Fuglum fækkar vegna óveðurs
Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar óveður skall á í síðustu viku.
Pedro Rodrigues, framkvæmdastjóri Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Melrakkasléttu, segir að umtalsverð fækkun fugla á svæðinu sé staðreynd.
„Það er allt mögulegt sem gerist í svona áfalli. Hreiður spillast, ungar krókna og fuglar flýja af staðnum og geta jafnvel komið sér fyrir á öðrum svæðum,“ segir Pedro en bætir við að fuglapör í góðu ástandi geti haldið utan um hópinn sinn og komið þeim upp, jafnvel í svona veðri. Þó áfallið sé mikið núna þurfi það ekki að hafa varanleg áhrif. Ef næsta vor verður skaplegt geti fuglalífið náð sér alveg á strik aftur. En ítrekuð hríðarveður ár eftir ár geti haft varanleg skaðleg áhrif.
„Þessir öfgar í veðurfari sem við erum að upplifa um allan heim eru líklegir til að halda áfram og þá auðvitað má búast við meiri hörmungum,“ segir hann.
Pedro, sem er frá Azoreyjum, hefur starfað hjá Rannsóknastöðinni Rifi í þrjú ár. Hann segist afar ánægður á Raufarhöfn, samfélagið sé gott og umhverfið fallegt. „Konan mín býr í Njarðvík en hún elskar líka Raufarhöfn og kemur eins oft og hún getur. Við erum búin að kaupa okkur hús hér á Raufarhöfn og njótum þess mjög að vera hér á þessum dásamlega stað.“
Rannsóknastöðin Rif átti tíu ára afmæli í maí á þessu ári. Hún var fyrst rekin sem sjálfstæð stofnun en er nú hluti af Náttúrustofu Norðurlands. Stöðinni er ætlað að efla rannsóknarstarf á Melrakkasléttu en þar er kjörlendi rannsókna á vistkerfi norðurslóða og áhrifa loftslags á vistkerfið.