Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Japanskur þorskur.
Japanskur þorskur.
Fréttaskýring 19. ágúst 2021

,,Fiskveiðistjórn í Japan verður að breytast“

Höfundur: Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson. 

Japan er 3. stærsta hagkerfi heims, næst á eftir Bandaríkjunum og Kína. Í Japan búa 127 milljónir manna. Meðallaun á mann í Japan voru 4,7 milljónir króna árið 2020 en á Íslandi eru meðallaun á mann um 8,3 milljónir króna skv. tölum frá OECD, eða um 75% hærri en í Japan.

Eins og allir vita eru Japanir kröfuhörð og mikil fiskneysluþjóð. Áætlað er að hver Japani borði um 46 kg af fiski árlega sem er með því mesta í heiminum. Okkur lék forvitni á að vita hvernig Japanir, þessi mikla og kröfuharða fiskneysluþjóð, stjórnaði fiskveiðum sínum.

Ayumu Katano, höfundur 4 bóka um japanskan sjávarútveg.

Ayumu Katano hefur skrifað fjórar bækur um nauðsyn þess að breyta fiskveiðistjórnun í Japan. Hann hefur komið milli 20–30 sinnum til Íslands, fyrst árið 1991, auk margra ferða til Noregs. Hann þekkir því vel til samanburðar milli fiskveiðistjórnarkerfa og féllst á að segja okkur frá fiskveiðum og fiskveiðistjórn í Japan. ,,Ég hef séð miklar breytingar á íslenskum sjávarútvegi síðan 1991, en þá kom ég fyrst til Vestmannaeyja. Þá voru fiskvinnslurnar mjög gamlar og úr sér gengnar, skipin mörg og mun lakari en þau eru í dag, sérstaklega hvað varðar meðferð og kælingu afla. Það er gaman að sjá allar þær framfarir sem orðið hafa á Íslandi á þessum tíma.

Á Íslandi eru laun sjómanna há og sjávarútvegsfyrirtækin að fjárfesta í skipum og fiskvinnslu. Þetta er gjörólíkt því sem við sjáum í japönskum sjávarútvegi,“ sagði Katano.

Fiskveiðistjórnun í Japan

Fiskveiðistjórnun í Japan hefur verið svipuð undanfarin 70 ár en þeim er aðallega stjórnað með lögum og reglum sem takmarka sókn s.s. lengd skipa, vélarafli, veiðarfærum og veiðitímabilum um hver má fara hvenær. Líklega er sóknarstýring besta lýsingarorðið um fiskveiðistjórnina. ,,Ríkið gefur út kvóta í mikilvægustu tegundunum en þeir eru í litlu samræmi við vísindalega ráðgjöf. Til dæmis hefur útgefinn kvóti í makríl ekki náðst undanfarin 10 ár svo að veiðin er í raun frjáls. Sjómönnum hefur einungis tekist að veiða um 60% af útgefnum makrílkvóta á þessu tímabili. Það leiðir til þess að sjómenn reyna að veiða fisk af hvaða stærð og gæðum sem er og hvenær sem er. 40% aflans er þar af leiðandi ekki nýttur til manneldis, heldur sem beita eða fer beint í bræðslu vegna lakra gæða. Það sama á við þorsk sem veiddur er við Japan. Ofveiði er mikil og skipin landa fiski niður í 100–200 grömm sem er auðvitað langt frá því að vera eðlilegt,“ segir Katano.

Brúin í japönsku túnfiskveiðiskipi. Enginn stóll fyrir skipstjórann.

Japanskur makríll er nánast eins og makríll í N-Atlantshafi

,,Japanskur makríll er nánast eins og makríll sem veiddur er í NA-Atlantshafi. Eini raunverulegi munurinn er að makríll í Atlantshafi er ca 5% feitari, þegar hann er feitastur, á haustin. Að öðru leyti er fiskurinn eins. Magur eftir hrygningu á vorin, fitnar svo í ætisleit á sumrin og er í besta ástandinu á haustin og fram að áramótum. Ef japanskur makríll væri veiddur með sama eða sambærilegum hætti og í Noregi, þá værum við með afskaplega góða vöru fyrir japanska neytendur sem og aðra, öllum til hagsbóta.“

Fiskimenn í Japan eru fátækir og gamlir

,,Staða japansks sjávarútvegs er slæm. Fiskistofnar eru ofveiddir og því dýrt að veiða fiskinn. Vegna slæms skipulags er meðalverð á japönskum makríl mjög lágt. Útflutningsverð á japönskum makríl er að meðaltali 110 YEN/kg á sama tíma og við flytjum inn makríl frá Noregi á 220 YEN/kg. Kaupendur japansks makríls
er fátækt fólk í Afríku og Asíu sem er að leita að ódýru próteini en ekki að gæðavöru sem makríllinn gæti verið.

Af þessu öllu leiðir að laun japanskra sjómanna eru afskaplega lág. Meðallaun japanskra sjómanna eru um 2 milljónir jena á ári (2,2 milljónir íslenskra króna) sem er helmingi lægri en meðallaun í Japan. Meðalaldur japanskra sjómanna er um 60 ár og endurnýjun lítil, sem er auðvitað eðlileg afleiðing af lágum launum.“
Fjárfestingar litlar í skipum og fiskvinnslu

,,Japanski fiskiskipaflotinn er mjög gamall og úr sér genginn. Skipin eru of mörg og þótt kvótinn sé nægur þá fiskast lítið. Aðbúnaður áhafna er slæmur. Sem dæmi þá er í fæstum skipum stóll fyrir skipstjórann að sitja í við stjórn skipsins. Rúm í káetum eru of stutt þar sem skipin eru gömul og japanska þjóðin er að hækka. Við erum ekki með kvóta á skip eins og á Íslandi. Af þeim ástæðum fara allir á sjó þegar veður leyfir og fiskjar er von. Afleiðingin er sú að stundum er allt of mikill afli og stundum enginn. Það er engin stjórn og ekkert skipulag
við veiðarnar.

Bækur Katano.

Sjómenn eru ekki að reyna að hámarka verðmætin heldur fiska sem mest. Af þessu leiðir að það eru mjög miklar sveiflur á fiskmörkuðum, bæði í magni og verði. Þetta gerir það að verkum að mjög erfitt er að reka fiskvinnslur í Japan. Kostnaður er mikill og mikið af fiski sem gæti verið góð afurð verður verðlítil vegna lakra gæða. Það eru því ekki til peningar, hvorki til að fjárfesta í skipum né fiskvinnslum. Það tapa allir á þessu fyrirkomulagi,“ segir Katano.

Hörpudiskveiðar ganga vel

En það er ekki allt vonlaust í japönskum fiskveiðum. ,,Hörpudiskveiðar í Japan er alger undantekning frá reglunni,“ segir Katano. ,,Þar er fyrirkomulag veiðanna með allt öðrum hætti. Þar hafa fiskimennirnir skipt veiðisvæðum hörpudisks upp á milli sín. Þeir gæta fiskimiðanna og vernda búsvæði hörpudisksins og aðstoða m.a. við hrygningu, því þannig eiga þeir von á betri nýliðun. Þeir ákveða sjálfir hvernig og hvenær þeir uppskera. Í sumum tilvikum eru þeir farnir að rækta hörpudiskinn frá upphafi til enda. Skipulag veiðanna er meira í ætt við landbúnað heldur en fiskveiðar. Þessar fiskveiðar, ef fiskveiðar má kalla, ganga afar vel. Skipulag veiðanna er gott, vinnslurnar fá hæfilegt magn til vinnslu á hverjum degi, ferskleiki er tryggður og markaðssetning japansks hörpudisks hefur gengið vel. Útflutningstekjur Japana af hörpudisk hafa aukist gríðarlega samhliða auknum veiðum. Hér er allt annað upp á teningnum en í öðrum fiskveiðum í Japan. Hér eru laun sjómanna há, fyrirtækin hagnast og hafa getu til að fjárfesta í tækni, rannsóknum og þróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Nú er svo komið að japanskur hörpudiskur er ein eftirsóttasta vara á japönskum veitingahúsum í Bandaríkjunum og víðar um heim,“ sagði Katano.

Breytinga þörf í Japan

,,Japönsk stjórnvöld verða að gera miklar breytingar á stjórn fiskveiða og gera þær sjálfbærar. Ég hef talað fyrir því í bókum mínum að gera breytingar að íslenskri fyrirmynd með því að gefa út kvóta á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og að kvótar verði gefnir út á skip. Það er að mínu áliti besta leiðin til að endurreisa japanskan sjávarútveg,“ sagði Katano að lokum.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson. 

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...