Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hugmyndir arkitekta hjá Stefano Boeri Architetti (SBA) á Ítalíu um „Frumskógarborgina“ í Kína.
Hugmyndir arkitekta hjá Stefano Boeri Architetti (SBA) á Ítalíu um „Frumskógarborgina“ í Kína.
Fréttaskýring 11. júlí 2018

Stríð Kínverja gegn mengun sagt muni breyta heiminum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Baráttan við koltvísýringsmengun frá iðnaði og bílaumferð í borgum hefur tekið á sig ýmsar myndir. Kínverjar eru þar að taka risastökk með metnaðarfullum markmiðum. Það virðist þó í fljótu bragði á skjön við stórtækar áætlanir þeirra um olíu- og gasvinnslu í Nepal.

Kína er oft nefnt sem dæmi um þjóð sem brotist hefur úr mikilli fátækt á undra skömmum tíma til þess að vera með hröðustu uppbyggingu, mestan hagvöxt um langan tíma, en um leið orðið mesta loftmengunarþjóð veraldar. Þar á bæ eru nú m.a. uppi stór áform um að snúa við blaðinu í baráttunni gegn mengun af miklum krafti. Einn liður í því er að nýta gróður til að vinna kolefni úr loftinu til að bæta afar bágborin loftgæði í borgum. Kannski ekki vanþörf á ef marka má hrikalegar myndir af mengun þar í landi sem birst hafa á liðnum árum.

Í rannsóknum sem dr. Thomas Pugh hjá Tæknistofnuninni í Karlsruhe framkvæmdi fyrir nokkrum árum var sýnt fram á að draga mætti verulega úr loftmengun í borgum með ræktun gróðurs um allt að 30%. Þar var sýnt fram á að jurtir vinna bæði koltvísýring og nituroxíð úr loftinu samhliða því að drepa niður svifryk og framleiða súrefni með ljóstillífun. Meira að segja í Reykjavík má víða sjá hvað gróður dafnar vel meðfram akbrautum, ekki síst vegna koltvísýringsútblásturs frá bílum. Það er því vel hægt að virkja þennan útblástur að einhverjum hluta. Svipaðar rannsóknir hafa verið gerðar víða og hafa hönnuðir og arkitektar sýnt þessu mikinn áhuga. Má kannski segja að gömlu torfbæirnir á Íslandi hafi verið mörgum öldum á undan sinni samtíð hvað þetta varðar, án þess að forfeður okkar væru meðvitaðir um það. 

Í fjármálaritinu Forbes mátti einmitt sjá grein um hugmyndir að hönnun grænna borga víða um heim til að draga úr mengun. Þar á meðal er „Frumskógarborgin“ í Kína. Er þar vísað til hugmynda Stefano Boeri Architetti (SBA) á Ítalíu sem er arkitektastofa sem leggur mikið upp úr umhverfisvænni hönnun þéttbýlis. Í þessari umfjöllun er líka sagt að með ljóstillífun jurta megi með ræktun 40 þúsund trjáa og einni milljón annarra plantna eyða 10.000 tonnum af koltvísýringi CO2 á ári, hreinsa upp 57 tonn af ryki og framleiða um leið 900 tonn af súrefni.

Væri ekki nær að nýta peninga til  skógræktar en í sektargreiðslur?

Staða mengunarmála á Íslandi í dag  hlýtur að vekja spurningu um orð umhverfisráðherra á Íslandi sem er tilbúinn til að borga milljónatugi ef ekki hundruð milljóna í sektir til útlanda ef landið stendur ekki við CO2 losunarmark Parísarsamkomulagsins. Af hverju beitir ráðuneytið sér ekki frekar fyrir því að nýta þá peninga til uppgræðslu og skógræktar á Íslandi?

Stríð gegn mengun sem mun breyta heiminum

Á fréttaveitunni Bloomberg var athyglisverð grein fyrir nokkru undir fyrirsögninni „China‘s war on Pollution will changes the world“, sem útleggja mætti á íslensku; stríð Kínverja gegn mengun mun breyta heiminum. Þar segir m.a.:

Kínverjar eru að ráðast gegn mengun sem aldrei fyrr með sinni nýju grænu pólitísku stefnu sem keyrð er svo hart fram að hennar mun verða vart um allan heim. Það mun breyta öllu eins og eftirspurn eftir rafknúnum farartækjum til vörumarkaða.

Fjögurra áratuga efnahags­uppsveifla hefur gert Kína að mesta kolefnismengunarþjóð veraldar. Nú eru stjórnvöld þar í landi að reyna að snúa því dæmi við án þess að það skaði efna­hags­kerf­ið. Jafnvel þannig að nýja græna stefnan verði leiðandi í tækni­fram­förum.

Í ljósi þess­ara frétta og í ljósi árangurs Kínverja á efnahagssviðinu, má ætla að heimurinn geti bókstaflega farið að anda léttar ef þessi markmið Kínverja ná fram að ganga. Í öllu falli er löngu ljóst að þegar Kínverjar hreyfa sig á einhverju sviði þá verður þess vart um allan heim. Þetta finna Íslendingar vel, m.a. í vaxandi straumi kínverskra ferðamanna til landsins og áhrifa Kínverja í málmiðnaði á Íslandi. 

1,6 milljónir dauðsfalla vegna mengunar

Í greininni á Bloomberg sem rituð er af Jeff Kearns, Hannah Dormido og Alyssa McDonald, segir að á árinu 2015 hafi loftmengun verið svo slæm í Kína að rannsóknarteymi Berkeley Earth hafi áætlað að hún hafi beinlínis orsakað 1,6 milljónir dauðsfalla í landinu.

Reykþokan (smog) er þykkust í iðnhéruðunum í norðurhluta landsins, eins og í Shanxi sem er helsta kolanámuhéraðið. Eins í Hebei, þar sem helsta stálvinnslan er. Mengunin frá þessu svæði er stærsta hlutfall MP2,5 loftmengunar í heiminum. Þar stendur PM2,5 fyrir [Particulate Matter] agnir í andrúmsloftinu sem eru 2,5μm til 10μm, eða micormetrar að þvermáli. Þetta getur verið sótagnir í reyk eða rykagnir af götum sem þyrlast upp í loftið sem eru hættulegar fyrir lungun. Smærri agnir sem eru minni en 2,5μm eru skilgreindar  sem PM2,6 og stærri agnir sem PM10. Til samanburðar er mannshár um 50–70μm í þvermál og mjög fínn sólstrandasandur er um 90μm eða micrometrar í þvermál.

Forystumenn á kínverska þinginu segja að þeir muni auka framlög til baráttunnar gegn mengun um 19% umfram jafnvirði 40,5 milljarða dollara sem þegar er veitt í þennan málaflokk á ári. Það þýðir aukningu um sem nemur 6,4 milljörðum dollara. Fullyrða þeir að þegar hafi tekist að fækka slæmum loftmengunardögum í lykilborgum landsins um 50% á fimm ára tímabili.  

Kína varð mesta losunarríki heims á kolefnisdíoxíði um leið og það varð leiðandi ríki í útflutningi. Fór mengunin að aukast snarlega eftir að að Kína fékk aðild að Alþjóða viðskiptasamtökunum (World Trade Organization – WTO) árið 2001. Á allra síðustu árum hefur heldur verið að draga úr menguninni í Kína samkvæmt tölum BP Statistical Review of World Energy.

Kínverjar stærstir í rafbílabransanum

Stríð Kínverja gegn loftmengun fellur mjög vel saman við annað markmið sem er að verða ráðandi á heimsvísu í rafbílaiðnaðinum. Þó nafn Elon Musk og fyrirtæki hans Tesla Incorporated, sé einna þekktasta nafnið í rafbílaiðnaðinum, þá hafa Kínverjar verið leiðandi á heimsvísu í sölu rafbíla síðan 2015. Stefna þeir á að verða komnir í sölu á 7 milljónum rafbíla á ári þegar kemur fram á árið 2025. Til að ná því markmiði er veittur stuðningur til framleiðenda jafnframt því að hertar eru reglur um notkun ökutækja sem nota jarðefnaeldsneyti.

Peningadrifin markmið sem dregur að fjárfesta

Þessi markmið Kínverja eru drifin áfram af peningasjónarmiðum og hafa fjármálamenn eins og Bandaríkjamaðurinn Warren Buffett stokkið á þetta tækifæri í Kína. Þar hefur hann bakkað upp fyrirtæki eins og BYD Co. Það jókst að verðgildi á síðasta ári um 67% og seldi þá fleiri bíla en Tesla. Þá er bandaríska fjármálafyrirtækið Goldman Sachs Group Inc. komið með puttana í kínverska bílaframleiðandann Geely Automobile Holdings Ltd.

Verð á sólarsellum hefur farið ört lækkandi í takt við stóraukna framleiðslu og ræður þar mestu innkoma Kínverja á þennan markað. Eyða Kínverjar nú tvöfalt hærri upphæðum í hreina orku eins og sólarorku en Bandaríkjamenn. Er tveir þriðju af öllum sólarrafhlöðum sem framleiddar eru í heiminum framleiddar í Kína að mati Bloomberg New Energy Finance (BNEF). Í Kína eru nú bækistöðvar leiðandi fyrirtækja á þessu sviði eins og JinkoSolar Holding Co. and Yingli Green Energy Holding Co. Þó Kína sé orðið stórveldi í framleiðslu á búnaði til nýtingar sólarorku þá láta þeir ekki þar staðar numið. Þeir eru líka að sækja fram í þróun og framleiðslu á búnaði til nýtingar á vindorku og á vetni sem ætlað er að koma í stað notkunar á kolum.

Tækni og þróun í framleiðslu búnaðar til nýtingar á hreinni orku er orðið meiri háttar drifafl í peningakerfi heimsins. Þannig telur BNEF að fjárfestingar í þessum geira á heimsvísu muni fara yfir 10 billjónir dollara fyrir 2040. Þar er því einnig spáð að megin fjárfestingarnar á þessu sviði, eða um 72%,, skiptist nokkurn veginn jafnt á milli sólar- og vindorkutækni.

Hertar umhverfisreglur í Kína hafa áhrif á hráefnismarkaði

Viðleitni Kínverja, stefna og markmið til umhverfisbóta hefur þegar haft umtalsverð áhrif á hráefnisverð á kolum, stáli og áli. Í kjölfar þess að koladrifnum álverum hefur verið lokað sem og kolanámum, hækkaði álverð á síðasta ári á heimsmarkaði. Undir hertum umhverfisreglum hefur verð á hráefni eins og pappír einnig hækkað.  

Fyrr fimm árum varð eins konar loftslagshrun í Beijing, höfuðborg Kína. Kom þá upp hörð gagnrýni á kínversk stjórnvöld sem kínverskir ríkisfjölmiðlar tóku líka þátt í.  Á síðasta ári hafi PM2,5 mengunaragnir í loftinu í borginni  minnkað um nær einn þriðja frá því sem var 2015. Það er ansi mikið í samanburði við að mengunin minnkaði ekki nema um kannski einn tíunda í öðrum stórum borgum.

Samdrætti í orkuframleiðslu með kolum þarf þó að mæta á einhvern annan hátt. Þar virðist framleiðsla með vatnsafli, vindorku og sólarorku ekki duga til. Þess vegna eru Kínverjar m.a. á fullu við olíuleit í sínum bakgarði í Nepal. Notkun olíu til orkuframleiðslu er vissulega skárri en brennsla á kolum, en hljómar óneitanlega skringilega í öllu talinu um stríð gegn mengun.

Vísa ábyrgðinni á plast- og pappírsruslinu heim til föðurhúsanna

Viðsnúningurinn í Kína snýst þó ekki bara um að bregðast við loftmengun. Eins og frægt er orðið hættu Kínverjar að flytja inn plast- og pappírsúrgang um síðustu áramót til endurvinnslu. Vísuðu þeir þar með ábyrgðinni af ruslinu heim til föðurhúsanna. Er það vegna kröfu almennings í landinu um að bregðast við mengun sem og minni þörf fyrir úrgangi til hráefnisvinnslu. Er í raun ótrúlegt hvað Kínverjar hafa lengi samþykkt að taka að sér það hlutverk að vera ruslakarfa fyrir aðrar þjóðir heimsins. 

Þetta hefur sett aðrar þjóðir eins og Evrópuþjóðir og Bandaríkin í klemmu sem voru alls ekki viðbúin að Kínverjar skrúfuðu fyrir móttökuna á þessum úrgangi. Þannig er ábyrgðin á eigin rusli nú að færast í hendur hverrar þjóðar og þar hafa Íslendingar og íslensk stjórnvöld sannarlega staðið sig afar illa við að styðja við endurvinnslu í landinu. Þarna hafa ráðamenn vestrænna þjóða sannarlega verið gripnir í bólinu, enda hafa þeir stólað á að geta sópað eigin sóðaskap undir teppið hjá Kínverjum.

Mengunarlögga lokar verksmiðjum sem standast
ekki kröfur

Kínversk stjórnvöld hafa sett á fót eins konar mengunarlöggu eða sérstaka lögreglusveit til að fylgja eftir stríðinu gegn mengun. Hafa slíkar sveitir þegar lokað verksmiðjum sem ekki hafa staðist skoðun. Stefnan sem lýtur að því að banna kolanotkun í iðnaði og lokun kolanáma hefur skilið marga eftir úti í kuldanum.

Þó það hafi lengst af verið viðtekin skoðun að reykþoka væri óumflýjanleg afleiðing af uppbyggingu og auknu ríkidæmi Kínverja, þá virðist það vera að sýna sig að tiltektin í þessum málum er ekki að hafa neikvæð áhrif á efnahagsþróun landsins. Hagvöxturinn í fyrra fór í 6,9% sem er fyrsta aukningin í sjö ár.

Þá horfir Kína á hátækni, framleiðslu og innleiðingu rafbíla sem og nýtingu sólarorku sem leið til að verða leiðandi á heimsvísu og til hagvaxtaraukningar. Greinarhöfundar Bloomberg segja þó að markmið um að bregðast við loftmengun heima fyrir sé eitt, en að verða ofurríki á neytendamarkaði á heimsvísu sé allt annar handleggur.

Líka á kafi í olíu- og gasleit í Nepal

Þversögnin í þessum metnaðarfullu áforum Kínverja eru rannsóknir og leit að olíu og gasi í Nepal. Þar eru uppi áform um að setja á fót sérstaka rannsóknarmiðstöð í leit að „svarta gullinu“ eins og það er nefnt.

Þetta kom m.a. fram í Kathmandu Post þann 23. júní síðastliðinn. Þar segir að Kínverjar séu að koma á fót rannsóknarsetri  í Nepal samkvæmt samkomulagi í 14 liðum sem undirritað var á milli ríkjanna í heimsókn KP Sharam Oli, forsætisráherra Nepals, til Beijing þann 20. júní.

Á árinu 2016 gerðu Kínverjar jarðfræðilega hagkvæmnisönnun á því að framkvæma olíu- og gasrannsóknir í Nepal. Í apríl á þessu ári sendi China Geological Survey uppkast af vinnuáætlun til námumálaráðuneytisins þar sem staðfestur var áhugi stofnunarinnar á olíuleit.

Er þessi áhugi byggður á áreiðanleikakönnun vegna mögulegrar olíuleitar á tíu stöðum, þar á meðal í Dailekh, Nepalgunj, Chitwan, Mustang, Morang, Chatara og á  Chure svæðinu í Palpa. Í kjölfar þessa undirrituðu ráðamenn ríkjanna viljayfirlýsingu í heimsókn Wang Yang, varaforseta Kína, til Nepal í ágúst 2016. Í framhaldinu var gerð áætlun um fjárfestingar í verkefninu og aðkomu kínverskra yfirvalda og fyrirtækja til að framkvæma rannsóknirnar. Rajendra Khanal, ráðuneytisstjóri í námumálaráðuneyti Nepals, staðfesti í samtali við Kathmandu Post að þeir hafi fengið tölvupóst með vinnuplani frá kínversku rannsóknarstofnuninni. Þeir hafi svarað til baka og lýst yfir áhuga á að rannsóknir yrðu hafnar sem fyrst.

Borað á tíu rannsóknarskikum sem hver um sig er 5.000 ferkílómetrar

Samkvæmt fyrirliggjandi hug­myndum áætlar China Geological Survey í fyrsta áfanga að bora á sex eða sjö stöðum til að áætla magn og gæði olíu og gass sem þar kann að finnast. Staðsetning þeirra borana getur verið á einhverjum þeim 10 staða sem úttektir voru gerðar á 2016. Yfirvöld hafa skipt Tarai og Siwalik hæðunum upp í 10 rannsóknarskika sem hver um sig er yfir 5.000 ferkílómetrar. Áætlað er að rannsóknirnar komi til með að kosta 3,5 milljarða rúpía á hverjum skika, eða sem nemur  rúmlega 321 milljón dollurum (um 35 milljarðar íkr.).
Í fyrra opnaði Nepal 15 af sínum kopar-, járn-, kalksteins- og sinknámum í þessu skyni samkvæmt olíureglugerð frá 1985. Er þetta í fimmta skipti sem opnað er á slíka leit, en á tíunda áratug síðustu aldar sýndu erlend fyrirtæki mikinn áhuga á að leita þar að olíu og gasi og var úthlutað leyfi til þess. Vegna seinagangs við þær framkvæmdir afturkallaði nepalska ríkið öll þau leyfi. Í þeim hópi voru fyrirtækin Texana Resources Company, bandaríska fyrirtækið BBB Champion, Cairn Energy PLC í Bretlandi og Emirates Associated Business Group (EABG) í Dubai.

Skylt efni: Umhverfismál | mengun | Kína

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...