Fyrsta bakaríið opnað á Flúðum
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Ég opnaði formlega fyrstu helgina í janúar og er kominn á fullt að baka fyrir fólk hér á Flúðum, sumarbústaðaeigendur og aðra sem eru hér á ferðinni.
Viðtökurnar hafa verið frábærar og það er búið að vera brjálað að gera,“ segir Sindri Daði Rafnsson, sem hefur opnað Sindra bakarí í bílskúrnum við Ljónastíg 8. Sindri lærði bakaraiðn í Danmörku þar sem hann bjó í tólf ár.
„Gamla handverkið er í mínu uppáhaldi, ég geri allt í höndunum á gamla mátann og er með gömul tæki sem virka eins og ný.
Mér finnst skemmtilegast að baka vínarbrauð en síðan er ég auðvitað með brauð, rúnstykki og fjölbreytt bakkelsi,“ bætir Sindri við.