Hátíðir sumarsins
Skemmtanir yfir sumartímann hafa verið við lýði svo lengi sem elstu menn muna.
Hlakkað hefur verið til Sólstöðuhátíða um allt land þar sem viðstaddir gæða sér á pönnukökum og sólarkaffi, bíladagar á Akureyri kitla aðra, Vopnaskak Vopnafjarðar enn aðra og svo auðvitað hátíðir verslunarmannahelgarinnar í bland við allar þær tónlistarhátíðir, hannyrðadaga, miðaldadaga og götubitahátíðir sem fyrirfinnast – svo eitthvað sé nefnt.
Nú þegar þetta er sett á blað hefur fyrsta helgi júnímánaðar þegar runnið upp og því ekki hægt að stinga upp á skemmtunum yfir hvítasunnuna. Einhverjir hafa mögulega tekið þátt í Color Run hlaupi Reykvíkinga, Bjórhátíðinni á Hólum eða annars lags gleði – á meðan aðrir hafa furðað sig á hvers vegna aðstandendur Sjómannadagsins hafi ekki blásið í lúðra sína.
Samkvæmt vefsíðu Brim kemur fram í tilkynningu stjórnarformanns Sjómannadagsráðs, Aríels Péturssonar, að þótt sjómannadagurinn sé alla jafna haldinn fyrstu helgina í júní, beri nú hvítasunnuna upp á þá helgi í ár og því ákveðið að hátíðahöld í tilefni hans verði aðra helgina í júní eða þann tólfta.
Einnig kemur fram að í ár verði öllu tjaldað til þann dag og þó áður hafi sjómannadagurinn verið hluti af Hátíð hafsins verði það ekki nú í ár.
En nú skulum við líta yfir það sem helst er á döfinni í júnímánuði innan hvers landshluta. Júlí og ágúst verða svo teknir er þar að kemur. Svona eftir bestu getu og með þakklæti til þeirra er svara tölvupóstum á markaðsstofum þeirra. Þar má einnig finna frekari upplýsingar um neðangreind hátíðahöld.
Annað sem gott er að hafa bak við eyrað er Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði og svo má enginn gleyma Ljósanóttum Reykjanesbæjar sem eru dagana 1.- 4. september næstkomandi
Á döfinni í júní ...
Austurland & Austfirðir
12. júní Heimamyndadagar á Seyðisfirði.
15. júní Heimamyndadagur á Djúpavogi.
20.-23. júní Námskeiðið Útsaumur & útiveraHallormsstaðaskóla.
18.-25. júní Gönguvikan Á fætur í Fjarðabyggð, fjölskylduvænar gönguferðir og afþreying.
22.-23. júní Smiðjuhátíð Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði með breyttu sniði: Sýning í gömlu vjelasmiðjunni
og víðar um skriðuföllin, boðið verður upp á ljósmyndanámskeið, kótilettukvöld og tónleikar haldnir með Ragnheiði Gröndal og Guðmundi Péturssyni.
25. júní Skógardagurinn mikli í Hallormsstaðarskógi.
Norðurland & Norðausturland
17.-20. júní Sólstöðuhátíðin á Kópaskeri lengist um einn dag í ár, tónleikar með Bríeti þann 20. júní.
17.-20. júní Sólstöðuhátíð í Grímsey, dansleikur, sjávarréttakvöld og varðeldur.
16.-18. júní Bíladagar á Akureyri. Bílasýning, drift, burn-out, sand- og götuspyrna, eitthvað fyrir alla.
24.-26. júní Lummudagar! Notaleg fjölskylduhátíð í Skagafirði með fjölbreyttri dagskrá.
24.-26. júní Bæjarhátíðin Hofsós heim. Varðeldur, sjósund & markaðir.
Reykjanes, Suðurland, Suðaustur & Suðvesturland
10.-12. júní Bæjarhátíðin Sjóarinn síkáti í Grindavík.
10.-12. júní Upp í sveit – Sveitahátíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
10.-12. júní Hátíð hafsins í Reykjavík.
12. júní Sjómannadagurinn.
17. júní Þjóðhátíðardagur Íslendinga. Hátíðahöld víða um land.
15.-19. júní Víkingahátíðin í Hafnarfirði.
18.-21. júní Tónlistarhátíðin Secret Solstice í Reykjavík.
24.-26. júní Hvalfjarðardagar.
24.-26. júní Humarhátíð á Höfn í Hornafirði þar sem boðið er upp á humarsúpu og fjölbreytta skemmtidagskrá. Sömu helgi er í gangi flughátíð á Hornafjarðarflugvelli, sem fjölskylda Vignis Þorbjörnssonar heldur honum til heiðurs, en hann sinnti flugþjónustu Hornafjarðarflugvallar nánast allt sitt líf.
25. júní Jónsmessuhátíð Eyrarbakka. Varðeldur, markaðir o.fl.
30. júní-3. júlí Goslokahátíð Vestmannaeyja þar sem lokum eldgossins á Heimaey 1973 er fagnað.
Vesturland, Norðvesturland & Vestfirðir
24.-26. júní Hamingjudagar á Hólmavík fyrir alla fjölskylduna.
24.-26. júní Brákarhátíð – Fjölskylduhátíð í Borgarnesi og svo má ekki gleyma Landsmóti UMFÍ fyrir aldurshópinn 50+
24.-26. júní Danskir dagar á Stykkishólmi.
30. júní-2. júlí Markaðshelgin – Fjölskylduhátíð í Bolungarvík.
30. júní-3. júlí Írskir dagar – Bæjarhátíð á Akranesi.
(Svo er nú sjálfsagt eitthvað sem hefur ekki komist á lista, en hér að ofanverðu er ýmislegt upptalið sem má skemmta sér við.)