Liður í heildstæðri endurskoðun löggjafar um jarðir og fasteignir
Hinn 18. maí síðastliðinn voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á jarðalögum nr. 81/2004 og taka þau gildi 1. júlí næstkomandi. Breytingarnar eru liður í heildstæðri endurskoðun löggjafar um jarðir og aðrar fasteignir í íslenskum rétti og voru undirbúin á vettvangi sérstaks stýrihóps um heildstæða löggjöf varðandi jarðir og aðrar fasteignir.
Guðrún Vaka Steingrímsdóttier, lögfræðingur Bændasamtaka Íslands.
Í störfum sínum beindi stýrihópurinn sjónum sínum sérstaklega að ákvarðanatöku um jarðir í dreifðri eigu og hvort auka megi vægi landbúnaðar í aðalskipulagsáætlunum. Ekki var lagt til að hreyfa við ákvæðum jarðalaga um fyrirsvar jarða í sameign að sinni en drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um eignarráð og nýtingu fasteigna voru birt í Samráðsgátt í lok mars síðastliðinn. Þar eru m.a. lögð til ítarlegri ákvæði um sameign á landi í óskiptri sérstakri sameign, þ.á m. um fyrirsvar og ákvörðunartöku. Frumvarpið var ekki lagt fram á Alþingi fyrir þinglok.
Breytingarnar sem taka gildi 1. júlí snúa helst að einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands og upplýsingaskyldu er snýr að eignarhaldi lögaðila undir erlendum yfirráðum. Þeim er ætlað að einfalda regluverk og stjórnsýslu jarðamála til samræmis við áherslur í sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kom fram að átak yrði gert í einföldun regluverks.
Aukið sjálfstæði sveitarfélaga við ákvarðanatöku um breytta landnotkun
Felld verður brott skylda ráðherra landbúnaðarmála til að samþykkja breytta landnotkun á landbúnaðarsvæðum og á sama tíma er leitast við að styrkja sveitarfélög við að takast á við slíkar breytingar þannig að möguleikar þeirra á að gæta að hagsmunum landbúnaðar við skipulagsgerð aukast. Við skipulagsgerð samkvæmt skipulagslögum þar sem ráðgerðar eru breytingar sem fela í sér lausn lands úr landbúnaðarnotum, verði þeim m.a. skylt að líta til þess hvort aðrir valkostir staðsetningar komi til greina fyrir fyrirhugaða nýtingu sem hentar síður til landbúnaðarnota og þá sérstaklega jarðræktar. Í þeim efnum getur haft þýðingu hvernig áformuð nýting samræmist skilgreiningu lands samkvæmt flokkun landbúnaðarlands en leiðbeiningar um slíka notkun voru síðast gefnar út í mars síðastliðinn af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Einnig beri sveitarfélögum að líta til áhrifa breyttrar landnotkunar á aðlæg landbúnaðarsvæði og hvort áformin girði fyrir möguleg búrekstrarafnot síðar meir. Landbúnaðarlegra sjónarmiða skuli þar með gætt á tilhlýðilegan hátt en gangi þó ekki endilega framar öðrum við heildstætt mat. Með lögunum er einnig lögfest skylda sveitarfélaga til að flokka land með tilliti til ræktunarmöguleika.
Þá er enn fremur felld brott skylda ráðherra til að staðfesta skipti á landi sem fellur undir gildissvið jarðalaga. Þess í stað er mælt fyrir um skyldu til að gæta hagsmuna landbúnaðar betur við skipti á landi. Það felur í sér að við beiðni um skiptingu eða sameiningu lands á landbúnaðarsvæðum er sveitarstjórn heimilt að krefjast þess að umsækjandi geri grein fyrir áhrifum skiptingar á búrekstrarskilyrði. Landskipti geta enda varðað miklu um búrekstrarskilyrði, framtíð búsetu og búsetulandslag og miðar breytingin að því að sveitarfélög horfi til þess hvort skipting geti haft neikvæð áhrif á framleiðslugetu jarðar eða landbúnað í sveitarfélaginu í heild sem gangi gegn markmiðum skipulagsáætlunar. Ýmis sveitarfélög hafa þegar sett sér reglur um viðmið þess hvenær fallist verður á skiptingu lands og er breytingunum ætlað að styrkja þá framkvæmd.
Forkaupsréttur ábúenda styrktur
Samkvæmt núgildandi jarðalögum nr. 81/2004 hafa ábúendur forkaupsrétt að ábýlisjörðum sínum sem hafa haft ábúðarrétt í sjö ár eða lengri tíma. Með breytingum á lögunum er forkaupsréttur ábúenda styrktur þannig að hann verður virkur við sölu eða aðra ráðstöfun eða yfirfærslu á beinum eignarrétti, að hluta eða heild, yfir jörð sem háð er forkaupsrétti. Forkaupsréttur verði einnig virkur við eigandaskipti að a.m.k. 1/3 eignarhlutdeild í lögaðila sem á jörð sem háð er forkaupsrétti. Sama gildir þá ef breyting verður á yfirráðum yfir lögaðila á annan hátt. Við meðferð málsins kom til álita hvort fella skyldi forkaupsrétt ábúenda að ábýlisjörðum sínum úr gildi en þess í stað var ákveðið að lagfæra fyrirmæli um skilyrði þess að forkaupsrétti verði beitt þannig að tryggja mætti að hans verði gætt þegar eigendaskipti verða að lögaðilum sem eiga jarðir enda er slíkt nú algengara en áður.