Hættir að úða kókaakra
Yfirvöld í Kólumbíu eru hætt að úða kókaakra úr lofti eða á jörðu með illgresiseitrinu Round up. Ástæðan er aukin tíðni veikinda hjá smábændun sem eru sögð tengjast efninu glífósat.
Samkvæmt nýrri skýrslu um kókaínframleiðslu í Kólumbíu hefur ræktun á kókarunnum aukist um 39% frá síðasta ári þar í landi. Á síðasta ári er áætlað að framleiðslan hafi verið 185 tonn en að hún verði 245 tonn á þessu.
Ein af þeim aðferðum sem stjórnvöld í Kólumbíu hafa beitt í baráttunni við kókaínframleiðslu í landinu er að úða kókaakra bænda með illgresiseitrinu Round up og hafa bandarísk stjórnvöld stutt þá aðgerð frá árinu 1994 með hátt í tveggja milljarða dollara fjárframlagi.
Undanfarin ár hafa stjórnvöld í Kólumbíu haft vaxandi áhyggjur af heilsufari bænda sem stunda ræktunina. Kókaræktun í Kólumbíu er nánast eingöngu í höndum smábænda og fjölskyldubúa sem fá lítið fyrir uppskeruna. Dreifingaraðilar og þeir sem græða mest á afurðum laufanna koma þar hvergi nálægt.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið frá sér skýrslu þar sem sagt er að rík tengsl séu á milli notkunar á glífósat í landbúnaði og krabbameina í fólki. Tilraunir sýna einnig að kókaplöntur hafi myndað þol gegn Round up og að úðun með því auki einungis samkeppnishæfni hennar við aðrar plöntur.
Juan Manuel Santos forseti segir að í framhaldi af því að hætt verði að úða akra smábænda og fjölskyldubýla verði lögð aukin áhersla á að handsama stóra dreifingaraðila og smyglara.