Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Pappírsiðnaðurinn nýtir gríðarmikið af trjám en á vegum hans er líka plantað meira af trjám en höggvin eru vegna vinnslunnar.
Pappírsiðnaðurinn nýtir gríðarmikið af trjám en á vegum hans er líka plantað meira af trjám en höggvin eru vegna vinnslunnar.
Fréttaskýring 11. mars 2019

Mikil vakning í trjárækt í heiminum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Þrátt fyrir að verulega hafi verið gengið á regnskóga heimsins á undanförnum 35 árum árum, þá hafa skógar í heild á jörðinni stækkað, svo undarlega sem það kann að virðast. Tré þekja nú um 2,24 milljónum ferkílómetra stærra svæði en þau gerðu fyrir einni öld, samkvæmt rannsókn sem birt var í tímaritinu Nature á síðasta ári. 
 
Rannsóknin sem leidd var af Xia-Peng og Mathew Hansen í Maryland háskólanum í Bandaríkjunum er m.a. byggð á mælingum með gervihnöttum á árunum frá 1982 til 2016. Var þá jörðinni svæðisskipt þar sem tré eru 5 metrar eða hærri, gróður undir 5 metra hæð, graslendi, landbúnaðarland, berangur, sandar, túndra og klettar.  
 
Richard Fuchs hjá Wageningen-háskóla í Hollandi stýrði rannsóknarverkefni sem ætlað var að sýna hnignun og vöxt skóglendis í Evrópu frá árinu 1900. Samkvæmt rannsókninni eru skógar Evrópu grænni nú en fyrir 100 árum.
 
 
Endurheimt skóglendis hefur verið með einsleitari ræktun
 
Í rannsókninni kemur fram að skógrækt yfirgnæfir þá skógareyðingu sem átt hefur sér stað í regnskógunum. Gallinn á þessu er samt sá að með skipulagðri skógrækt manna verða skógarsvæðin einsleitari. Skógarkrónan ekki eins þétt og skógarnir ekki eins fjölskrúðugir af plöntum og dýralífi og villtu frumskógarnir sem verið er að eyða. 
 
Viðsnúningur í hugsun eftir seinni heimsstyrjöld
 
Mikil skógareyðing átti sér stað í Evrópu fram yfir seinni heimsstyrjöldina, en þá hófst viðsnúningur sem enn stendur. Á Íslandi náðu þessar hugmyndir ekki að skjóta rótum að neinu ráði fyrr en um eða eftir 1970 og eiginlega ekki að neinu marki fyrr en síðustu 30 árin.  
 
Richard Fuchs hjá Wageningen-háskóla í Hollandi stýrði rannsóknarverkefni sem ætlað var að sýna hnignun og vöxt skóglendis í Evrópu frá árinu 1900. Samkvæmt rannsókninni eru skógar Evrópu grænni nú en fyrir 100 árum.
 
Um aldamótin 1900 var harla lítið eftir af upprunalegum skógum í Evrópu. Gríðarlega hafði þá verið gengið á skógana vegna notkunar á timbri í byggingar, skip og eldivið, m.a. til húshitunar og fyrir málmiðnaðinn. Aðeins mun nú vera að finna um 140.000 hektara af gömlum upprunalegum frumskógum í Evrópu.  
 
Eftir stríð hafa orðið miklar breytingar víða um álfuna með stóraukinni skógrækt. Þess má sjá mjög glöggt merki í Frakklandi, á Spáni, í Portúgal og á Ítalíu. Í Bretlandi og þá ekki síst í Skotlandi og á Írlandi hefur umfang skóga margfaldast, þótt graslendi sé enn langstærsti hluti gróðurþekjunnar. 
 
Eftirstríðsvakning í skógrækt
 
Eftir aldamótin 1900 og sérstaklega eftir seinni heimsstyrjöldina hófu Evrópuríkin umfangsmikla endurrækt skóga sem stendur enn. Þótt timbur hafi áfram verið nýtt af miklum krafti, m.a. til pappírsgerðar, þá hafa iðnfyrirtækin séð það í hendi sér að gjöreyðing skóga þýddi um leið dauða fyrirtækjanna sem lifðu á timbri sem hráefni. Í pappírsiðnaðinum var því fljótlega farið að stunda þá iðju að í stað hvers trés sem fellt var var plantað tveim í staðinn til að tryggja sjálfbærni greinarinnar. 
 
Mest er nýtt af barrtrjám, þ.e. furu og greni, og tiltölulega mjúkum trjávið í pappírsgerð. Þykir hann henta best vegna langra trefja. Kanadamenn hafa verið stórtækir á þessu sviði sem og Svíar, Norðmenn, Finnar og Bandaríkjamenn. Einnig er talsvert nýtt af bómull í fínni pappírsgerð. Þá hefur færst mjög í aukana að endurvinna pappír. Mest er um endurvinnslu á pappír sem fellur til í prentsmiðjum, enda er hann hreinni og betur flokkaður en almennt gerist við flokkun frá heimahúsum. Þannig borgar sig ekki að endurvinna hvaða pappír sem er og endar illa flokkaður pappír oftar en ekki í brennslustöðvum sem umbreyta honum í hitaorku og raforku. 
 
Aukin tækni í landbúnaði leiddi til endurheimtar skóga
 
Vegna aukinnar tækni í landbúnaði þurfti líka minna ræktarland en áður til að ná sömu eða meiri uppskeru. Var þá líka farið í að rækta upp skóga á landinu sem ekki var nýtt. 
 
Nú er um 35% lands í ríkjum Evrópusambandsins þakin skógi. Þar er að langmestu leyti um að ræða skóga sem ræktaðir hafa verið upp af mannavöldum í stað skóga sem höggnir hafa verið á síðustu árhundruðum. 
 
Dýralíf sem þreifst í gömlu skógunum hnignaði mjög og sumar tegundir dóu út, en með aukinni skógrækt hefur dýralíf að einhverju leyti verið að taka við sér á ný frá 1920.
 
Mesti ávinningurinn í endurheimt skóga er á svæðum sem hætt er að nýta undir landbúnað í Evrópu, Asíu og í Norður-Ameríku. Þá er bent á að hækkandi hitastig nær pólsvæðum jarðar hjálpi þar til sem og gríðarleg skógræktarverkefni sem búið er að setja í gang í Kína.
 
Óarðbært ræktarland hverfur aftur undir skóg
 
Gríðarleg endurheimt skóga hefur verið í Rússlandi og fyrrum Sovétríkjum. Fuchs skýrir það með því að bændur hafi hætt að nýta óarðbært ræktarland og að skógurinn hafi hreinlega tekið það yfir.  Svipuð þróun hefur átt sér stað í Póllandi og í Rúmeníu.  
 
Mest aukning skógarsvæða er í Rússlandi
 
Á heimsvísu er mesta skógar­aukningin í Rússlandi, eða sem nemur 790.000 ferkílómetrum samkvæmt rannsókn Xia-Peng og Mathew Hansen í Maryland-háskóla. Þá nemur aukning meginlandsskóga um 726.000 fer­kílómetrum. Á norðlægum svæðum nemur aukningin 463.000 ferkílómetrum. Í Kína er aukningin 324.000 ferkílómetrar. Í Banda­ríkjunum er hún 301.000 ferkílómetrar. Á heittempruðum svæðum er aukningin síðan sem nemur um 280.000 ferkílómetrum.
 
Í rannsókn Maryland-háskóla kemur líka fram að mesta skógareyðingin hefur átt sé stað í hitabeltinu og heittempraða beltinu. Þannig hafa tapast um 332.000 ferkílómetrar af regnskógum og 373.000 ferkílómetrar af öðrum hitabeltisskógum. Svonefndir þurrskógar í hitabeltinu hafa minnkað um 184.000 ferkílómetra, en á því svæði hefur skógareyðingin líka verið hlutfallslega hröðust á árunum 1982 til 2016 eða 15%. 
 
Hrikaleg eyðing frumskóga í Brasilíu hefur verið ganrýnd um allan heim. Þrátt  fyrir þá eyðingu hefur skóglendi aukist í heild á heimsvísu.  
 
Skógareyðing gríðarleg í regnskógum Brasilíu
 
Af löndum heims hefur skógareyðingin verið langmest í Brasilíu, eða 399.000 ferkílómetrar, sem er meira en samanlögð skógareyðing á fyrrnefndu tímabili í sex löndum, þ.e. Kanada, Rússlandi, Argentínu og í Paragvæ. 
 
Skógarþekjan hefur minnkað en tré eru á stærra svæði en áður
 
Samkvæmt rannsókn Xia-Peng og Mathew Hansen í Maryland-háskóla hefur gróðurþekja skógarkrónunnar minnkað frá 1982 um 1,33 milljónir ferkílómetra á heimsvísu, eða um 4,2%. Segja skýrsluhöfundar að þetta stemmi nokkuð vel við tölur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, þótt skilgrein­ingar á skógi með tilliti til sam­setningar séu nokkuð ólíkar.
 
Þegar tekið er mið af skógrækt sem átt hefur sér stað á sama tíma þá nemur hún 2,24 milljón kílómetrum. Þannig hefur heildar skógarsvæðið stækkað úr 31 í rúmlega 33 milljónir ferkílómetra, eða um 7,1% síðan 1982. 
 
Benda skýrsluhöfundar á að trjáþekja á landi sé ekki endilega það sama og skógarþekja, aðal­lega vegna minni þéttleika gróður­krónunnar í ræktuðum skógum en frumskógunum í hitabeltinu.
 Kínverjar og Indverjar í miklu skógræktarátaki
 
Nýlegar fregnir frá NASA, geim­vísinda­stofnun Bandaríkjanna, staðfesta þessar fregnir að hluta og sýna gríðarlega aukningu á skógrækt í Kína og á Indlandi á síðustu tuttugu árum. Í þessum löndum hefur myndast mikill áhugi fyrir skógrækt sem viðleitni við að berjast gegn gróðurhúsaáhrifum og hafa menn verið að slá þar hvert metið af öðru í gróðursetningu. 
 
Í þorpi einu á Indlandi gróðursetja íbúarnir 11 tré í hvert sinn sem stúlkubarn fæðist. 
 
Indverjar plöntuðu 66 milljónum trjáa á 12 klukkustundum
 
Sem dæmi þá slógu Indverjar eigið heimsmet sem skráð er í heimsmetabók Guinnes í gróðursetningu áhugamanna á trjám á 12 klukkustundum. Þá komu saman 1,5 milljónir Indverja á bökkum Narmada-árinnar í Madhya Pradesh héraði og potuðu niður 66 milljón trjáplöntum á hálfum sólarhring. Þá er nefnt að í þorpi einu á Indlandi gróðursetji íbúarnir 11 tré í hvert sinn sem stúlkubarn fæðist. 
 
Indverjar hafa sett þá stefnu að verja sem nemur 6 milljörðum dollara til að endurheimta skóga þannig að skógar þeki 12% af Indlandi fyrir árið 2030. Með þessu m.a. hyggjast Indverjar jafna að mestu koltvísýringsútblástur þjóðarinnar. Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2018 plöntuðu íbúar Uttar Pradesh héraðs um 49,3 milljónum trjáplantna. 
 
 
Maðurinn stórtækastur bæði í eyðingu og endurheimt skóga
 
Í rannsókninni sem gerð var í Maryland-háskóla kemur fram að um 60% af þeim breytingum sem átt hafa sér stað á skóglendi jarðar frá 1982 stafar af mannavöldum, bæði endurheimt og eyðing. Um 70% af eyðingu regnskóganna hefur sem dæmi orsakast af mannavöldum. 
 
Engin ný sannindi
 
Í dag eru uppi mikil áform um ræktun skóga til að binda koltvísýring í andrúmsloftinu. Er það talin skilvirkasta leiðin sem þekkist í dag í þeim tilgangi. Þar sjá íslenskir skógræktarmenn líka mikla möguleika, en það veltur þó á því að ríki og sveitarfélög spili þar með af fullri alvöru. 
 
Á umræðunni mætti samt ætla að aukin skógrækt sé alveg ný hugmynd sem sprottið hafi upp vegna loftslagsumræðunnar. Rannsóknir vísindamanna sem imprað er á hér að framan sýna þó að það er að verða nær hundrað ár síðan menn fóru af krafti að vinna að endurheimt skóga og fyrst á ofnýttum svæðum í Evrópu. Þar var það í raun neyðin sem kenndi nöktum mönnum að spinna þegar þeir sáu fram á að þeir voru að verða búnir að eyða öllu lífræna hráefninu sem fékkst úr trjánum og hélt efnahagslífinu gangandi. Þótt nýjar heimsendaspár spretti upp daglega, þá virðist engin ástæða vera til að óttast aldauða skóganna, jafnvel þótt frumskógar í hitabeltinu séu vissulega enn á válista. 

6 myndir:

Skylt efni: Skógrækt | Skógareyðing

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...