Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi
Á ferð sinni um Jótland hitti Magnús Halldórsson, umsjónarmaður Vísnahorns Bændablaðsins, bónda sem er af íslensku bergi brotinn.
„Þessi bóndi heitir Kjartan Poulsen og móðir hans var frá Nýjabæ í Meðallandi. Kjartan lét lítið af sínum búskap á Höjgaard á Suðvestur-Jótlandi, með 500 kýr í lífrænum búskap, en sagði að stærstu kúabændur í Danmörku væru með um eða yfir 3.000 kýr. Ekki eru notaðir róbótar við lífrænan búskap, eftir því sem mér skildist. En mjaltabásinn er með 40 mjaltatækjum og vinna tveir í einu við mjaltir. Morgunmjaltir taka þrjá tíma, en kvöldmjaltir um þrjá og hálfan tíma. Kýrnar eru úti á beit frá því í apríllok og fram í október, eða eftir tíðarfari.“
Kýrnar hans Kjartans eru af Hostein-friesian kyni, bæði svartskjöldóttar og rauðskjöldóttar. „Fóðurs er aflað á um 1.000 hekturum og síðan þarf auðvitað mikið beitiland. Það takmarkar bústærðina að vera í lífrænum búskap. Kýr og kálfar virtust álíka ánægð með tilveruna, eins og á betri búum íslenskum. Að sumarlagi eru starfandi um 15 manns við búið.
Kjartan var fyrsti bóndi með lífrænan búskap sem varð formaður Landssambands danskra kúabænda. Sem barn og unglingur við sumardvöl í Kollsvík, tuttlaði ég aðeins eina belju kvölds og morgna og þótti nóg,“ segir Magnús.