Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Þangskurður á Breiðafirði.
Þangskurður á Breiðafirði.
Mynd / Axel Helgason
Fréttir 19. október 2016

Frumvarp um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar er harðlega gagnrýnt

Höfundur: Hörður Kristjánsson
„Það að færa sjávargróður sem er í einkaeign undir lög um stjórn fiskveiða þar sem segir í fyrstu grein að nytjastofnar séu í sameign íslensku þjóðarinnar, er í raun dulin þjóðnýting og getur ekki samrýmst stjórnarskrá Íslands.“ 
 
Þetta segir Bjarni Kristjánsson á Auðshaugi í harðorðri athugasemd við frumvarpsdrög til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald. Frumvarpið snýst um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.
 
Málið snertir eigendur sjávarjarða sem hafa aldagamlan rétt til nýtingar sjávargæða út frá sínum landareignum. Bjarni er einmitt eigandi sjávarjarðar við Breiðafjörð og hefur stundað þangöflun með hléum frá árinu 1979. 
 
Hann bendir einnig á að með þessu ákvæði séu stjórnvöld að yfirtaka yfirráð og nýtingarstjórn á sjávargróðri innan netlaga sem eigendur sjávarjarða hafa haft fram til þessa.
 
„Þetta er gert þrátt fyrir að stjórnvöld viðurkenni eignarrétt sjávarjarða á sjávargróðri innan netlaga.“ Í  2. gr. jarðlaga nr. 81/2004 segir: 
 
Netlög merkja í lögum þessum vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.“
 
Mótmælir harðlega gerræðislegum áformum
 
Kári S. Lárusson, bóndi, þangsláttumaður og landeigandi í Tjaldanesi í Saurbæ, í Dölum vestur, sendi atvinnuveganefnd harðorð mótmæli þegar kallað var eftir athugasemdum vegna frumvarpsins. Þar sagði hann m.a.: 
 
„Mótmæli hér með harðlega þeim gerræðislegu áformum ríkisins, – að leiða í lög, – að ég þurfi að afla mér sérstaks leyfis frá ríkinu, til að stunda öflun á sjávargróðri, frá skipi, – á mínum eigin fjörum – og jafnframt að afla leyfis frá sjálfum mér til öflunarinnar. 
 
Af þessu tilefni get ég upplýst ykkur um, að ég er með full réttindi, bæði til skipstjórnar og vélgæslu á skipum af þeirri gerð og stærð sem notuð eru til þangöflunar hér í Breiðafirði, – öfugt við marga aðra sem þá atvinnu stunda, hyggjast stunda, – eða hafa stundað, í nálægri fortíð. Og ég ætti því ekki að þurfa að biðja, – hvorki kóng né prest, – um leyfi til að afla þangs, þara, sölva eða annars gróðurs sem á mínum fjörum vex, – með þeim hætti sem hér um ræðir. 
 
Auk þess að greiða 1000 kr. „veiðigjald“, – vegna afurða af mínum fjörum, sem renni til ríkisins. 
Svo vill til að stjórnarskráin verndar eignarréttinn fyrir svona fíflagangi, eins og lesa má um í 72. grein hennar. Að vísu með þeim frávikum, að heimilt sé að skerða eignaréttinn, ef almannahagsmunir séu í húfi. Um slíkt er augljóslega ekki að ræða í þessu tilfelli. 
 
Þangsláttur hefur verið stundaður með sjálfbærum hætti, á eignalöndum bænda og annarra landeigenda við Breiðafjörð, í marga áratugi og gengið með afbrigðum vel, – enda hafa afskipti hinnar lamandi handar ríkisvaldsins verið víðsfjarri.“
 
„Aðeins menntuðum fábjánum kæmi svona vitleysa til hugar“
 
„Engin ástæða er til að breyta því sem vel hefur gengið, nema sterk rök hnígi í þá átt. Þau hafa engin verið tilgreind í þessu tilfelli. Hverjum dytti í hug að setja heyskap bænda á túnum sínum undir ríkiseftirlit og jafnframt áforma að heimta „veiðigjald“ af heyinu samkvæmt blautvigt eftir slátt? Það er augljóst mál, að engum nema menntuðum fábjánum kæmi slík vitleysa til hugar.
 
Og talandi um veiðigjald af blautþangi upp úr sjó, sem næmi 1000 krónum á tonnið. Eruð þið eitthvað firrtir til höfuðsins þegar um peninga er að ræða, – þarna í höfuðborginni? Sjáið þið ekki þvílík gríðar fjárhæð fer þarna út úr greininni, bara til að halda uppi rúmlega gagnslausum afskiptum og eftirliti með þangslætti í Breiðafirði? 
 
Finnst ykkur 25% af verði innvegins blautþangs vera smáaurar? Í hvaða veruleika dragið þið eiginlega andann?“
 
Kári segist þó ekki gera neinar athugasemdir við að ríkið setji lög um „þaraveiðar“ þar sem það hafi lögsögu til. Samkvæmt stjórnarskránni hafi ríkið þó engin yfirráð yfir þangi á íslenskum fjörum, nema á sjávarjörðum, sem eru í ríkiseign.
 
Höfum aldrei vitað til þess að fjörugróður hafi verið „veiddur“  
 
„Mér hefur einnig flogið í hug, eftir yfirlestur fyrirliggjandi frumvarpsdraga og reglugerðar þar með fylgjandi, – að óvitlaust gæti verið fyrir ráðuneytið, að senda þá starfsmenn sem að málum hafa komið, – varðandi vitleysisgang þennan allan, – á námskeið um málfar og hugtök í íslenzku máli. Við flest, sem búum úti á landi, höfum aldrei vitað til þess að fjörugróður hafi verið „veiddur“, svo lítið dæmi sé tekið, – úr þessum dæmalausu ritverkum. 
 
Að lokum ítreka ég kröfu mína um að ríkið hverfi nú þegar frá öllum áformum um lagasetningu og öðrum inngripum varðandi hlunnindanýtingu á fjörum og sjávarbotni, – sem eru sannarlega í minni einkaeign. 
Að öðrum kosti mun ég sækja rétt minn fyrir dómstólum,“ sagði  Kári S. Lárusson í Tjaldanesi í athugasemdum sínum. 
 
Sjávargróður undir sama hatt og nýting fiskstofna
 
Í frumvarpinu, sem er stjórnarfrumvarp, er greinilega ætlunin að skilgreina nýtingu sjávargróðurs í samræmi við nýtingu fiskstofna úr sameiginlegum sjávarauðlindum Íslendinga. Vísað er til aukins áhuga á nýtingu þangs og þara við Ísland og nauðsyn þess að setja reglur og koma skikki á eftirlit með nýtingunni.
 
Þar segir m.a.:
 
„Enginn má stunda öflun á sjávargróðri í atvinnuskyni frá skipi nema hafa fengið til þess sérstakt leyfi sem Fiskistofa veitir á skip. Leyfi þetta fellur niður hafi skip ekki verið notað við öflun sjávargróðurs í tólf mánuði og eins ef skip er fært af skrá sem Fiskistofa heldur um skip sem hafa leyfi samkvæmt þessari grein.  Ráðherra er heimilt að kveða á um að þeir sem taka sjávargróður í fjörum í atvinnuskyni, án þess að notast við skip, skuli skila skýrslu um tökuna til Fiskistofu.  Öll sömu fyrirmæli og gilda um fiskiskip og fiskveiðar skv. III., V. og VI. kafla laga þessara og annarra laga á sviði sjávarútvegs, m.a. um ­færslu afladagbókar, löndun, vigtun og skráningu afla, eftirlit með veiðum og greiðslu veiðigjalds, gilda, eftir því sem við á, um skip sem hafa leyfi skv. 1. mgr. og öflun sjávargróðurs frá þeim. Heimilt er að setja skilyrði í leyfi skv. 1. mgr. er lúta að búnaði skipa, merkingum afla, áhrifum á sjávargróður og aðferðum við öflun hans.  Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um ræktun sjávargróðurs og ekki um sölvatekju.“ 
 
Þá segir einnig í frumvarpsdrögunum um svæði til nýtingar:
 
„Áður en leyfishafi hefur öflun sjávargróðurs innan netlaga sjávarjarðar þarf að hafa náðst samkomulag við landeiganda um heimild til öflunarinnar. Heimilt er að skipta nýtingarsvæðum sjávargróðurs, utan netlaga sjávarjarða, í tiltekin afmörkuð svæði og takmarka öflun sjávargróðurs utan þeirra. Þá er heimilt að banna tímabundið öflun innan þessara nýtingarsvæða til að gefa tíma til endurvaxtar á sjávargróðri eftir nýtingu. Áður en ákvarðanir eru teknar samkvæmt þessari málsgrein skal að jafnaði leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar. Við úthlutun leyfa til nýtingar á þessum svæðum skal litið til búnaðar skipa og öflunartækja. Heimilt er að veita þeim skipum forgang sem hafa reynslu af viðkomandi nýtingu.“ 
 
Veiðigjöld sett á nýtingu sjávargróðurs í eignarlandi?
 
Bjarni Kristjánsson á Auðshaugi segir að ákvæði um veiðigjöld af klóþangi í 7. gr. III. kafla í frumvarpi þessu standast ekki áður sett lög né heldur stenst það 72. gr. stjórnarskrár Íslands þar sem klóþang sem vex við Íslandsstrendur er innan netlaga og er þar með eign eiganda sjávarjarða samkvæmt lögum. Heimild til töku veiðigjalds samkvæmt lögum nr. 74/2012 byggir á 1. gr. laga nr. 116 /2006 þar sem segir: 
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“
 
Bjarni minnir einnig á 2. gr. sömu laga sem segir:
 
„77/fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41, l. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.“ 
 
Réttur sem rakinn er til Jónsbókar
 
Bjarni segir að hér sé talað um fjöruborð en ekki flæðarmál enda hafa fjörur verið eign landeigenda allt frá Jónsbókarlögum. Þetta þýði að nytjastofnar sem lög nr. 116/2006 ná yfir séu fyrir utan fjöruborð. Þetta stangast að mati Bjarna verulega á við 3. grein II. kafla frumvarpsins, en þar segir:
 
„2. gr. laga nr. 116/2006 verði breytt þannig að sjávargróður sem er utan við fiskveiðilandhelgi Íslands (þ.e. ofan fjöruborðs) verði nú skilgreindur með nytjastofnum sem eru utan fjöruborðs í lögum um stjórn fiskveiða.“
 
Bjarni minnir á að skilgreining á fiskveiðilandhelgi Íslands breytist ekki við þetta. Hér sé því ætlunin að innheimta veiðigjöld af sjávargróðri sem er utan við fiskveiðilandhelgi Íslands og er í eign sjávarjarða.
 
Íþyngjandi ákvæðum um nýtingu mótmælt
 
Bjarni mótmælir einnig 5. grein frumvarpsins sem segir m.a. að allir, þ.m.t. landeigendur, þurfi að kaupa sérstakt veiðileyfi til að nýta eign sína með skipum eða prömmum, og er gert að hlíta í öllu ákvæðum um nýtingu sjávargróðurs eins og um sjávargróður í þjóðareign væri að ræða. Vísar hann líka til  meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þá hnykkir Bjarni á máli sínu í lok athugasemdar sinnar til atvinnuveganefndar og segir: 
 
„Frumvarp þetta stenst ekki áður sett lög né heldur stenst það 72. grein stjórnarskrá Íslands og er í raun þjóðnýting þó svo að viðurkennt sé að landeigendur eigi þessa eign áfram að nafninu til. Þó svo stjórnvöld telji einhverjar ástæður fyrir lagasetningu þá má sú lagasetning ekki takmarka eða ganga á stjórnarskrárbundin réttindi manna.“
 
Óvönduð vinnubrögð
 
Axel Helgason, sonur Helga Axelssonar, æðarbónda og landeiganda í Breiðafjarðareyjum, gagnrýnir óvönduð vinnubrögð við smíði frumvarpsins. Axel hefur mikla reynslu af þangslætti við Breiðafjörð. Hann sagði í samtali við Bændablaðið að lítið tillit hafi verið tekið til framlagðra athugasemda í þeirri útgáfu frumvarpsins sem lagt var fyrir atvinnuveganefnd. 
 
Telur hann að breytingarnar séu tímaskekkja og gangi gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrár Íslands. 
„Athyglisvert er að semjendur frumvarpsins telji ekki þörf á að athuga hvort það fari í bága við stjórnarskrá. Eins og frumvarpið liggur fyrir, jafnast það á við eignaupptöku á hlunnindum sjávarjarða er lúta að sjávargróðri.“
 
Axel segir einnig að landeigandi sé eigandi þeirra verðmæta sem þar er að finna og ráði meðferð og nýtingu þeirra verðmæta. 
 
Veiðigjald ígildi eignaupptöku
 
Hann benti á að sú ætlun að setja rúmlega 25% „veiðigjald“ á þessi verðmæti hljóti að teljast ígildi eignaupptöku. Þessum hugmyndum var reyndar breytt í frumvarpinu og gjaldið lækkað, en flest annað stendur óbreytt.
 
Bendir Axel á að þang vaxi einvörðungu í fjörunni, innan netlaga sjávarjarða. Landeigendur hafa mikla möguleika á því að stýra nýtingu fyrir landi sínu með ábyrgum hætti, hvort sem er einir sér eða í samstarfi við aðra landeigendur.“
 
Biður hann nefndarmenn að líta til þess sem gildir í öðrum löndum. Í Noregi falli réttur til nýtingar á þangi undir eigendur sjávarjarða [líkt og verið hafi á Íslandi um aldir /innskot blm].
Háskólasamstæða og hátæknilandbúnaður
Fréttir 22. janúar 2025

Háskólasamstæða og hátæknilandbúnaður

Vonir standa til þess að ný háskólasamstæða Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólans á ...

Einn úr bændastétt kjörinn til þingsetu
Fréttir 21. janúar 2025

Einn úr bændastétt kjörinn til þingsetu

Einungis einn bóndi var kjörinn til setu á Alþingi Íslendinga í nýliðnum kosning...

Nýr bæjarstjóri Múlaþings
Fréttir 21. janúar 2025

Nýr bæjarstjóri Múlaþings

Bæjarstjóraskipti eru að verða í sveitarfélaginu Múlaþingi.

Kúrsinn tekinn til framtíðar
Fréttir 20. janúar 2025

Kúrsinn tekinn til framtíðar

Þingeyjarsveit hefur samþykkt nýja heildarstefnu fyrir sveitarfélagið fram til á...

Skógareldar vaxandi vá
Fréttir 20. janúar 2025

Skógareldar vaxandi vá

Norðurlöndin skoða nú í sameiningu vaxandi hættu á víðtækum skógareldum.

Auka við atvinnuhúsnæði
Fréttir 17. janúar 2025

Auka við atvinnuhúsnæði

Sveitarfélagið Dalabyggð og Byggðastofnun hafa gert með sér viljayfirlýsingu um ...

Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur
Fréttir 17. janúar 2025

Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, segir br...

Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna
Fréttir 16. janúar 2025

Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna

Harpa Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem hagfræðingur Bændasamtaka Íslands og hóf...