Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þessi mynd er frá árinu 2012 en á fullkomlega við enn þann dag í dag. Þarna krefst Ramona Duminicioiu þess á þessu skilti að lokið verði sett á landbúnaðarstefnu ESB (CAP). „Við erum 4.000.000 smábændur í Rúmeníu. Við viljum lifa.“
Þessi mynd er frá árinu 2012 en á fullkomlega við enn þann dag í dag. Þarna krefst Ramona Duminicioiu þess á þessu skilti að lokið verði sett á landbúnaðarstefnu ESB (CAP). „Við erum 4.000.000 smábændur í Rúmeníu. Við viljum lifa.“
Fréttaskýring 29. janúar 2021

Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Ásælni auðmanna í land, og þá einkum ræktarland um allan heim, jókst verulega í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og hefur haldið áfram samfara auknum auðsöfnuði á fárra hendur. Ein birtingarmynd þessara landhremminga, eða „Land Grabbing“, er að smábændur og fátækir landeigendur eru hraktir af jörðum sínum, heilu vistkerfunum umbylt og frumskógum eytt.

Í vaxtarhagkerfi nútímans, þar sem þeir ríku verða stöðugt rík­ari, þá fækkar stöðugt þeim stóru fjárfestingakostum sem eru nógu stórir fyrir þeirra auðæfi. Ræktarland, námuréttindi, vatns­réttindi og veiðiréttindi eru því komin ofarlega á innkaupalistann hjá þessu fólki og þar er allur heimurinn undir. Líkt og eftir efnahagshrunið 2008 er nú búist við aukinni ásælni í landareignir í kjölfar heimsfaraldurs af völdum COVID-19. Hið nýja lífhagkerfi (bioeconomy) sem búið var til undir yfirskini náttúruverndar hefur líka reynst vera vatn á myllu auðmanna til að réttlæta ásókn sína í ræktarland.

Landhremmingar í Evrópu, brot á mannréttindum

Hafa landhremmingar af þessum toga vakið ugg víða um lönd og hefur Evrópusambandið meira að segja vakið á þessu athygli og tekið til umræðu á þingi ESB. Þar var m.a. rætt um að óhófleg jarðakaup auðmanna og fyrirtækja í skjóli landbúnaðarstefnu ESB gætu mögulega verið brot á mannréttindum.

Smábændurnir Mykoly og Maria í þorpinu Rusanivtsi í Khmelnytsk-héraði í Úkraínu reyna að lifa hófsömu lífi af því sem jörðin gefur af sér. Þau eru með tvær kýr, geitur og hænsni. Slíkir smábændur hafa þurft að víkja fyrir stórfyrirtækjum í landbúnaði. Mynd / arc2000/N.Mamonova

Á árinu 2015 var t.d. greint frá því að vegna ásælni auðmanna og stórfyrirtækja í jarðir í skjóli stefnu CAP, landbúnaðarstefnu ESB, hyrfu þrjár jarðir smábænda úr höndum bænda í Rúmeníu á hverjum klukkutíma. Þá voru um 99% jarða í landinu í höndum lítilla fjölskyldubúa sem réðu yfir minna en einum hektara lands. Um 76 þúsund slíkar smájarðir voru keyptar upp í Rúmeníu á árunum frá 2010 til 2013.

Í Úkraínu hafa fjárfestar víða að úr heiminum, en ekki síst frá Bandaríkjunum og ríkjum ESB, reynt að komast yfir verðmætt ræktarland allt frá falli Sovétríkjanna. Um þessa ásælni hafa átökin í Úkraínu í raun að verulegum hluta snúist á undanförnum árum. Á evrópsku vefsíðunni arc2000, sem tileinkuð er hagsmunum smábænda, var í janúar 2019 grein um áhyggjur manna yfir að smábændur væru að þurrkast út vegna ásóknar verksmiðjubúskapar. Frá árinu 2000 hefur verksmiðjubúskapur farið ört vaxandi í landinu sem oft hefur verið kallað brauðkarfa Evrópu. Leiddi það vissulega af sér minnkandi fátækt í dreifbýlinu, en um leið að eignarhaldið á jörðum hvarf úr höndum smábænda og oft til útlendinga. Var þetta fegrað með hugtölum eins og „stýrðum landhremmingum“ (Controlled landgrabbing). Í greininni er sagt að um 80% af ræktarlandi í Úkraínu og í Rússlandi væri komið í hendur á eignarhaldsfélögum í landbúnaði. Þessi félög reyndu að kreista eins mikið út úr landinu og mögulegt væri með óhóflegri áburðargjöf sem geti haft alvarlegar afleiðingar til lengri tíma.

Landhremmingar upp á rúmlega 60 milljónir hektara á 13 árum

Á árunum 2000 til 2013 voru gerðir 1.127 stórir samningar um jarðakaup víða um heim sem flokkast undir landhremmingar eða „Land Grabbing“, samkvæmt upplýsingum Research Gate. Efnahagshrunið haustið 2008 vakti aukna ásælni fjárfesta í ræktarlandi og öðrum raunverulegum fasteignum þegar þeir sáu fjárfestingar sínar í fjármálafyrirtækjum gufa upp. Hafa bandarískir sem og evrópsk einkafyrirtæki ásamt kínverskum ríkisfyrirtækjum verið áberandi á þessu sviði.

Tóku þessar fjárfestingar mikinn kipp á árinu 2009 og náðu hámarki 2010. Fóru þær síðan lækkandi til 2012 er þær fóru að aukast á ný. Má því allt eins búast við að afleiðing heimsfaraldurs COVID-19 verði mikill skellur á fyrirtækjamarkaði og stóraukin ásælni eftir landi víða um heim.

Á bak við þessa stóru samninga frá 2000 til 2013 voru rúmlega 60 milljónir hektara. Þar af voru 545 samningar um stór jarðakaup í Afríku upp á 33.887.558 hektara. Þá voru 400 samningar í Asíu á 16.933.517 hekturum. Í Mið-Ameríku voru 109 samningar um 4.279.466 hektara lands. Í Ástralíu voru 50 samningar um 3.964.138 hektara lands og í Austur-Evrópu voru 23 samningar um 994.569 hektara lands sem flokkuðust undir landhremmingar.

Sama þróun á Íslandi

Ísland er engin undantekning í þessum efnum og eru miklar efasemdir uppi um að breytingar á íslenskum lögum sem gerðar voru á síðasta ári dugi til að stemma stigu við þessari þróun hér á landi. Ráðherra eru þar veittar víðtækar heimildir til að víkja frá skilyrðum laganna. Þar segir m.a. að ef væntanlegur kaupandi er hvorki íslenskur ríkisborgari né erlendur ríkisborgari með lögheimili á Íslandi eða á rétt á samningum sem tilgreindir eru, er unnt að sækja um leyfi ráðherra til þess að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign hér á landi. Ráðherra er þá heimilt að veita leyfi til að víkja frá skilyrðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna í tveimur tilvikum er varða atvinnustarfsemi og vegna sterkra tengsla við Ísland, m.a. vegna hjúskapar.

Lögin lítill hemill á jarðakaup útlendinga

Engar strangar takmarkanir eru í raun á hversu mikið land útlend­ingar geta eignast á Íslandi. Þó ákvæði séu um að skylt sé að afla samþykkis ráðherra er ekkert sem bannar honum að veita undanþágur fyrir eignarhaldi útlendinga á meiru en 1.500 hekturum. Þó skal samþykki „að jafnaði ekki veitt ef viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð, nema umsækjandi sýni fram á að hann hafi sérstaka þörf fyrir meira landrými vegna fyrirhugaðra nota fasteignar“.

Heimildir um kaup útlendinga á jörðum á Íslandi eru því eins opin og hugsast geta. Engin skyldu­ákvæði eru t.d. um að þeir þurfi að hafa verið búsettir á Íslandi um tiltekinn tíma, né að þeim sé skylt að hafa fasta búsetu á jörð sem þeir kaupa. Enda virðast lögin ekki hafa verið til vandræða við kaup Power Minerals Iceland, á Hjörleifshöfða ásamt 11.500 hektara jörð síðla árs 2020 fyrir 489 milljónir króna. Það samsvarar 115 ferkílómetrum. Til samanburðar er allt land Reykjavíkurborgar um 273 km2. Þetta félag er skráð hérlendis, en er í 100 prósent eigu þýska fyrirtækisins STEAG Beteilungsgesellschaft.

Ekki voru lög heldur mikið að þvælast fyrir erlendum fjárfestum sem hafa keypt grimmt jarðir í Mýrdalshreppi á liðnum árum. Þar má t.d. nefna Svisslendinginn Rudolf Walter Lamprecht sem á jarðir hús og veiðiréttindi í Mýrdalshreppi. Er eignarhald útlendinga þar um slóðir væntanlega komið vel á annan tug þúsunda hektara. Lamprecht komst í fréttir 2013, en þá hafði hann keypt 6 jarðir og eina að hluta til viðbótar og hafði þá eignast Heiðardalinn eins og hann lagði sig. Hann sagðist þá skilja áhyggjur Íslendinga yfir jarðakaupum útlendinga, en sagðist þó ekki hafa trú á að þeir myndu eignast 30 til 40% af landinu.

Hinn 68 ára gamla breski milljarðamæringur, sir Jim Ratcliffe, fimmti ríkasti maður Bretlands, hefur verið drjúgur við kaup á íslenskum jörðum. Breska blaðið Daily Mail segir að hann hafi varið um 36,2 milljónum punda í kaup á 39 jörðum Íslandi síðan 2016, eða sem svarar um 6,4 milljörðum króna á núvirði.

Kaup erlendra fjárfesta á síðum stórblaða úti í heimi

Hefur ásælni erlendra auðmanna í jarðir á Íslandi vakið athygli fjölmiðla á borð við breska blaðið Daily Mail og afleiðu þess, Mail on Sunday. Þar birtist t.d. grein þann 17. janúar síðastliðinn um landakaup hins 68 ára gamla breska milljarðamæringsins sir Jim Ratcliffe á Íslandi. Hann er fimmti ríkasti maður Bretlands og eru eigur hans metnar á 12,2 milljarða punda, en hann á m.a. olíuefnafyrirtækið Ineos. Er hann sagður hafa varið 36,2 milljónum punda í kaup á 39 jörðum á Íslandi síðan 2016 (um 6,4 milljarðar króna á núvirði), m.a. til að tryggja sér veiðirétt í íslenskum laxveiðiám. Einnig segir í fréttinni að vaxandi áhyggjur séu yfir umsvifum Ratcliffe á Íslandi sem kunni að leiða til þess að honum verði bannað að kaupa meira land.

Auk kaupa á Hofsá, þar sem Charles Bretaprins stundaði lax­veiðar í um árabil, keypti Ratcliffe m.a. Selá, þar sem George H. W. Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti, veiddi í og lýsti sem ótrúlega fallegri á.

Ratcliffe á einnig veiðirétt í fjórum öðrum helstu veiðiám á Norðausturlandi, þ.e. Hafralónsá, Svalbarðsá, Miðfjarðará og Vesturdalsá.
Vitnað er í Jóhannes Sigfússon, bónda á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, sem býr á 7.400 ekra landi sem liggur að Hafralónsá. Segist hann ekki þekkja Ratcliffe, en það geti ekki verið gott þegar einn maður eignast svo mikið land. Jóhannes vakti einmitt athygli á þessum málum á eftirminnilegan hátt á forsíðu Bændablaðsins 21. júní 2018. Þar sagði hann að við yrðum að koma böndum á þetta því við værum að missa landið úr höndum okkar.

Í fréttinni í Mail on Sunday er verkefni Ratcliffes, sem kallað er „Six Rivers Conservation Project“, sagt ætlað að tryggja stöðugleika og sjálfbærni Norður-Atlantshafslaxins í ám á svæðinu. Er þar vitnað í orð Gísla Ásgeirssonar, formanns veiðifélagsins Strengs, sem segir að það sé helsta ástæðan fyrir kaupum Ratcliffe á íslenskum jörðum.

Hundruð jarða líklega komnar í eigu útlendinga að öllu leyti eða að hluta

Erfitt er að festa hendur á hversu mikil jarðakaup útlendinga eru orðin á Íslandi. Oft eru slík jarðakaup gerð í gegnum íslenska aðila eða með sameiginlegu eignarhaldi. Í Viðskiptablaðinu þann 24. júlí 2018 var reynt að kasta á þetta tölu. Þar kom fram að samkvæmt fasteignaskrá væru 7.670 skráðar jarðir á Íslandi. Þar af eru 384 jarðir að hluta eða öllu leyti í eigu fólks með lögheimili erlendis, tæplega 2.400 jarðir eru í eigu félaga eða fyrirtækja, nánast þriðjungur allra jarða. Eitthvað af þeim var þá sagt vera í eigu útlendinga, en ekki lá þá fyrir hversu margar.

Samkvæmt lögbýlaskrá sem gefin var út í janúar 2020 eru skráð lögbýli sögð vera 6.700 og hefur lögbýlum því fækkað um 970 jarðir sem hafa verið teknar út úr lögbýlaskráningu af óskilgreindum ástæðum.

Hjónin Bill Gates og eiginkona hans, Melinda Gates, eru nú sögð stærstu jarðaeigendur Bandaríkjunum. Mynd / The Land Report

Stofnandi Microsoft kallaður „Jarðakóngur Ameríku“

Fréttir af landhremmingum auð­manna eru líka umfjöllunarefni um allan heim. Bandaríski fjölmiðillinn New York Post fjallaði um miðjan janúar um söfnun Bill Gates á bújörðum og segir að hann geti nú óhikað kallað sig „Jarðakóng Ameríku“. Er fréttin unnin upp úr efni af vefsíðu The Land Report, en þar segir í grein þann 11. janúar síðastliðinn að Bill Gates og eiginkona hans, Melinda Gates, séu nú stærstu jarðaeigendur í Bandaríkjunum með um 242.000 ekrur af ræktarlandi sem samsvara 97.934 hekturum, eða rúmlega 979 ferkílómetrum (km2). Einnig eiga þau 47.927 ekrur af öðru landi, eða 19.395 hektara sem samsvara tæpum 194 km2. Samanlagt eru hjónin Bill og Melinda Gates því sögð eiga 117.329 hektara eða rúma 1.173 km2.

Bandaríkjamenn áttum 8,4 milljón hektara í öðrum löndum árið 2016

Líklega er vafasamt að kalla Bill Gates jarðakóng Ameríku því enginn veit í raun með vissu hvað auðkýfingar hafa verið að sölsa undir sig af jörðum á liðnum árum í Bandaríkjunum. Líkt og hér á landi eru slík kaup oft gerði í nafni fyrirtækja. Þá eiga bandarískir þegnar gríðarlega mikið jarðnæði í öðrum löndum, eða sem nemur ríflega 8,4 milljónum hektara, eða um 84.168 km2 sem nemur um 82% af flatarmáli Íslands.

Samkvæmt vefsíðu Statista áttu Bandaríkjamenn á árinu 2016 t.d. rúmlega 2,2 milljónir hektara í Lýðveldinu Kongó, rúmlega 2 milljónir hektara í Papúa Nýju Gíneu, um 1,4 milljónir hektara í Suður-Súdan, 559 þúsund hektara í Mósambik og tæplega 462 þúsund hektara í Úkraínu. Þá áttu þeir 1.604.797 hektara í minnst 26 löndum til viðbótar, eða samtals 8.416.784 hektara og eru jarðir í eigu Bandaríkjamanna á Íslandi þá ekki meðtaldar.

Evrópskir auðjöfrar hafa líka verið iðnir við kolann við jarðakaup bæði innan og utan Evrópu. Þar má t.d. nefna jarðakaup í Úkraínu og í ríkjum Afríku.

Kínverjar eru engir aukvisar

Haldi menn að Bandaríkjamenn séu stórtækir, þá má spyrja hvað menn kalli jarðakaup Kínverja úti um allan heim og þá sérstaklega í Afríku. Um þetta var m.a. fjallað í blaðinu The Japan Times í apríl á síðasta ári. Eru jarðakaup þeirra í Afríku sögð „miklu meira en landhremmingar (landgrabbing)“. Þar segir m.a. að Kínverjar hafi komið inn í lönd sunnan Sahara með ýmiss konar aðstoð og lánveitingar um tugi milljarða dollara gegn því að fá í staðinn aðgengi að námum, olíu, vatnsorku og ræktarlandi.

Kínverjar hafa líka verið iðnir við að tryggja sér land í Suður-Ameríku. Þar hafa þeir lengi stefnt að því að ná yfirráðum yfir ræktarlandi líkt og í Afríku til að tryggja sitt eigið fæðuöryggi. Eru þeir þannig orðnir langstærstu framleiðendur heimsins á ýmsum fæðutegundum.

Evrópsk fyrirtæki eru líka stórtæk í Asíu

Útlendingar hafa þó líka ásælst jarðnæði innan landamæra Kína. Þar má t.d. nefna iðnaðarræktun á trjám (Industrial tree plantations - ITP) í Guangxi-héraði þar sem finnska fyrirtækið Stora Enso og APP í Indónesíu hafa verið mjög stórtæk. Lögðu þessi fyrirtæki undir sig gríðarstórt landsvæði undir trjárækt sem hafði víðtæk áhrif á íbúa og vakti mikla óánægju heimamanna, enda komið með yfir 20 verksmiðjur og 300.000 hektara undir skóglendi í Kína. Var finnska fyrirtækið komið með stjórn á 99,94% af öllu skóglendi á svæðinu sem samt var að 62% hluta í eigu kínverska ríkisins. Finnska pappírsframleiðslu­fyrir­tækið leigði stærstan hluta landsins til 50 ára og náði þar afar hagstæðum samn­ingum á sínum tíma. Hafa þeir samningar m.a. vakið mikla gremju heimamanna.

Stora Enso var þegar árið 2017 komið með sögunarmyllur og pappírsverksmiðjur víða um heim, ýmist í eigin eigu eða í samstarfi við aðra. Þar má nefna lönd eins og Brasilíu, Úrúgvæ, Bandaríkin, ýmis Evrópulönd. Rússland, Kína og Pakistan. Þá átti Stora Enso 4 milljónir hektara skóglendi í Svíþjóð, Finnlandi, Úrúgvæ Brasilíu. Eistlandi, Rúmeníu, Lettlandi, Rússlandi, Kína og í Laos. Það var líka með níu verksmiðjur og 2,6 milljónir hektara undir trjáplantekrur í Indónesíu.

Reykspúandi sykurreyrverksmiðja Costa Pinto baggar sykurreyr sem fer til etanólframleiðslu sem notað er í „umhverfisvænt" lífeldsneyti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verksmiðjan er í Piracicaba, São Paulo-ríki í Brasilíu og framleiðir einnig allt rafmagn sem notað er í verksmiðjunni með brennslu á sykurreyr. Mynd / Wikipedia

Ný tegund landhremminga vegna loftslagsumræðunnar

Á vefsíðu MDPI í Basel í Sviss má sjá umfjöllun í skýrslu sem gefin var út í apríl 2020. Þar er lýst nýrri tegund land­hremminga eða ásælni í ræktarland í Brasilíu og víðar sem sprettur upp úr loftslags­umræðunni og er hluti af hinu nýja „lífhagkerfi“, eða „bioeconomy“. Þarna eru undir­liggjandi miklir peninga­hagsmunir.

Hagsmunirnir felast í því að ná undir sig landi til að framleiða olíu úr korni sem notuð er í lífeldsneyti (biofuel). Þessi olía selst á mjög háu verði til íblöndunar í jarðefnaeldsneyti. Í Brasilíu snýst þetta þó einkum um að leggja land undir ræktun á sykurreyr til að framleiða etanól í eldsneyti. Lífeldsneytið hefur síðan verið kynnt sem vistvænt eldsneyti í loftslagsmálum.

Vísindamennirnir sem stóðu að þessari skýrslu og koma einkum úr hagfræðideildum háskóla í Tékklandi, Brasilíu og Ítalíu, telja að í tilfelli Brasilíu sé þessi nýting á landi í raun andstæð yfirlýstum markmiðum. Hún geti ekki talist sjálfbær gagnvart umhverfinu.

Skýrsluhöfundar benda á að ræktun sykurreyrs og olíuríkra korntegunda sé keyrð áfram í skjóli pólitískra ákvarðana, ekki síst innan Evrópusambandsins, sem hluti af lífhagkerfinu. Það er bein afleiðing umræðunnar um umhverfismál til að réttlæta áform um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslunni kemur fram að einhæf ræktun á sykurreyr til lífeldsneytisframleiðslu í Brasilíu hafi margvísleg neikvæð áhrif á náttúruna. Það leiði m.a. til stóraukinnar notkunar eiturefna til að hemja illgresi og drepa skordýr. Þá hafi stóraukin ræktun á sykurreyr í Brasilíu leitt til landhremminga með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á náttúru og samfélag íbúa í landinu.

Líka í Afríku

Loftslagsumræðan hefur líka leitt til mikillar uppstokkunar í ræktun í Afríku. Þar hafa milljónir hektara verið lagðir undir ræktun á olíuríkum jurtum til framleiðslu á lífeldsneyti. Þetta er í löndum sem hafa m.a. átt í vandræðum með að tryggja íbúum sínum fæðu. Það eru lönd eins og Gana, Benin, Eþíópía, Úganda, Tanzanía, Zambía og Suður-Afríka.

Skylt efni: landhremmingar

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...