Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Stærsta löndunarhöfnin í Danmörku er Skagen sem liggur nyrst á Jótlandi. Þar lönduðu dönsk skip 393 þúsund tonnum árið 2017 að verðmæti 922 milljónir danskra króna (rúmir 15 milljarðar íslenskir).
Stærsta löndunarhöfnin í Danmörku er Skagen sem liggur nyrst á Jótlandi. Þar lönduðu dönsk skip 393 þúsund tonnum árið 2017 að verðmæti 922 milljónir danskra króna (rúmir 15 milljarðar íslenskir).
Fréttaskýring 27. ágúst 2018

Danir meðal stærstu fiskútflytjenda

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Danir eru ekki ríkir af auðlindum en með hugviti hafa þeir skapað öflugt atvinnulíf og fjölbreyttar framleiðsluvörur sem byggist gjarnan á aðföngum erlendis frá. Sjávarútvegur er þar engin undantekning. Danir skáka Íslendingum í útflutningsverðmæti sjávarafurða.


Þótt sjávarútvegur vegi ekki þungt í atvinnulífi Danmerkur veiða Danir engu að síður töluvert af fiski líkt og fleiri norrænar þjóðir. Á árinu 2017 nam afli þeirra 910 þúsund tonnum að verðmæti 3,4 milljarðar danskra króna (um 57 milljarðar íslenskir). Til samanburðar má geta þess að íslensk skip veiddu tæpar 1,2 milljónir tonna á árinu 2017 að verðmæti um 110 milljarðar króna.

Bræðslufiskur vegur þungt

Ísland var 19. stærsta fiskveiðiþjóð heims árið 2016 miðað við magn samkvæmt tölum FAO en Danmörk var í 22. sæti. Þótt ekki muni miklu á heildarveiði þjóðanna er hins vegar mikill munur á samsetningu aflans.

Fyrir það fyrsta er megnið af því sem Danir veiða bræðslufiskur, það er fiskur sem gagngert er veiddur til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi. Um 600 þúsund tonn af veiðum þeirra 2017 var landað til bræðslu, eða um tveir þriðju af heildarveiðinni, að verðmæti um 723 milljónir danskar (um 10 milljarðar íslenskir). Hér er einkum um að ræða tegundir sem Íslendingar veiða ekki, svo sem sandsíli og brislingur. Þess ber að geta að kvóti Dana í sandsíli á árinu 2017 var óvenjustór miðað við árin á undan.

Sandsíld.

 

Síldin verðmætust

Þorskur vegur ekki þungt í dönskum fiskveiðum ólíkt því sem gerist hér á landi. Á síðasta ári veiddu Danir aðeins rúm 18 þúsund tonn af þorski að aflaverðmæti 327 milljónir danskar (5,4 milljarðar íslenskir). Á sama tíma veiddu Íslendingar 245 þúsund tonn af þorskinum að verðmæti 49 milljarðar.
Síld er sú tegund sem skilar Dönum mestum aflaverðmætum. Þeir veiddu tæp 130 þúsund tonn af þeirri tegund að verðmæti 485 milljónir danskar (um 8 milljarðar íslenskir).

Þá skipa flatfiskar stóran sess í afla Dana. Þeir veiddu til dæmis um 22 þúsund tonn af rauðsprettu í fyrra en Íslendingar veiddu það ár tæp 7 þúsund tonn af sprettunni. Loks má nefna að veiðar á kræklingi skipta tugum þúsunda tonna. Þær veiðar fara aðallega fram í Limafirði.

Fiskeldi í Danmörku er þónokkurt og er í kringum 45 til 50 þúsund tonn á ári.

Tvöfalt meiri útflutningur en frá Íslandi

Danir eru mjög stórir í viðskiptum með útfluttar sjávarafurðir, mun stærri en við Íslendingar. Nýlegar tölur sýna að Danir eru áttundi stærsti úrflytjandi sjávarafurða í heiminum í verðmætum talið.

Á árinu 2017 fluttu Danir út um 1,1 milljón tonna af sjávarafurðum fyrir 26,9 milljarða danskra króna (um 445 milljarðar íslenskir). Til samanburðar nam útflutningur sjávarafurða frá Íslandi á sama tíma í kring um 220 milljörðum króna að eldisfiski meðtöldum.

Hvernig má það vera að útfluttar sjávarafurðir Dana séu tvöfalt hærri í verðmætum en útflutningur Íslendinga þegar aflaverðmæti Íslands er tvöfalt hærra? Skýringin felst í því að Danir flytja inn gríðarlegt magn af fiski og öðru sjávarfangi sem hráefni til vinnslu afurða sem fluttar eru út.

Innflutningur Dana á fiski og öðru sjávarfangi nam þannig rúmum 1,2 milljónum tonna á árinu 2017 (svipað og heildarafli Íslendinga) að verðmæti 19 milljarðar danskra króna (um 314 milljarðar íslenskir).

Helmingur er landanir erlendra skipa

Megnið af þessum innflutningi er afli erlendra uppsjávarskipa sem þau landa í dönskum höfnum. Þannig er tæpur helmingur af innfluttu hráefni í tonnum talið bræðslufiskur, um 30% eru ferskt eða frosið hráefni til vinnslu og restin eru unnar afurðir sem fara til frekari vinnslu sem eykur verðmæti þeirra.

Helstu tegundir sem Danir flytja inn til vinnslu fyrir utan bræðslufisk eru síld, grálúða, þorskur, lax og rækja.

Fiskvinnslufyrirtækin eru flest staðsett á Norður-Jótlandi og framleiðsla þeirra er með ýmsu móti. Fyrst skal telja fiskimjölsiðnaðinn sem setur mark sitt á danskan sjávarútveg en  flakavinnsla er einnig umtalsverð. Þá er þar fjölbreytt framleiðsla á niðursoðnum eða niðurlögðum vörum. Ennfremur er þónokkur framleiðsla á reyktum fiski, og þar er eldislax frá Noregi mikilvægt hráefni.  

Mest flutt inn frá Noregi

Innflutningur Dana á fiski er frá mörgum löndum. Sundurliðun fyrir árið 2017 liggur ekki fyrir en árið 2016 var Noregur í efsta sæti með um 340 þúsund tonn en Svíar koma þar á eftir með 193 þúsund tonn. Eins og að líkum lætur er mikið flutt inn af fiski frá Grænlandi og Færeyjum; 137 þúsund tonn annars vegar og 97 þúsund tonn hins vegar. Frá Íslandi koma í kringum 50 þúsund tonn.

Hráefni frá Svíþjóð, Færeyjum og Íslandi er að langmestu leyti bræðslufiskur. Megnið frá Grænlandi er sjávarfang til vinnslu eða eða einhverskonar meðhöndlunar, svo sem grálúða og rækja. Líklegt er að stór hluti grálúðunnar sé fluttur inn til endursölu án mikillar vinnslu. Tæpur helmingur innflutnings frá Noregi er hráefni til manneldisvinnslu, þar af tæp 60 þúsund tonn af eldislaxi.

Skagen stærsta löndunarhöfnin

Stærsta löndunarhöfnin í Danmörku er Skagen sem liggur nyrst á Jótlandi. Þar lönduðu dönsk skip 393 þúsund tonnum árið 2017 að verðmæti 922 milljónir danskra króna (rúmir 15 milljarðar íslenskir). Auk þess landar þar fjöldi erlendra fiskiskipa afla sínum. Getur afli erlendra skipa verið helmingur eða meira af því sem kemur á land í Skagen. Hanstholm er í öðru sæti en þar lönduðu dönsk skip 246 þúsund tonnum að verðmæti 864 milljónir danskar (rúmir 14 milljarðar íslenskir).

Á þessum tveim stöðum er fiskimjölsiðnaðurinn í blóma. Á Skagen er einn af leiðandi fiskimjölsframleiðandi í heiminum, fyrirtækið FF Skagen sem rekur einnig dótturfyrirtæki í Hanstholm.

Þess má geta að framkvæmdastjóri FF Skagen er Íslendingurinn Jóhannes Pálsson.
FF Skagen samstæðan veltir árlega um 1,7 milljörðum danskra króna að jafnvirði um 28 milljörðum íslenskra króna. Verksmiðjur FF Skagen taka á móti um 500 þúsund tonnum af hráefni á ári, sem er gríðarlegt magn á íslenskan mælikvarða. Á árinu 2016 tóku allar fiskmjölsverksmiðjur á Íslandi á móti um 436 þúsund tonnum af hráefni til bræðslu en á árinu 2015 nam heildarmóttakan um 780 þúsund tonnum.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...