Gullklippurnar í hendur Jóns Ottesen
Það var handagangur í öskjunni þegar sex úrvalsrúningsmenn öttu kappi í keppninni um Gullklippurnar sem haldin var á Kex Hostel í Reykjavík um liðna helgi. Jón Ottesen bóndi á Grímarsstöðum bar sigur út býtum.
Fjöldi manns mætti og fylgdist með rúningi en á myndinni má sjá Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur, bónda á Ljótarstöðum, bera sig faglega að við snoðrúninginn. Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, var kynnir og Lilja Grétarsdóttir dæmdi af nákvæmni.
Það var síðan eitt af fyrstu embættisverkum nýs landbúnaðarráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, að afhenda Jóni Ottesen sigurlaunin. Viðburðurinn var skipulagður í samvinnu Landssamtaka sauðfjárbænda, sem endapunkturinn á aðalfundi og árshátíð, Bændablaðsins og forsvarsmanna Kex Hostel. Keppnin um Gullklippurnar var nú haldin í þriðja sinn.