Göngustígar hjá Geysi
Framkvæmdir við nýtt gönguleiðakerfi á Geysissvæðinu í Haukadal í Bláskógabyggð hófust nýlega.
Leiðakerfinu er ætlað að bæta aðgengi á svæðinu og ekki síður til að hlífa náttúrunni við ágangi og raski ferðamanna sem fara um svæðið. Verklok fyrsta áfanga göngustígahringleiðar eru áætluð í haust en heildaruppbyggingu svæðisins á að vera lokið árið 2025.
Loka þarf hluta hverasvæðisins á meðan framkvæmdir standa yfir en lokanirnar verða þá vel merktar innan svæðisins. Allt rask sem til kemur vegna framkvæmda verður lagfært. Framkvæmdir á svæðinu eru í höndum Wiium verktaka en umsjónaraðili verkefnisins fyrir hönd Umhverfisstofnunar er Framkvæmdasýslan.
Geysissvæðið var friðlýst árið 2020 og er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.