Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Gaddþvari er með sérkennilegri rækjutegundum á Íslandsmiðum. Mynd / Ingibjörg G. Jónsdóttir.
Gaddþvari er með sérkennilegri rækjutegundum á Íslandsmiðum. Mynd / Ingibjörg G. Jónsdóttir.
Fréttaskýring 14. janúar 2020

Um 25 rækjutegundir finnast á Íslandsmiðum

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Fjöldi rækjutegunda lifir á Íslandsmiðum. Hér má nefna tegundir eins og gaddþvara, órækju, ísrækju og sabinsrækju. Þær finnast ekki í miklu magni og reyndar eru þær ekki allar fýsilegar til átu.

Um fjögur þúsund rækjutegundir hafa verið greindar í heiminum. Flestar rækjurnar eru í sjó en þær halda sig einnig í fersku vatni. Rækjur eru yfirleitt botnlægar tegundir og þær hafa veiðst allt niður á sex þúsund metra dýpi. Sumar þeirra kunna einnig vel við sig á grynnra vatni. Fáar af þessum tegundum eru nýttar til manneldis eða um þrjú hundruð. Árið 2016 var heimsaflinn í rækju um 3,5 milljónir tonna.

Rækjur eru misstórar, frá nokkrum millimetrum upp í nokkra tugi sentimetra.

Rækjur gegna stóru hlutverki í fæðukeðjunni en þær eru mikilvæg fæða margra sjávartegunda.

Ingibjörg G. Jónsdóttir, rækjusérfræðingur Hafrannsóknastofnunar.

Veiðast flestar í rannsóknaleiðöngrum

Á síðasta ári gaf Hafrannsóknastofnun út samantekt um rækjutegundir sem fundist hafa á Íslandsmiðum og verið greindar til tegundar í gagnagrunni Hafró. Höfundar eru Ingibjörg G. Jónsdóttir, rækjusérfræðingur Hafró, og Agnes Eydal líffræðingur.

Í gagnagrunni Hafrannsókna­stofnunar eru skráðar 25 rækjutegundir sem fundist hafa við Ísland. Ingibjörg sagði, er rætt var nánar við hana, að væntanlega væru fleiri tegundir á Íslandsmiðum þótt þær hefðu ekki komið fram eða verið greindar ennþá. Þær rækjur sem hafa verið skráðar hafa fengist í rannsóknaleiðöngrum Hafró. Þá hafa sjómenn sent Hafró framandi rækjutegundir sem þeir hafa rekist á.

Listi yfir rækjur á Íslandsmiðum er birtur með þessari grein og eins og sjá má þar eru mörg nafnanna skemmtileg.

Ísrækja. Hún er mikilvæg fæðutegund fyrir þorsk og grálúðu fyrir norðan land. Mynd / Ingibjörg G. Jónsdóttir.

Stóri kampalampi ekki stærstur

Rækjurnar hér við land eru mjög misjafnar að stærð, allt frá 2–3 sentímetrum í heildarlengd og upp í ríflega 30 sentímetra. Aðeins ein rækjutegund, stóri kampalampi, er nýtt á Íslandsmiðum sem kunnugt er. Þótt tegundina megi finna allt í kringum landið þá eru helstu veiðisvæðin norður af landinu og inni á fjörðum vestan- og norðanlands.

Stóri kampalampi er ekki stærsta rækjutegundin við Ísland eins og halda mætti í fljótu bragði. Hann getur orðið um 10 sentímetrar að heildarlengd og stærsta rækjan veiðist á Dohrnbanka milli Íslands og Grænlands. Nokkrar tegundir eru stærri en stóri kampalampi, til dæmis órækja og skarlatsrækja. Órækjan getur náð allt að 20 sentímetrum í heildarlengd og skarlatsrækjan yfir 30 sentímetrum. Órækjan er sviflæg rækjutegund og finnst víða um heim. Við Ísland hefur hún greinst í mögum á þorski, djúpkarfa og háfategundum. Hún er rauðleit og glær. Glerrækja er samheiti yfir órækju og aðra tegund sem nefnist tannarækja.

Ísrækjan áhugaverð

Ingibjörg var spurð hvort henni þætti ein rækjutegund hér við land vera áhugaverðari en önnur. Hún sagði að ísrækjan væri einmitt tegund sem gaman væri að fylgjast með. Hún sést mikið í magasýnum, sérstaklega í þeim fiskum sem veiðast sem meðafli við stofnmælingu á rækju á sumrin. Þetta er lítil rækja og verður varla mikið stærri en 6 sentímetrar. Hún er áberandi rauðleit og mjúk viðkomu. Hún er víða í Norður-Atlantshafi og einnig norðarlega í Kyrrahafi. Ísrækja er djúpsjávartegund og heldur sig hér við land mikið á um 800 metra dýpi. Ísrækjan er mjög fiturík. Um 44% af þurrvigt hennar er fita þannig að hún er ákaflega góð næring fyrir ýmsar fisktegundir.

Má nýta fleiri tegundir?

Ingibjörg var spurð hvort unnt væri að nýta fleiri rækjutegundir hér við land en stóra kampalampa. „Það bendir fátt til þess. Við fáum allar þessar rækjur í mjög litlum mæli nema ísrækjuna. Hún er hins vegar svo fiturík að ég held að hún henti alls ekki til manneldis. Hugsanlega mætti veiða hana til að nýta í dýrafóður. Hins vegar er ekki vitað hvað stofninn er stór. Ísrækjan getur þó verið í mjög miklu magni einkum í Norðurkantinum norður af Vestfjörðum og Húnaflóa. Á vissum tímum geta fiskarnir þar verið stútfullir af ísrækju eingöngu. Segja má að það sé veisla hjá þeim því þeir troða sig út líkt og þegar þeir komast í loðnu,“ sagði Ingibjörg. Hún bætti því við að yfirleitt væru aðrar rækjutegundir ekki stór hluti af fæðuvali fiski.

Stóri kampalampi er eina rækjutegundin sem nýtt hefur verið við Ísland. Hér er kvenrækja með hrognasekk undir kvið, en stóri kampalampi lifir fyrstu ár sín sem karldýr en skiptir svo um kyn. Mynd / Hafrannsóknastofnun.

Litli kampalampi veiddur við Kanada

Fram kom hjá Ingibjörgu að hér við land væru tvær rækjutegundir sem veiddar væru til manneldis annars staðar. Um er að ræða litla kampalampa og sandrækju. Litli kampalampi er líkur stóra kampalampa en eins og nafnið gefur til kynna er hann mun minni. Hann lifir á grunnu vatni og í köldum sjó og kemur sem meðafli við rækjuveiðar en þó ekki í miklu magni. Litli kampalampi er veiddur við Kanada.

Sandrækja nýjasta tegundin hér

Sandrækja greindist hér við land í fyrsta sinn vorið 2003 við sýnatöku á skarkolaseiðum við Álftanes á vegum Hafró. Hún er jafnframt nýjasta rækjutegundin sem finnst hér við land. Væntanlega hefur hún borist hingað með kjölvatni skipa. Sandrækjan lifir mjög grunnt í Faxaflóa en hún hefur einnig fundist við Vestfirðina og víðar. Rannsóknir benda til þess að fjöldi hennar sé að aukast.

Sandrækja er veidd í töluverðum mæli í Norðursjó. Ársaflinn þar hefur verið milli 30 og 40 þúsund tonn undanfarin ár

Nýtur góðs af sæfíflum

Lífshættir rækjutegunda eru breyti­legir. Ein tegund, pólrækja, er áhugaverð en hún lifir í samlífi við sæfífla. Þetta er lítil rækja sem verður iðulega ekki stærri en 6 til 7 sentímetrar að lengd. Hún er kubbsleg með kúptan skjöld. Hún hefur aðallega fundist úti af Vestfjörðum. Pólrækjan heldur sig gjarnan nálægt sæfíflum sem veita henni skjól. Hún liggur á botninum og beinir hausnum frá sæfíflum. Þegar hann fær sér að borða nýtur rækjan einnig góðs af molunum sem falla frá honum á botninn. Þess má geta að sæfíflar eru frumstæð sjávardýr, skyldir kórölum. Þeir eru fastir við botninn og hafa arma sem teygja sig upp eins og opið blóm. Þaðan fá þeir nafnið. Þeir grípa bráðina með örmunum og lama hana með stingfrumum. Síðan stinga þeir bráðinni ofan í kokið og hreinsa frá allt sem er ætilegt. Loks skila þeir úrganginum aftur út um sama opið.

Rækjur í skjóli hjá sæfíflum. Mynd / Hafrannsóknastofnun.

Skráðar rækjutegundir

Hér á eftir fer listi yfir þær 25 rækjutegundir sem skráðar hafa verið í gagnagrunn Hafrannsóknastofnunar.

Axarrækja
Gaddarækja
Gaddþvari
Glæsirækja
Hrossarækja
Ísrækja
Kampalampabróðir
Litla hrossarækja
Litli kampalampi
Litli þvari
Marþvari
Noregsrækja
Órækja
Pálsrækja
Píslrækja/smárækja
Pólrækja
Sabinsrækja
Sandrækja
Skarlatsrækja
Stóri kampalampi
Strandrækja
Tannarækja
Tröllarækjubróðir
Tröllarækja
Þornrækja

Gaddþvari er með sérkennilegri rækjutegundum á Íslandsmiðum. Mynd / Ingibjörg G. Jónsdóttir.

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...