Hámark sett á magn greiðslumarks mjólkur sem óskað er eftir
Í dag undirritaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, reglugerðir um stuðning við nautgriparækt, sauðfjárrækt, garðyrkju og landbúnað, samkvæmt ákvæðum búvörusamninga frá 2016. Helsta breytingin felst í því að reglugerð um stuðning við nautgriparækt er nú kveðið á um þak á magn greiðslumarks sem að framleiðandi getur óskað eftir á hverjum markaði og miðast það nú við 100.000 lítra.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að eftirspurn eftir greiðslumarki í mjólk sé mikil og á síðustu mörkuðum hafi borist umsóknir um óraunhæft magn sem hefur gert það að verkum að minna var eftir af greiðslumarki fyrir þá sem að bjóða í það magn sem þeir raunverulega þurfa til að sinna starfsemi sinni. Jafnframt sé gerð sú breyting að innlausnardögum er fækkað og verða þeir nú þrír á ári. Hver framleiðandi getur því að hámarki óskað eftir 300.000 lítrum yfir árið. Í tilkynningunni kemur fram að stjórn Landssambands kúabænda hafi lýst yfir stuðningi við þessa breytingu.
Endurskoðun reglugerðanna var unnin í ráðuneytinu í samstarfi við Búnaðarstofu Matvælastofnunar og Bændasamtök Íslands. Drög að reglugerðunum voru sendar til umsagnar til hagsmunaaðila í desember.