Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Nýsjálenska leiðin að mjólka upp á hlut
Fréttaskýring 16. nóvember 2015

Nýsjálenska leiðin að mjólka upp á hlut

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Í Nýja-Sjálandi er löng hefð fyrir því í mjólkurframleiðslu að eigandi jarðar og húsakosts sé ekki endilega sá sem á kýrnar og sér um mjaltirnar.


Þetta fyrirkomulag kallast „Sharemilking“ og felst oftast í því að bóndi býður húsakost til leigu og mögulega gróffóður til kaups fyrir þá sem vilja framleiða mjólk í aðstöðunni sem fyrir er á jörðinni. Tekjum búsins er svo skipt á milli leigutaka og leigjanda. Þetta form við rekstur búa er nú einnig farið að skjóta upp kollinum í Evrópu enda góð leið fyrir þá sem vilja stunda kúabúskap, en hafa ekki fjármagn til þess að kaupa jörð og húsakost. Svo er einfaldlega greidd leiga fyrir afnotin af húsnæðinu og greitt fyrir fóðrið eins og eðlilegt er. Það sem er þó einstakt við kerfið er að það er tengt mjólkurverðinu á hverjum tíma svo ef afurðastöðvaverðið breytist, hvort heldur er til lækkunar eða hækkunar, breytist leigugreiðslan í samræmi við það.

Eiga bara kýr

Sá sem gengur inn í svona samkomulag leggur nánast undantekningarlaust til allan bústofn og vélar til þess að hirða skepnurnar með, s.s. til þess að slá beitarland, fóðurvagn eða annað slíkt sem þörf krefur. Oftast á hann ekki annað enda felst starfið í því að sjá um kýrnar. Allt sem snýr að öðrum þáttum en kúnum er svo á höndum eiganda jarðarinnar.

Í Nýja-Sjálandi er málið vissulega mun einfaldara en víða í Evrópu enda er kúnum beitt árið um kring en þar sem þessu kerfi hefur verið komið upp í Evrópu hefur eigandi jarðarinnar t.d. séð um heyskapinn. Þetta kann að hljóma einkennilegt en er í raun einkar gott kerfi enda skiptir það eiganda jarðarinnar máli að fóðrið fyrir kýrnar sé gott, þar sem tekjum búsins er skipt á milli hans og leigutakans. Í raun mætti kalla leigutakann sjálfstæðan verktaka sem skilar svo til landeigandans hluta af öllum heildartekjum.

Aldargamalt kerfi

Þetta einstaka nýsjálenska kerfi í mjólkurframleiðslu er hreint ekki nýtt af nálinni en talið er að kerfið eigi rætur að rekja allt aftur til 1880 og er enn afar stór hluti þarlendrar mjólkurframleiðslu. Í dag er talið að 35% kúabúanna í Nýja-Sjálandi séu rekin með þessum hætti.

Allbreytilegt er þó hvernig staðið er að skiptum teknanna en líklega er oftast um sk. 50:50 reglu að ræða, þ.e. tekjum búsins er einfaldlega skipt til helminga á milli leigutaka og eiganda jarðarinnar. Nokkuð er þó um annars konar skiptingar á tekjunum en þá eru kýrnar oftast áfram í eigu landeigandans og fær sá sem sér um kýrnar þá oft 20–29% teknanna í sinn vasa.

Fardagakerfi

Eins og áður segir á þetta kerfi sér gamlar rætur í Nýja-Sjálandi og vegna þess eru í dag til ótal reglur um hvernig á að standa að því að gera samninga, hvernig heppilegt sé að skipta tekjunum og svo það sem er einkar áhugavert, hvenær flytja má gripi á milli bæja. Þar sem þúsundir búa eru rekin með þessum hætti hefur verið komið upp sk. fardegi eða það sem heimamenn kalla „Gypsy Day“. Þetta er 1. júní ár hvert og þá er algengt að eigendur kúnna taki sig upp og færi bústofn sinn á annan stað með öllu tilheyrandi.

Stundum eru kýrnar fluttar með flutningabílum en stundum er bústofninn hreinlega rekinn að næsta stað þar sem gengið hefur verið frá samningum. Í landinu eru gildandi reglur um hvers konar gripi má færa á milli búa og eru þær helstu að kýrnar verða að vera heilbrigðar, geta staðið á öllum fjórum fótum og vera í góðum holdum. Þær kýr sem uppfylla ekki þessi skilyrði þarf viðkomandi að losa sig við, enda ekki vænlegir gripir til framleiðslu á nýjum stað og þar með vart tekjuskapandi bæði fyrir eiganda þeirra og hinn nýja leigusala.

Leið til ábúendaskipta

Þó svo að margir nýti fardagana til þess að færa sig um set og koma sér fyrir á nýjum og væntanlega betri stað þá eru sumir með annars konar samninga. Í slíkum tilvikum er um hæga yfirtöku að ræða á landinu og húsakosti, þ.e. í rauninni er leigu­salinn keyptur út hægt og rólega án aðkomu banka eða fjármálastofnunar.

Ekki algengt í Evrópu

Það er erfitt að segja til um af hverju þetta form við kúabúskap hefur ekki náð mikilli útbreiðslu utan Nýja-Sjálands fyrr en nú en skýringin gæti þó falist í því að margir hafa litið á uppbyggingu á eigin fé í fasteignum og landi sem hluta af lífeyri. Í dag horfa líklega fleiri með öðrum augum á þetta og sjást þess t.d. merki í Danmörku þar sem fleiri og fleiri fara þá leið að hefja búskap með leigu með einum eða öðrum hætti enda landverð þar hátt og ekki á færi ungs fólks að hefja búskap nema með mikilli skuldsetningu. Framangreind leið virkar því áhugaverð og gæti allt eins gengið á Íslandi eins og annars staðar í Evrópu.


 

6 myndir:

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...