Hátækni á Blönduósi
Foodsmart Nordic er nýtt framleiðslufyrirtæki fæðubótarefna og hefur sérhannað húsnæði á Blönduósi undir vinnsluna.
Í fréttatilkynningu segir að framleiðsla á tilraunastigi sé hafin og hyggist forsvarsmenn fyrirtækisins, þau Katrín Amni Friðriksdóttir og Viðar Þorkelsson, hefja formlega starfsemi í sumar. Að sögn þeirra er meginmarkmið Foodsmart Nordic að gera Ísland að virkum og vaxandi þátttakanda á alþjóðlegum fæðubótarmarkaði. Að baki félaginu standi öflugur hópur fjárfesta og þar af sumir með rætur á svæðinu. Rannsóknasetur félagsins er á Skagaströnd. Fæðubótarefnin eru framleidd úr íslensku sjávarfangi en rannsóknir hafa staðið yfir á m.a. kollageni, sæbjúgnadufti og fiskpróteinum úr íslenskum þorski.
Fjárfesting í fasteign að Ægisbraut 2 og tækjabúnaði nemur um eða yfir 500 m.kr. og stefnt að frekari stækkun þegar fyrirtækið hefur haslað sér völl. Áætlað er að framleiða um 150 tonn fullunninna afurða nú í fyrsta áfanga. Framleiðslan verður gæðavottuð til útflutnings.
Viðar segist vænta þess að Foodsmart Nordic auki fjölbreytni í atvinnulífinu á Blönduóssvæðinu. „Bein störf á svæðinu í tengslum við reksturinn verða um 15 á næstu 2-3 árum. Þá eru ótalin afleidd störf tengd núverandi uppbyggingu og svo viðskiptum til framtíðar, auk þess sem uppbygging nýsköpunarstarfsemi hefur jafnan hvetjandi áhrif á nærumhverfið,“ segir Viðar.