Gaman að geta gert samfélaginu gagn
„Það er alltaf gaman þegar maður hefur tök á að skreppa á vertíð,“ segir Baldur Grétarsson, sauðfjár- og ferðaþjónustubóndi á Skipalæk í Fellum. Hann var kallaður út til vinnu í rafmagnsleysinu sem upp kom í kjölfar óveðursins í liðinni viku. Baldur er gamall línumaður en hafði ekki unnið við fagið í 33 ár.
„Ég hélt ég væri búinn að gleyma þessu öllu,“ segir Baldur, en greinilega hafi allt geymst í vöðvaminninu því um leið og hann var kominn af stað, í gallann og með græjurnar hefði allt rifjast upp.
„Maður yngdist um mörg ár við þetta. Það er líka gaman að geta gert samfélaginu gagn í aðstæðum sem þessum,“ segir hann.
Baldur hefur verið við störf í Öxarfirði og var enn þegar Bændablaðið ræddi við hann í byrjun vikunnar. Raflínur þar á svæðinu voru illa farnar eftir mjög slæmt ísingaveður. Baldur var ásamt félögum sínum að vinna við byggðalínuna í Núpasveit, en hafði áður verið í Öxarfirði og á Melrakkasléttu.
Baldur var sauðfjárbóndi á Kirkjubæ í 17 ár en flutti að Skipalæk í Fellum og stundar ferðaþjónustu þar auk þess að eiga um 80 kindur. „Konan sinnir skjátunum á meðan og þetta er ekki mikill annatími í ferðaþjónustu, svo þegar leitað var til mín þá auðvitað brást ég við þeirri bón,“ segir Baldur.
Baldur hefur greinilega engu gleymt.