Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ólafur Gunnar Sverrisson er stofnandi og einn eiganda fyrirtækisins Mink Campers sem framleiða íslenskt sporthýsi sem kemst á nánast hvaða áfangastað sem er.
Ólafur Gunnar Sverrisson er stofnandi og einn eiganda fyrirtækisins Mink Campers sem framleiða íslenskt sporthýsi sem kemst á nánast hvaða áfangastað sem er.
Mynd / Erla Gunnarsdóttir
Fréttir 19. september 2020

Haldið í nostalgíu útileguferða

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir

Ólafur Gunnar Sverrisson er stofnandi og einn eigandi fyrirtækisins. Hann er trébátasmiður að mennt en lærði jafnframt iðn- og keramikhönnun. Hann hefur alla tíð verið viðloðinn hönnun og listum sem jafnframt voru mikilvægir þættir við þróun og smíði Mink Campers-sporthýsanna. Ólafur er jafnframt einn stofnenda Íshúss Hafnarfjarðar sem er einkaframtak þar sem boðið er upp á vinnuaðstöðu fyrir hönnuði og listamenn. Mink Campers er einmitt staðsett í sama húsnæði og Íshúsið, gömlu frystihúsi við smábátahöfnina í Hafnarfirði.

„Hugmyndin er í raun upprunalega sprottin frá Óskari vini mínum sem er húsasmiður en hann sendi mér mynd af amerísku hjólhýsi sem kallast Tear Drops og kom á markað fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina. Það var heimasmíðað bílskúrsverkefni og er töluvert til af þessum dropum eða Tear Drops í Bandaríkjunum enn í dag. Hugmyndin var síðan að veltast um í hausnum á mér í töluverðan tíma og ég ræddi þetta í nokkur ár við frænda minn, Kolbein Björnsson, sem var þá búsettur í San Francisco,“ segir Ólafur.

Byggt á gamalli hugmynd

„Þetta var í kringum 2011 sem hugmyndin var að fæðast en ég og frændi minn hugsuðum hýsin í byrjun eingöngu sem leigumöguleika, það er, við ætluðum aldrei að fara framleiða hjólhýsi og selja til almennings heldur einungis til að leigja. Við hugsuðum að þannig gætum við í raun elt ferðamannastrauminn hvert sem er í heiminum. Við vildum auðvelda fólki að fara í útilegu og lögðumst því í mikla vinnu við að nútímavæða gömlu hugmyndina um dropann en við vildum halda í gömlu nostalgíuna við að fara í útilegu. Þannig að við hugsuðum tilbaka hvað það var sem gerði útilegur skemmtilegar. Jú, það þurfti að sækja vatn í lækinn og þess vegna erum við ekki með vatnstanka í Minknum sem dæmi. Hugsunin er einfaldleikinn, vagninn samanstendur af björtu innra rými með þægilegri 140x200 svefndýnu og stórum loftglugga en að utanverðu er eldunaraðstaða með kæliboxi. Svo er hægt að bæta við Webasto-hitakerfi, sólarsellu og Bose-hátalarkerfi. Ég vil þó taka fram að við erum ekki í samkeppni við hjólhýsi og húsbíla heldur viljum við mun frekar tengja okkur við tjaldútileguna og áherslan er á útivist og þetta á að vera meira tjaldfílingurinn,“ útskýrir Ólafur og segir jafnframt:

„Fyrstu fjögur árin vorum við eingöngu í útleigu og komumst að því að um 15% prósent af viðskiptavinum okkar höfðu aldrei farið í útilegu áður. Eitt frumskilyrðanna hjá okkur við hönnun og smíði hýsanna var að þau yrðu að þola nánast hvað sem er og geta verið í stanslausri notkun. Vagninn mátti ekki hristast í sundur á íslenskum malarvegum og hann yrði að þola vind og rok. Þó að Minkurinn Camper sé mjög léttur, nettur og lítill þá þolir hann vel íslenska rokið, á meðan flestir aðrir aftanívagnar þola í raun ekki meira en um 15 metra á sekúndu. Minkurinn er hugsaður fyrir náttúruunnendur, fólk sem vill komast á afskekkta staði með vagninn í eftirdragi og geta upplifað náttúruna og til dæmis stundað sína útivist og útiveru hvar og hvenær sem er.“

 

Samsuða hönnuða úr ólíkum áttum

Fyrstu sporthjólhýsin komu á markað árið 2015 og hingað til hefur fyrirtækið framleitt 26 vagna sem selst hafa hérlendis og erlendis. 

„Við höfum gert mismunandi útgáfur af frumgerðinni og erum núna komin niður á endanlega útgáfu. Nú felst þróunarvinnan í að vinna með hönnun ýmissa aukahluta eins og fortjöld og fleira. Við munum jafnvel hanna minni útgáfu af Mink Camper. Í ferlinu höfum við sankað að okkur rúmlega 10 hönnuðum sem hafa komið að þróunarvinnunni á mismunandi stigum. Þetta er því samstarfsverkefni margra ólíkra aðila. Við vildum gera hjólhýsi með skandínavísku og nútímalegu útliti sem myndi höfða fagurfræðilega til fólks. Hann á að líta svalur út aftan í hvaða bíl sem er þegar þú ert að draga hann. Við prófuðum mismunandi liti í rammann en enduðum á gula litnum því frá náttúrunnar hendi er guli liturinn fyrsti liturinn sem fólk tekur eftir, einn grunnlitana þriggja og hann kallar fram hlýju. Litur sólarinnar og gleðinnar. Það er líka engin tilviljun að umferðarskilti og vinnuvélar eru yfirleitt gul á litinn þar sem hann vekur athygli,“

Birgjar fyrirtækisins eru í Evrópu en undirvagninn kemur frá Þýskalandi, plastið er steypt í Bretlandi og glerið kemur frá Hollandi. Framleiðslan fer fram í Hafnarfirði þar sem hvert og eitt hýsi er sett saman.

„Eftirspurnin eftir kaupum hefur verið ofboðsleg þannig að við ákváðum að hvíla aðeins leiguþáttinn. Við höfum þurft að fara í endurhönnun og gera hýsið framleiðsluvænna en til stendur að hefja fjöldaframleiðslu fljótlega í Lettlandi. Við höfum þurft að setja þau áform í biðstöðu vegna heimsfaraldursins en reiknum með að geta hafið framleiðslu þar í október. Þá færumst við nær því að geta annað eftirspurn og afkastagetan verður mun meiri.“

 

Samstarf við bændur

Megnið af fyrirspurnum sem fyrirtækið fær kemur utan úr heimi en frá byrjun hafa hátt í 10 þúsund aðilar haft samband vegna áhuga á Minknum. 

„Við erum með 20 hýsi í smíðum núna en þau eru öll uppseld og fara til Noregs, Hollands og Frakklands. Einnig er önnur 20 hýsa pöntun uppseld og eitthvað af því fer hér á innanlandsmarkað. Þeir sem eru áhugasamir fyrir því að fá sér Mink eins og fyrir næsta sumar þurfa að vera snarir í snúningum að panta þar sem við framleiðum aðeins upp í pantanir eins og er,“ segir Ólafur og aðspurður um nafnið á sporthýsinu útskýrir hann:

„Minkurinn er útsjónarsamur einfari, hann ferðast ekki í hópum og fer sínar eigin leiðir. Við viljum dreifa ferðamönnum sem mest um allar sveitir og hluti hugmyndarinnar að nafninu er líka vísun í minkagreni. Við myndum gjarnan vilja koma á meiru samstarfi við bændur sem hafa upp á afþreyingu og þjónustu að bjóða. Við kæmum ferðamanninum á staðinn með gistinguna en hann kaupir upplifun, afþreyingu, skemmtun og þjónustu af heimafólkinu. Eftir þessu eru flestir ferðamenn að sækjast, hinni svokölluðu svæðisbundnu upplifun án mannmergðar en einnig þægilegum ferðamáta.“

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...