörnugrís hf. tæpar 40 milljónir króna auk vaxtaog 1,5 milljónir króna í málskostnað.
Í úrskurði Hæstaréttar segir að Stjörnugrís hf. reisi kröfu sína á því að álagning og innheimta gjaldsins samkvæmt lögum nr. 84/1997 um búnaðargjald væri ólögmæt hvað hann varðaði, auk þess sem gjaldtakan stangaðist á við ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og skattlagningu og bryti í bága við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.
Þegar niðurstaða fékkst í máli Stjörnugríss var ljóst að ríkinu væri óheimilt að innheimta búnaðargjald og stokka þyrfti upp þau verkefni sem Bændasamtökin sinnti fyrir ríkið.
Búnaðarstofa sett á laggirnar sem sjálfstæð eining innan BÍ
Búnaðarstofa var stofnuð sem sérstök sjálfstæð eining innan BÍ árið 2015 og fluttust þangað stjórnsýsluverkefnin sem áður voru á hendi Bændasamtaka Íslands. Búnaðarstofa var áfram í Bændahöllinni, en undir hana heyrði margvísleg starfsemi sem byggð hafði verið upp hjá Bændasamtökum Íslands. Það varðar t.d. gagnasöfnun um búfjárhald og framleiðslu sem og talnaupplýsingar um slátrun og sölu afurða.
Efasemdir um lögmæti starfsemi Búnaðarstofu í Bændahöllinni
Til að taka af öll tvímæli um sjálfstæði þessarar einingar gagnvart hagsmunasamtökum eins og Bændasamtökum Íslands kom fljótlega upp hugmynd um að Búnaðarstofa yrði sjálfstæð stofnun. Það þótti samt af einhverjum ástæðum ekki nógu góð hugmynd og var Búnaðarstofa sett undir Matvælastofnun og starfsfólk hennar flutt í Hafnarfjörð í ársbyrjun 2016.
Líka efasemdir um lögmæti Búnaðarstofu undir handarjaðri MAST
Fyrir þann gjörning var bent á að hafi Búnaðarstofa verið talin of hagsmunalega tengd Bændasamtökunum með aðsetur í Bændahöllinni, þá væri hún það ekkert síður undir handarjaðri Matvælastofnunar sem væri eftirlitsaðili með allri matvælaframleiðslu og dýrahaldi í landinu. Með því fyrirkomulagi gæti augljóslega komið til hagsmunaárekstra.
Stjórnsýsluverkefni í tengslum við framkvæmd búvörusamninga og hagtölusöfnun í landbúnaði voru flutt til Matvælastofnunar árið 2016. Þar fór Búnaðarstofa í sjálfstæða skrifstofu innan stofnunarinnar með lögum nr. 46/2015. Var þetta gert í tíð Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi landbúnaðarráðherra. Þar með var ábyrgðin og framkvæmdin á verkefnunum komin á sama stað. Verkefni Búnaðarstofu átti hins vegar litla samlegð með eftirlitsverkefnum MAST.
BÍ vildi sjálfstæða stofnun
Samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis gerðu umsagnaraðilar ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið en BÍ og aðilar tengdir landbúnaði mótmæltu flutningi þessara stjórnsýsluverkefna til MAST og lögðu til að verkefnin yrðu flutt í sjálfstæða stofnun undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis sem birtur var í Bændablaðinu sagði m.a.:
,,Nefndinni bárust efasemdir um að fela ætti Matvælastofnun umrædd verkefni þar sem þau eru einkum í ætt við þjónustu, framkvæmd búvörusamninga, áætlunargerð og söfnun talnaupplýsinga en ekki eftirlit sem er meginhlutverk stofnunarinnar. Með öðrum orðum var bent á að umrædd verkefni féllu ekki að þeim verkefnum sem stofnunin sinnir nú þegar. Meirihlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur brýnt að verkefnin verði skýrt afmörkuð í sjálfstæðri einingu í skipulagi stofnunarinnar. Jafnframt bendir meirihlutinn á að umrædd verkefni má vinna óháð staðsetningu.“
Stjórnarfrumvarpið var samþykkt mótatkvæðalaust með minni háttar breytingum
Ráðherra setur lög um flutning verkefna Búnaðarstofu til ráðuneytis
Í framhaldinu kom sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, fram með lagafrumvarp í september 2019, þar sem gerðar voru breytingar á ýmsum lagaákvæðum um stjórnsýslu búvörumála. Var Matvælastofnun felld út úr lagatextanum um breytingu á búnaðarlögum. Það hlutverk MAST var með lögunum sett beint undir ráðherra. Sömuleiðis voru gerðar breytingar á lögum um Matvælastofnun sem fólu í sér að Búnaðarstofa yrði lögð niður. Breytingarnar öðluðust gildi 1. janúar 2020.
Í greinargerð atvinnuveganefndar Alþingis vegna þessarar lagasetningar komu fram skýr tilmæli:
,,Atvinnuveganefnd Alþingis beinir því til ráðuneytisins í ljósi mikilvægi og umfangs þeirra verkefna sem Búnaðarstofa sinnir í dag við framkvæmd búvörusamninga, hagtölusöfnun og þróun tölvukerfa að ráðuneytið afmarki með skýrum hætti verkefni Búnaðarstofu innan ráðuneytisins.“
Með þessu var í raun verið að ítreka afstöðu Bændasamtaka Íslands um Búnaðarstofu sem sett var fram við flutninginn á þessum verkefnum til MAST 2016.
Efasemdir um lögmæti flutnings á starfsemi Búnaðarstofu til ráðuneytis
Allt frá því Búnaðarstofa, eða starfsfólk þess og verkefni voru flutt í aðsetur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að Skúlagötu 4 í Reykjavík, hefur verið bent á að sá gjörningur gæti verið á skjön við lög. Þar væri ráðuneytið framkvæmdaraðili við að annast útdeilingu fjár og um leið hafa annast umsýslu, upplýsingaöflun og eftirlit með sömu aðilum og fengu fjármunina. Það fyrirkomulag gæti falið í sér hagsmunaárekstra. Ráðuneytið gætti þar hagsmuna ríkisins og væri yfirvald yfir eftirlitsstofnunum sem sinntu eftirliti með bændum. Ráðuneytið væri því í raun ekki síður ólöglegur framkvæmdaaðli í þessu máli en Matvælastofnun og Bændasamtök Íslands þar á undan.
Kæruréttur á öllum stjórnvaldsákvörðunum sagður tekinn af bændum
Bent hefur verið á ýmsa ágalla núverandi fyrirkomulags. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hefur m.a. bent á dóm Hæstaréttar í svonefndum Hólagarðsdómi árið 1992, en þar segir:
„…hafði sama ríkisstofnun á hendi rannsókn í söluskattsmáli sóknaraðila og uppkvaðningu úrskurðar á grundvelli þeirrar rannsóknar. Sóknaraðili fékk ekki komið fram endurskoðun á þeim efniságreiningi sem uppi er í málinu, hvorki með kæru til æðra stjórnvalds né í lögtaksmáli. Með þessu móti var mál hans leitt til lykta á einu stjórnsýslustigi. Þessi málsmeðferð var svo andstæð meginreglum stjórnsýsluréttar um rétt borgaranna til endurskoðunar á stjórnvaldsúrskurði fyrir æðra stjórnvaldi.“
Bent er á að helsta markmið með setningu stjórnsýslulaga hafi verið að tryggja sem best réttaröryggi manna í skiptum við hið opinbera. Því vill Guðni meina að með því að færa stjórnsýsluverkefni í tengslum við framkvæmd búvörusamninga undir ráðuneyti landbúnaðarmála þá sé verið að taka kæruréttinn af bændum á öllum stjórnvaldsákvörðunum. Þetta sé gert þrátt fyrir áðurnefnda meginreglu stjórnsýsluréttar um rétt einstaklinga til að fá ákvörðun endurskoðaða fyrir æðra stjórnvaldi.
BÍ óskar eftir áliti umboðsmanns Alþingis
Á fundi stjórnar Bændasamtaka Íslands sem haldinn var þriðjudaginn 23. febrúar síðastliðinn var lagt fram minnisblað er varðar flutning á starfsemi Búnaðarstofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Þar voru færð rök fyrir því að framkvæmd búvörusamninga, hagtölusöfnun í landbúnaði og eftirlit með markmiðum búvörusamninga ætti ekki að liggja hjá stofnun sem væri undir yfirstjórn annars samningsaðilans, heldur hjá sjálfstæðri stofnun er lúti sérstakri stjórn, þó hún heyri stjórnarfarslega undir landbúnaðarráðherra.
Samþykkti stjórn BÍ í framhaldinu samhljóða að óska eftir áliti umboðsmanns Alþingis á stjórnsýslulegu fyrirkomulagi við framkvæmd búvörusamninga innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Ekki liggur fyrir hvort eða hvenær embætti umboðsmanns muni fjalla um málið.