Fyrsti viðarfarmurinn sendur til Elkem
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Mikill vöxtur er í skóginum á Gunnfríðarstöðum í Austur-Húnavatnssýslu og nú er verið að grisja 25 ára lerkiskóg sem gefa mun boli í fyrsta iðnviðarfarminn sem sendur verður járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Hluti efnisins nýtist sem flettiefni. Þetta kemur fram á vef Skógræktarinnar, skogur.is.
Kvikmyndagerðarmaðurinn og skógræktarráðgjafinn Hlynur Gauti Sigurðsson var á ferð í Gunnfríðarstöðum á Bakásum í Langadal í byrjun mánaðarins og hitti þar starfsbróður sinn, Johan Holst, sem var við grisjun í skóginum ásamt Helga Sigurðssyni. Landið hefur á aldarfjórðingi breyst úr berangri í skóg.
Lerkið ber merki áfalla
Reiturinn á Gunnfríðarstöðum sem Johan og Helgi eru að grisja er lerkireitur, rúmir tveir hektarar að stærð. Hann hefur orðið fyrir áföllum og lerkið ber þess merki, mörg trén margstofna og kræklótt, en þó segir Johan ótrúlegt hvað út úr skóginum fæst og vöxturinn með ólíkindum. Þarna er frjósamt land og skógræktarskilyrði góð. Reiturinn er í eigu Skógræktarfélags Austur-Húnvetninga. Árið 1961 fékk félagið jörðina Gunnfríðarstaði á Bakásum að gjöf og hóf gróðursetningu strax árið eftir. Jörðin hafði þá verið í eyði í allmörg ár. Gefendurnir voru hjónin Helga Jónsdóttir og Steingrímur Davíðsson.
Fyrstu fjögur árin voru gróðursettar um 74 þúsund trjáplöntur en ekkert var sett niður árið 1966 vegna baráttu við grasið. Fram að árinu 2000 voru gróðursettar um 200 þúsund trjáplöntur sem nú mynda rúmlega 70 ha myndarlegan skóg.
Frá árinu 2000 hefur fyrst og fremst verið plantað í Landgræðsluskógaverkefninu sem er á efri hluta jarðarinnar og hafa verið settar niður tæpar 100 þúsund plöntur, eða samanlagt um 300.000 plöntur á 50 árum. Mest hefur verið sett niður af lerki, birki og stafafuru.
Lerkið gefur iðnvið
Lerkið gefur nú iðnvið og er stefnt að því að senda einn timburbíl til Grundartanga þegar grisjuninni lýkur. Sumir bolirnir eru ótrúlega sverir miðað við aldur trjánna. Efni sem er flettingarhæft verður unnið að Silfrastöðum þar sem þau skógarbændurnir og skógfræðingarnir, Johan Holst og Hrefna Jóhannesdóttir, eru að koma sér upp viðarvinnslu. Meðal annars er hugmynd að nýta það til klæðningar á hús í Gunnfríðarstaðaskógi.