Gröfumeistari fjórða árið í röð
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Þetta var gaman, ég er stoltur af sigrinum, það er gaman að halda verðlaununum í heimabyggð og ná að vinna keppnina fjórða árið í röð,“ segir Grétar Grímsson frá Syðri-Reykjum í Bláskógabyggð en hann sigraði glæsilega keppnina í gröfuleikum 2016 á sveitahátíðinni Tvær úr Tungunum laugardaginn 13. ágúst.
Átta keppendur tóku þátt en hver keppandi fékk 1 mínútu til að leysa hverja þraut. Byrjað var á því að skera gúrku niður í sneiðar á gröfunni, það gekk yfirleitt mjög vel. Næst var það að taka upp rör með skóflunni og raða þeim upp í pýramída, það var erfið þraut sem keppendum gekk illa með. Loks var það að taka upp bolta með skóflunni og setja hann ofan í mjólkurbrúsa. Nokkrir náðu einum bolta í brúsann en Grétar innsiglaði sigur sinn með því að ná tveimur bolta ofan í brúsann.