Hefur áhyggjur af lélegum girðingum með vegum og lausagöngu búfjár
Landbúnaðarnefnd Rangárþings eystra fékk nýlega erindi inn á sitt borð varðandi lausagöngu búfjár meðfram Þjóðvegi 1 í sveitarfélaginu þar sem bréfritari lýsti yfir áhyggjum af stöðu mála. Nefndin tók undir með bréfritara á síðasta fundi sínum og lýsti yfir áhyggjum sínum á ástandi veggirðinga í sveitarfélaginu og þar af leiðandi búfénaði á vegsvæði.
Í bókun nefndarinnar kemur fram að þeirri spurningu sé ósvarað; hver er ábyrgð veghaldara á ástandi girðinga með vegum? Og, stenst það lög að veghaldari taki land af landeigendum og varpi síðan ábyrgð á þá um friðun vegsvæðis?
Vilja ekki lausagöngubann
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum að hún getur ekki fallist á lausagöngubann að svo komnu máli meðfram Þjóðvegi 1. Landbúnaðarnefnd hvetur hins vegar búfjáreigendur að gera það sem í þeirra valdi stendur að halda búfé frá vegum og afsetja þann fénað sem sækir út á veg. Þá óskar nefndin eftir því við sveitarstjórn að skýrð verði réttindi og skyldur búfjár- og landeigenda annars vegar og veghaldara hins vegar. Byggðaráð Rangárþings eystra hefur samþykkt að haldinn verði sameiginlegur fundur sveitarstjórnar, landbúnaðarnefndar og samgöngu- og umferðarnefndar. Á fundinn verði fengnir fulltrúar frá Lögreglustjóranum á Suðurlandi og Vegagerðinni.